16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (2532)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil fagna fram kominni þáltill. um kennslu í Íslandssögu. Það er undarlegur boðskapur sem kom fram í ræðu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur þar sem hún fór marga hringi í kringum sjálfa sig í málflutningi sínum, boðskapur sem hafði hvorki upphaf né endi, boðskapur sem ver ekki hagsmuni íslenskra kvenna né karla, boðskapur sem ver sjónarmið alþjóðaflatlendishyggju. Það er ekki í fyrsta skipti á hinu háa Alþingi sem svo berlega kemur í ljós að talsmenn Kvennalista eru hallir undir sjónarmið Alþb. Þetta kom fyrst í ljós í atkvgr. í haust hér á Alþingi um fjárlög. Þá var eftirtektarvert að fulltrúar Kvennalista greiddu ekki alltaf atkv. með till. sem þeirra fulltrúi í fjvn. hafði samþykkt en ef þm. Alþb. greiddu atkv. greiddu fulltrúar Kvennalista einnig atkv. (KH: Þetta er alveg öfugt.)

Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Eiðs Guðnasonar, um þann útúrsnúning sem kom fram í ræðu Kristínar Halldórsdóttur um kennarastéttina á Íslandi. Hér er verið að ræða um eitt af grundvallaratriðum íslenskrar menningar, íslenskrar þjóðar í fortíð og framtíð. Það er furðulegt þegar þm. gera slík mál að leiksoppi. Yfir landið flæðir alls kyns menning, tæknivædd og ótæknivædd, alls kyns innflutningur af ýmsu bergi brotinn sem hefur áhrif á okkar menningu. Með þessum sívaxandi þrýstingi frá alþjóðaflatlendishyggjunni er enn meiri ástæða til þess fyrir íslenska þjóð að gæta hagsmuna sinna, halda reisn sinni og standa upp úr þeirri moðsuðu sem hefur komið fram hér í ræðum ýmissa þm.

Ef maður ætti að taka mark á málflutningi hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur byggi íslensk þjóð við dauða og djöful í aðbúnaði í kennslu og menningarmálum þjóðarinnar. Ég mótmæli harðlega slíkri moðsuðu. Þetta ber vott um taugaveiklun sem við skulum varast og láta flæða hjá. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það er margt sem okkur ber að gæta að og huga að í íslensku skólakerfi. Númer eitt eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns er íslensk tunga. Ef við höldum ekki okkar tungu hreinni töpum við okkar sjálfstæði. Þáttur í þeirri þjóðrækt sem þarf að fylgja íslenskri tungu er íslensku- og sögukennsla samhliða í skólum landsins.

Við gagnrýnum oft aðrar þjóðir fyrir að skipta sér af einu og öðru hjá grönnum og öðrum þjóðum. En við skulum gera okkur grein fyrir því að við sitjum uppi með skótakerfi sem nýtist okkur á margan hátt en gerir samt sem áður ekki ráð fyrir höfuðatvinnuvegum íslensks þjóðfélags um langa hríð. Við sitjum uppi með skótakerfi sem byggir á dönsku kerfi, sænsku og ensku, skótakerfi sem er byggt upp fyrir iðnaðarsamfélög. Það er kannske þess vegna sem við búum við það að bæði sjávarútvegur og landbúnaður eru hornrekur í íslensku þjóðfélagi. Við erum með þessu skólakerfi að rækta okkar unga fólk frá þessum atvinnuvegum, rækta það inn á aðrar brautir sem við munum kannske byggja meira á í framtíðinni en við höfum gert. En engu að síður vanrækjum við þessar tvær greinar í okkar íslenska skólakerfi þar sem þeir skólar sem eiga að sinna sjávarútvegi og landbúnaði eru sannanlega hornrekur í skólakerfinu. Þetta er einn liður í þjóðræktinni sem við eigum að taka upp og leggja meiri áherslu á með aukinni kennslu í Íslandssögu.

Hv. þm. Kristín Halldórsdóttir harmaði fornar hefðir í kennslu. Ég er sammála þm. í þeim efnum að ástæða er til að þeir unglingar sem nú eru í skólum landsins eigi sama kost og var í kennslu áður fyrr þar sem lögð var mikil rækt við sögukennslu í skólum landsins. Það er því miður liðin tíð um sinn að því sé sinnt sem skyldi. Þess vegna ber að fagna till. sem vill stuðla að því að Íslendingar eigi þess kost að halda reisn sinni sem þjóð í hafi hinna stóru þjóða allt um kring. Ef það hefur nokkurn tíma verið nauðsynlegt að leggja áherslu á að skerpa persónueinkenni íslenskrar þjóðar er það í dag. Þetta ætti því ekki að vera deilumál á hinu háa Alþingi Íslendinga.