27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

1. mál, fjárlög 1984

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Til umr. er mikið og merkilegt plagg, áætlun um sameiginlegan heimilisrekstur okkar allra. Um svo merkilegt plagg ber auðvitað að fjalla af alvöru og ábyrgð. Ég get nú ekki að því gert að við lestur þessa frv. skaut upp í huga mér svipmynd úr einhverju áramótaskaupinu, þar sem ábúðarmikill hagfræðingur var spurður hvernig ástandið í fjármálum þjóðarinnar væri og hann svaraði, ef ég man rétt, eitthvað á þessa leið: Eigi veit ég það svo gjörla, en hitt veit ég, að af er hagfóturinn, og það um hné.

Annars ætlaði ég að byrja á því að óska okkur öllum til hamingju með að loðnuveiðar skuli vera að hefjast. Aflaforsendur þjóðhagsáætlunar miðast við 250 þús. tonna loðnuafla á þessu ári og 400 þús. tonn á næsta ári og væri óskandi að þær forsendur stæðust, því að, eins og segir í þjóðhagsáætlun fyrir árið 1984, bregðist loðnuveiðar er mikill vandi á höndum.

En það gæti fleira brugðist árið 1984 en loðnuveiðar. T.d. er erfitt að ímynda sér, að ekki sé meira sagt, að áætlun fjárlagafrv. um gjöld af innflutningi eða skatta af seldri vöru og þjónustu geti staðist, eins og búið er að fara með kaupgetu fólks, og enn þá erfiðara er að ímynda sér að áform um sölu skuldabréfa til almennings innanlands fái staðist.

Hverjir eiga að kaupa þessi bréf? Ég verð að játa að sú setning í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. að „áhersla verði lögð á fjölbreyttari sparnaðarform fyrir almenning“ verkar heldur kaldhæðnislega við núverandi aðstæður. Almenning skortir áreiðanlega annað frekar en fjölbreytt sparnaðarform. Mér líst illa á að þessi lánsfjáröflun sé fær leið.

Þá vil ég einnig láta í ljós áhyggjur vegna áforma um að sækja frekara lánsfé í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þörf fyrir fjárveitingar í samræmi við upprunalegt markmið þess sjóðs kynni að breytast þegar á næsta ári.

En snúum okkur að gjaldahlið þessa frv. Í stórum dráttum má segja að hér er verið að draga saman seglin. Þetta er vissulega aðhaldsfrv. Bæði fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunin sýna verulega tilraunir til sparnaðar, þótt svo sannarlega megi svo deila um einstaka liði sem undir hnífnum lenda og ekki síður um þá sem hafa sloppið við þann leiða kuta. Hins vegar kem ég ekki auga á neinar raunverulegar tilraunir til uppbyggingar atvinnulífsins, sem hlýtur þó að vera forsenda þess að við getum unnið okkur út úr vandanum, eins og það er orðað. Var ekki ætlunin að leggja nýjan grundvöll að bættum lífskjörum þjóðarinnar á næstu árum? Þess sér ekki stað í þessum plöggum. Göfugt markmið um atvinnuöryggi næst aldrei nema atvinnulífið sé treyst.

Megineinkenni þessa frv., svo og lánsfjáráætlunar, eru að mínum dómi þau, að hér er fyrst og fremst verið að skera niður, en engar tilraunir gerðar til uppbyggingar. Það hefði t.d. mátt búast við myndarlegu framlagi til uppbyggingar fiskræktar og fiskeldis, sem flestir eru sammála um að sé verulega álitlegur atvinnuvegur. Framlag til Fiskræktarsjóðs hækkar um 150 þús. kr. og verður 600 þús. kr., slík er rausnin.

