16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2916 í B-deild Alþingistíðinda. (2534)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að hafa mörg orð nú, ég hef þegar sagt það sem ég vildi koma á framfæri við umr. um þessa þáltill.

Hv. 1. flm. till., 5. landsk. þm., er sár yfir útúrsnúningi þm. á máli hans og finnst mér nú eiginlega að þá sé útúrsnúningurinn farinn að dansa polka um alla þingsali því að ekki er ljóst lengur hver er að snúa út úr fyrir hverjum.

Það er ekkert neikvætt við að efla kennslu í Íslandssögu, sagði hv. þm. Ég kannast ekki við að neinn þm., sem hefur talað hér úr ræðustól, hafi haft það á orði. Menn hafa hins vegar haft mismunandi hugmyndir um hvernig Íslandssögu ætti að kenna. Ég gerði að umtalsefni hér í Sþ. á þriðjudaginn var ákveðið atriði í sögukennslu og talaði um að ég lýsti fyllsta stuðningi við aukna kennslu í Ístandssögu svo lengi sem það væri kennsla í sögu allrar þjóðarinnar en ekki aðeins hluta hennar.

Öll erum við menn, segir hv. þm., og það er einmitt mergurinn málsins, líka með Íslandssöguna. Og þá spyr ég enn eins og ég spurði hér áðan: Hvar eru þeir menn í Íslandssögunni sem að kynferði eru konur? Eins og ég hef áður sagt þegir Íslandssagan um alla þessa kvenkyns menn, öðru nafni konur.

Ég nefndi tildrögin að Háskóla Íslands sem dæmi um hvernig þagað væri yfir hlut kvenna í sögunni. Vitaskuld er engin ein ástæða fyrir stofnun Háskóla Íslands. Það er yfirleitt engin ein ástæða fyrir einum einasta hlut, eins og við vitum öll. Hv. þm. minntist á að frv. hefði verið flutt hér í þinginu árið 1881 um stofnun þeirrar merku stofnunar, háskólans, en síðan var ekkert.um framkvæmdir. Ég vil upplýsa hv. þm. um að 26. janúar 1894 boðuðu átta konur til fundar í Reykjavík til að stofna sjóð sem mætti verða til þess að hægt væri að hefja byggingu Háskóla Íslands. Þessi samskot, sem konurnar stóðu fyrir, urðu síðan til að ýta því máli áfram. Þetta er hvergi að finna í Íslandssögunni.

Það er líka einkar fróðlegt að rifja upp hvaða ástæður þessar ágætu konur höfðu fyrir því að vilja reisa þessa merku stofnun hér á landi. Hún var sú að þær vildu ekki sjá eftir sonum sínum, ungum og óhörðnuðum, í sollinn í Kaupmannahöfn. Ekkert af þessu finnum við á spjöldum hinnar opinberu sögu Íslendinga. — Það er kannske rétt að ég taki það fram að ekkert af þessu finnum við í Íslandssögukennslubókum.

Hv. þm. var svolítið sár yfir því að ég hefði sagt að hann hefði sagt að karlar og konur væru ekki eins. Hann sagði þetta ekki, ég sagði þetta, og leiðréttist það hér með. Konur eru menn skv. íslenskum málskilningi — maður þýðir kona. Ef það væri svo einhlítt, hvernig litist okkur þá á að hið fræga skáldverk Jóns Thoroddsens, Maður og kona, héti Karl og maður. Það gæti heitið það ef orðið maður þýddi jöfnum höndum karl og maður. Við gætum líka sagt í staðinn fyrir „kona er manni gefin“: maður er karli gefinn.