16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2917 í B-deild Alþingistíðinda. (2535)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ýmsum kann að finnast að þessi umr. um ekki orðfleiri till. en hér er til umræðu dragist nokkuð á langinn. En ég tel að hún sé á marga lund gagnleg. Margt af því sem hér er sagt er a.m.k. upplýsandi fyrir okkur sem leggjum þar við eyra. Og ég geri ráð fyrir að ýmsir sem fara yfir þetta efni í þingtíðindum muni undir það taka.

Ég hefði vissulega kosið að skóla- og fræðslumál væru til umr. á hv. Alþingi af öðru tilefni en þessari þáltill., að hér lægju fyrir til umr. veigameiri mál og betur rökstudd en er að finna í þessari till. varðandi skóla- og fræðslumál. Ég hefði kosið að við hefðum hér á Alþingi nú til meðferðar t.d. svo brýnt málefni sem frv. til l. um framhaldsskóla, sem staðið hefur í mönnum að taka afstöðu til á löggjafarsamkomunni árum saman, og það er harmsefni að enn skuli það frv. ekki sjá hér dagsins ljós.

Hins vegar eru umr. um þennan þátt skólamála og það sem á bak við liggur, þær deilur sem hér koma fram, gagnlegar því að þær varpa vissulega ljósi á allólík viðhorf manna til viðfangsefna og aðferða í sambandi við skóla- og uppeldismál.

Ég ætla að víkja að fáeinum atriðum í máli manna og þá ekki síst í síðustu ræðu hv. 1. flm., Eiðs Guðnasonar, þó að hann svaraði ekki því sem ég hafði vænst að hann svaraði nema að litlu leyti. Ég beindi til hans í fyrri ræðu minni ákveðnum spurningum sem ég taldi að svara þyrfti. Það væri þá fyrst og fremst skylda 1. flm. að veita svör í sambandi við efni þáltill., þar sem gert er ráð fyrir að auka kennslu í sögu íslensku þjóðarinnar. Hvar á að draga úr kennslu á móti, eða er þm. að gera ráð fyrir að lengdur verði sá tími sem nemendum er ætlað að sitja í skólum? (EG: Ég svaraði þessu áðan.) Ég tók ekki eftir því að hv. 1. flm. véki að því hvar hann vildi draga úr í sambandi við fræðsluefni á grunnskólastigi. Það er vissulega einn vandi skólanna, sem leitast hefur verið við að koma til móts við með endurskoðun á námsefni, m.a. í Íslandssögu og í samfélagsfræðum, að stöðugt er verið að gera auknar kröfur til skólanna í sambandi við fræðslu í ýmsum nýjum viðfangsefnum sem upp koma, m.a. fyrir tilstuðlan og hvatningu hv. Alþingis. Ég gæti þar margt til tínt, en menn hafa eflaust hver dæmi í sínum huga. Ég get m.a. nefnt kennslu varðandi ávana- og fíkniefni, svo eitt tiltölulega nýlegt dæmi sé tekið, og það sem tengist tækniþróuninni og nauðsynlegt er að sjálfsögðu að nemendur á grunnskólastigi fái nokkra innsýn í.

En þó að hv. þm. gæfi ekki skýr svör við þessu atriði, sem ég hér nefndi, kom þó ljóst fram í máli hans nú, sem ekki kom fram í framsögu, að hann virðist vera allandsnúinn þeirri endurskoðun kennsluefnis undir merkjum samfélagsfræði sem unnið hefur verið að frá árinu 1974 að telja. Hann kallaði samþættinguna öðru nafni samþvætting, taldi að það væri heiti sem sumir notuðu og mætti það teljast réttnefni, a.m.k. hefði verið gengið allt of langt í þeim efnum, sagði hv. þm.

Þetta er út af fyrir sig athyglisvert, en hins vegar kemur ekki skýrt fram hjá hv. þm. með hvaða hætti hann vill þá láta matreiða Íslandssöguna, nema ef það væri að halda sig áfram við þær bækur sem lengi hafa verið notaðar og enn er heimild til að nota við Íslandssögukennslu í skólum landsins, kennslubækur Jónasar Jónssonar frá Hriflu, Íslandssögu Þórleifs Bjarnasonar og Þorsteins M. Jónssonar. Það er kannske það sem hann vill að við höldum fast við og annað efni verði ekki á boðstólum.