Eflaust verður nú einhverjum hugsað til iðnaðarins. Samkvæmt könnun Félags ísl. iðnrekenda í sept. s.l. er hagur íslensks iðnaðar í betra lagi en verið hefur um langt skeið. Það eru góð tíðindi og vonandi blómstra íslensk iðnfyrirtæki sem lengst og mest og best. Stærstu möguleikar okkar til atvinnuuppbyggingar eru einmitt í ýmiss konar iðnaði. Aðalorsök þessa blómaskeiðs er auðvitað gengisfellingin í vor, sem bætti stórlega samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar. Hins vegar geta aðrar aðgerðir ríkisstj. hæglega orðið til þess að eyðileggja áhrif gengisfellingarinnar. Það verður erfitt að auka hlutdeild iðnaðar á innanlandsmarkaði þegar áhrif minnkandi kaupgetu eru að fullu komin í ljós. Og í yfirliti yfir fjárfestingarlánasjóði sést að enn er ætlað minna fé til fjárfestingar í iðnaði en í þeim greinum sem þegar hefur verið fjárfest of mikið í, svo sem í fiskveiðum og landbúnaði.

Ef við lítum nú nánar á einstaka þætti, sem hér eru gerðar till. um, hlýt ég fyrst og fremst að benda á þann lið sem nefndur er yfirstjórn. Þann lið hefði ég viljað sjá lækkaðan til muna og ég vona að hann verði lækkaður í meðferð þingsins. Þegar skoðuð eru einstök rn. er ljóst að yfirstjórn þeirra hefur verið litin sérstökum náðaraugum. Ég bendi á forsrn., þar sem liðurinn Yfirstjórn fær 107.6% hækkun, og utanrrn. fær 113% hækkun á þeim lið. Yfirstjórn menntamála hækkar um 84.3% meðan fjárveiting til fræðslumála hækkar um 53.4% og söfn, listir og önnur menningarstarfsemi fá aðeins um 27.8% hækkun. Svona má taka fyrir hvert einasta rn. Alls staðar er sama sagan: yfirstjórn fær mestu hækkunina. Þar virðist þörfin mest. Þetta finnst mér afleitt og raunar eitt það versta sem lesa má út úr þessu frv.

Auðvitað átti að skera meira niður til yfirstjórnar og þá miða ég við einfalda reglu allra góðra húsmæðra og húsbænda. Þegar harðnar í ári byrja þau á sjálfum sér. Skyldu tilmælin til ráðuneytisstjóra og forstjóra ríkisstofnana hafa verið orðuð eitthvað líkt og tilmætin til námsmanna, að þeir yrðu að taka á sig kjaraskerðingu?

Hvað á svo að spara í yfirstjórninni? Það vantar raunar alla sundurliðun, svo að það er erfitt að taka út einstaka þætti. En það er margbúið að benda á nauðsyn aðhalds á þessu sviði, aðhalds í sambandi við bílakaup og önnur fríðindi, bílarekstur, aðhalds í sambandi við utanlandsferðir, aðhalds í mannaráðningum. Það er óneitanlega dálítið mótsagnakennt að um leið og ráðh. marka þá stefnu að ekki skuli ráða í stöður sem losna hjá ríkinu ráða þeir sér fleiri aðstoðarráðherra en áður hefur tíðkast og meira að segja fleiri en heimild er fyrir í fjárlagafrv. Það vita líka allir að á vegum rn. eru gjarna haldnar veislur, raunar við ótrúlegustu tækifæri, þar sem vel er veitt. Og þótt gestrisni hafi alltaf verið í hávegum höfð á Íslandi held ég að þarna sé liður sem hafa mætti gát á.

Svona mætti náttúrlega lengi telja, en áður en skilist er við yfirstjórnina vil ég benda á að sú aðferð sem einkum er notuð við gerð fjárlaga er meingölluð, því hún beinlínis refsar fyrir sparnað. Þegar ákvörðuð eru framlög til stofnana og rn. er vitanlega reynt að taka tillit til óska og þarfa viðkomandi, en þá gildir svipuð regla og hjá þeim sem slá í bönkum. Þeir biðja venjulega um helmingi meira en þeir þurfa því reynslan hefur kennt þeim að upphæðin verður skorin niður. Ef einhver stofnun eða rn. beitir ýtrasta sparnaði í rekstri er þeim refsað á næsta ári með því að fá svipaða framreiknun og sú stofnun sem eyddi um efni fram. Ekki hvetur þetta til ráðdeildar. Algengara er vafalaust að æðstu stjórnendur stofnana biðji um hæstu fölur sem þeir þora að nefna og reyni eftir megni að verja beiðnir sínar.

