16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2903 í B-deild Alþingistíðinda. (2529)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér er til umr. till. til þál. um kennslu í Íslandssögu. Í ályktuninni sjálfri er talað um aukna kennslu í sögu íslensku þjóðarinnar. Síðan kemur fram að kennslan á ekki aðeins að vera við það miðuð að nemendur öðlist þekkingu og skilning á sögu, heldur beri þeim að öðlast trú á landið og vilja til að varðveita ellefu hundruð ára menningarsamfélag.

Áherslan virðist raunar vera á aukna Íslandssögukennslu til að menn öðlist trú á land og vilja til að varðveita menningu. Að þessum niðurstöðum fengnum hljóta menn að hafa einhverja ástæðu til að efast um að fólk almennt hafi næga trú á land og að það skorti vilja til að varðveita þetta samfélag. Væntanlega leitum við þá rökstuðnings fyrir því í grg. Í grg. er hins vegar einungis það að finna að könnun í aldursflokknum 16 til 20 ára hafi leitt í ljós, svo tekin séu dæmi, að einungis 13.1% viti hver var fyrsti forseti Íslands og einungis 50% viti hvenær kristni var lögtekin.

Þetta eru niðurstöður sem geta vakið til umhugsunar um kennslu og þekkingu í Íslandssögu og þá geta vaknað spurningar eins og hver er eðlileg þekkingarprósenta í Íslandssögu, fer þessari þekkingu hnignandi og hvar eru hættumörkin, hvenær erum við komin niður á hættulegt þekkingarstig í Íslandssögu. Þetta er sem sagt könnun á þekkingu. Það er engin könnun á því hvað er trú á landið. Það er engin könnun á því hvort menn skorti vilja til að varðveita þetta samfélag. Það sé ég hvergi. Og mig langar til að spyrja: Hvað þarf að fá mikið á prófi í Íslandssögu til þess að vera gjaldgengur í hópinn sem hefur trú á land og vill varðveita menningu í þessu landi? Og menn geta þá líka spurt: Hvert er þá sambandið á milli þekkingar í Íslandssögu og ættjarðarástar?

Það fólk sem ég þekki af öllum aldursflokkum hefur sýnt trú á þetta land og vilja til að varðveita þetta samfélag með búsetunni hérna. Hérna hefur fólk búið í ár og árhundruð. Það hefur oft búið við kröpp kjör. Nú eru laun hér með því lægsta sem gerist líklega í vestrænum samfélögum og kjör eru krappari en á Vesturtöndum. Við búum hérna við, að því er okkur finnst, ævintýralega lágan meðalhita og rigningarsöm sumur, en við búum hérna samt. Og ég held að með þrautseigju sinni og búsetu í þessu landi hafi fólk sýnt vilja sinn til að varðveita þetta samfélag og sýnt trú á þetta land.

Mér finnst þáltill. mjög skrýtin vegna þeirrar undarlegu tvíhyggju sem þarna er, þar sem niðurstöður úr könnun á Íslandssöguþekkingu eru lagðar til grundvallar því, að manni virðist, að efast um nægilega trú á land og þjóð. Þessi ályktun hefði kannske verið eðlileg ef í grg. hafi verið talað um t.d. vaxandi landflótta frá þessu landi eða það gætti vaxandi vantrausts í landinu á getu Íslendinga til að ráða málum sínum sjálfir, til að ráða t.d. atvinnumálum sínum sjálfir, til að starfrækja sinn eigin atvinnurekstur, eða ef grg. hefði getað birt niðurstöður um að Íslendingar væru taglhnýtingar erlendra þjóða eða erlendra þjóðasamtaka í sambandi við skoðanamyndun. Þá hefði kannske verið ástæða til að flytja þessa þáltill. með þeim útlistunum sem þar eru.

Ég vil að lokum segja að þær upplýsingar sem í grg. eru geta kannske gefið ákveðna vísbendingu um ásigkomulag Íslandssöguþekkingar og Íslandssögukennslu, en þær hafa ekkert með trú á land og vilja til að varðveita þetta samfélag að gera.