Þeir sem bera ábyrgð á þessu frv. segja að það sé verið að viðurkenna staðreyndir með því að taka meira tillit til niðurstaðna ríkisreikninga en áætlana á síðustu fjárlögum. Það má satt vera. En með því er einmitt verið að refsa þeim sem best tókst að standast áætlun. Ekki er stund til að ræða leiðir til úrbóta nú, en nefna má að meira þyrfti að gera af því að endurskoða fastar fjárveitingar og helst allan fjárlagagrunninn reglulega.

Það skal viðurkennt að gömul mistök hljóta að setja höfundum fjárlaga býsna þröngar skorður. Vegna verðbólgu, en þó fyrst og fremst vegna rangrar fjárfestingar undanfarinna ára og áratuga, sitjum við uppi með stórkostlega skuldabagga, sem vissulega þrengja leiðina út úr ógöngunum. Nægir þar að nefna gífurlegar skuldir okkar vegna virkjunarframkvæmda og stóriðju, að ekki sé minnst á skuldir vegna skipakaupa. Og ég hlýt að lýsa áhyggjum vegna fyrirhugaðra framkvæmda við verkefni sem ekki skila neinum arði, eins og flugstöðina á Keflavíkurflugvelli, og annarra sem engan veginn er tryggt að skili arði í þjóðarbúið, svo sem steinullarverksmiðju, sem líklegt er að verði eitt af vandræðabörnum þessarar þjóðar, til orðin fyrir atbeina misviturra stjórnmálamanna. Þykir mér þar illa farið með forsenduna í þjóðhagsáætlun, sem er látin hljóða svo, „að beina fjárfestingu fyrst og fremst í arðbær verkefni“.

Mér er einnig ljóst að föst lögbundin framlög eru stór hluti af fjárlögum, jafnvel allt að 70% af heildarútgjöldum ríkisins hefur heyrst nefnt, og má augljóst vera að ekki er svigrúmið mikið til nýjunganna, en þeim mun meira áríðandi að nota það vel. Þeim mun sárara er að sjá áform um að eyða því litla fé sem til skiptanna er í óskynsamlega framkvæmd eins og flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Í þá framkvæmd eina — og það er náttúrlega bara byrjunin — er á næsta ári áætlað meira fjármagn en til framkvæmda á öllum öðrum flugvöllum landsins. Í flugstöðina fer á næsta ári meira en þreföld sú upphæð sem ætluð er til byggingar dagvistarheimila. Og svo enn ein viðmiðunin sé nefnd: Framlagið til flugstöðvarinnar nemur á næsta ári þriðjungi af þeim niðurskurði, sem ætlaður er í heilbrigðismálunum.

Þá erum við náttúrlega komin enn einu sinni að áherslumuninum, hver forgangsröðin á að vera, hvaða verðmætamat við leggjum til grundvallar. Við athugun einstakra liða í þessu fjárlagafrv. vakna oft spurningar í þá veru. Ég nefni hér örfá dæmi: Þurfum við t.d. nauðsynlega að hækka framlag til skrifstofu ráðherranefndar Norðurlandaráðs úr 2.3 millj. í 6.5 millj. eða nánar tiltekið um heilar 4 221 þús. kr.? Var einhver skyndileg brýn nauðsyn á að hækka framlag til byggingar Hallgrímskirkju um 3.3 millj. úr 1 millj. á fjárlögum yfirstandandi árs í 4.3 millj. á næsta ári? Hefur þessi kirkja ekki verið í byggingu í áratugi? Býður efnahagsástandið upp á þessa skyndilegu hækkun til hennar öðru fremur? Hvaða knýjandi þörf er á dreifingu sjónvarpsefnis undir liðnum Norræn samvinna fyrir rúmlega 1 millj.? Eru allir sammála um nauðsyn þess að eyða 50 þús. kr. í eyðingu vargfugls? Þetta eru smáar upphæðir, sumar hverjar, en það safnast þegar saman kemur.

Í landbrn. er mörg matarholan, þótt viðurkenna verði að þar var hnífnum óvenjuskarplega beitt í þetta sinn, enda af ýmsu að taka. Og meira er eftir. Ég nefni smáupphæð eins og 200 þús. kr. sem ætlaðar eru til frumathugunar á byggingu loðdýrahúsa á Hvanneyri. Frumathugun! Ja, dýr mundi Hafliði allur! Ég nefni stærri upphæð sem einnig vekur spurningar um ráðdeild: 2 900 þús. eru ætlaðar til að ljúka þjónustubyggingu við hesthús á Bændaskólanum á Hótum. Ekki einu sinni fyrrverandi landbrh. gat skýrt fyrir mér hverslags hús þetta væri. — Og ekki verður skilist svo við landbúnaðinn að ekki sé minnst á útflutningsuppbæturnar. Þær eru nú áætlaðar samlats 280 millj. kr.

Ég held ég tíni ekki til fleiri dæmi að sinni, en við getum endalaust spurt okkur spurninga um þessar og þvílíkar upphæðir og við eigum að spyrja okkur slíkra spurninga. Efalaust falla einhverjar þessara upphæða inn í rammann um föst lögbundin framlög, en samtals gera þessar upphæðir, sem ég hef nefnt hér, um 400 millj. kr., ef meðtalin er sú upphæð sem ætluð er í margnefnda flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Og ef við reiknum með að álitleg upphæð fengist með sparnaði í yfirstjórn allra rn. og stofnana ríkisins, rétt eins og landsmenn þurfa að sætta sig við á heimilum sínum, þá er nú ögn farin að lagast sú upphæð sem til skiptanna er.

Að lokum langar mig að benda á fáein atriði með sérstöku tilliti til hagsmuna kvenna.

Það er þá fyrst, hvort sú samdráttarstefna sem hér er fylgt leiði ekki til minnkandi atvinnu á ýmsum sviðum og hvort það muni ekki bitna fyrst og fremst á konum. Ég óttast það alvarlega — og meira en það: ég er sannfærð um það. Ein setning í framsöguræðu fjmrh. vakti með mér meiri hroll en aðrar. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Undanfarin ár hefur ríkt umframeftirspurn á vinnumarkaðnum og má því ætla að nú stefni í átt til betra jafnvægis“. Konur hafa alltaf verið notaðar og látið nota sig möglunarlítið sem eins konar sveiflujafnara í atvinnulífinu. Þær hafa tekið á sig þensluna, komið út af heimilunum þegar mikið hefur legið við þegar umframeftirspurnin togar í þær en verið sendar heim aftur á samdráttartímum. Ótrúlega mörgum finnst þetta hreinlega allt í lagi. En þetta gengur ekki lengur. Menn verða að skilja að þjóðfélagsgerðin hefur breyst. Konur eru ekki lengur neitt varavinnuafl. Þær eru fyrirvinnur engu síður en karlar, þótt illa gangi að fá það viðurkennt.

Nú má búast við samdrætti t.d. í verslun og þjónustu, þar sem vinnuaflið er að stórum hluta konur. Við vitum öll hver afleiðingin yrði af slíkum samdrætti.

Samdráttur í heilbrigðismálum bitnar án efa fyrst og fremst á konum, eins og sjá mátti þegar byrjað var á því að kanna hvort ekki mætti spara hjá lægst launaða fólkinu á ríkisspítölunum, í eldhúsi og þvottahúsi, en þar eru auðvitað konur í meiri hluta. — Reyndar er sama hvar borið er niður í heilbrigðisþjónustunni. Konur eru í miklum meiri hluta á næstum öllum sviðum hennar. Konur bera beinlínis uppi heilbrigðisþjónustuna. Þetta er nokkuð sem furðu fáir hafa gert sér grein fyrir.

Og samdráttur í byggingu dagvistarheimila bitnar náttúrlega fyrst og fremst á konum og börnum. Það þarf varla frekari skýringa við.

Það er ef til vill engin tilviljun að allir þeir liðir sem ég nefndi hér áðan til sparnaðar eru dálitið „karlalegir“, ef svo má segja — eða hverjir eru fjölmennastir í yfirstjórnum rn. og stofnana?

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.