Annar hv. Alþfl.-þm. kvartaði yfir því að skótarnir og kennarar hefðu nokkurt sjálfræði í sambandi við val á kennsluefni. Það mátti skilja að honum þætti miður að menn væru að fjalla um t.d. Ístandssöguþætti.með öðrum hætti frá einum skóla til annars. En þetta endurspeglar þá staðreynd, sem fyrir liggur, að kennurum og skólum er heimilt að velja og hafna varðandi tiltækt námsefni og það hefur ekkert eitt námsefni verið löggilt þó að ljóst sé að hið endurskoðaða efni og samfélagsfræðikennslan sækja á, enda er þar verið að gefa út nýtt og aðgengilegt efni, þó að eflaust megi að einhverju finna, enda er það frumraun. Þó hefur vakið athygli, ekki bara hér hjá þeim sem um það fjalla heldur alþjóðlega athygli, hvernig þar er staðið að málum. Svo vék hv. þm. að því sem varðaði trú á landið og varðveislu menningarinnar og hann sagði: Ja, það eru bara almenn atriði sem lagt er til að Alþingi staðfesti. — Hann viðurkennir þar með í rauninni að þau segi sáralítið, þau veiti sáralitla leiðsögn. Eitt af því sem hér hefur verið gagnrýnt er hversu almenn og þokukennd þessi till. er í rauninni miðað við að hér sé verið að veita framkvæmdavaldinu einhverja forsögn um nýjar starfsaðferðir sem hlýtur þó að vera tilgangur flm.

Svo vék hann að hlut kvenna í sambandi við Íslandssöguna og bætti nánast um betur frá fyrstu ræðu sinni. Auðvitað ber að virða viðhorf þeirra manna sem líta svo til að frásagnir og efni í Íslandssögu og mörgum fleiri greinum eins og það hefur legið fyrir til skamms tíma og liggur fyrir enn megi teljast fullnægjandi að því er varðar hlut kvenna. Þetta er viðhorf, en þetta er í mínum huga fráleitt viðhorf og undarlegt að það skuli vera fram borið hér af mönnum sem stundum vilja telja sig bera fram jafnaðarstefnu og sjá ekkert athugavert við það þegar helmingi Íslendinga eru sáralítil skil gerð og hlut þeirra í sögu þjóðar okkar. Það var hárrétt sem hér var bent á að þegar verið er að tína til réttlætingar, að þeim sé nú ekki alveg gleymt, eru það einmitt dæmin þar sem konurnar hafa gengið inn í hlutverk karla — Ólöf ríka sem ætlaði að fullnægja hefndarskyldunni og annað af því tagi.

Hv. þm. segir að þeir sem hér tali mest um frið vilji efna til ófriðar og illvilja milli karla og kvenna. Erfitt væri nú að berjast fyrir úrbótum í þessu þjóðfélagi ef menn ekki tækju á því þar sem hallar á. Þá væri til lítils barist, þá færi lítið fyrir jafnaðarmennskunni, þá færi lítið fyrir því að rétta lítilmagnanum hjálparhönd.

Ég fullyrði að sú Íslandssaga sem við höfum haft sem námsefni til skamms tíma er með öllu óviðunandi að þessu leyti enda ber hún merki tíðaranda þegar hún er rituð um 1915–1916 ef við miðum við texta Jónasar frá Hriflu. Kannske er ekki nein sérstök ástæða til að vera að veitast að honum en hart er að verða vitni að ummælum eins og þessum 70 árum síðar á Alþingi Íslendinga í sambandi við eitt brýnasta jafnréttismál í okkar landi, spurninguna um jafnrétti milli kynja.

Þegar hv. flm. vék að mínu máli sá hann ástæðu til að fara rangt með, rangtúlka mín ummæli og láta líta svo út að ég hafi talað um að þessi till. bæri vott um galdraofsóknir. Það voru ekki mín orð. Ég sé ástæðu til þess að leiða hv. þm. í sannleika um þetta fyrst hann hefur ekki hlýtt betur á mitt mál. Ég rakti hér þá umr. sem þessi till. er sprottin upp úr að mínu mati. Þótt hv. flm. segði að það hefði verið spjall við 14–15 ára unglinga sem vakti hana kemur till. fram á hv. Alþingi 19. des., eftir að fram höfðu farið allsnarpar umr. um meira en mánaðar skeið í fjölmiðlum í landinu. Það þarf dálítið hugmyndaflug til þess að halda að till. af því tagi með því almenna orðalagi sem hér er sé ekki tilkomin vegna þeirrar umr. Það var sú umr. sem ég vék að að minnti um sumt á galdraofsóknir. Ég skal vitna beint í það sem ég sagði um þetta efni. Ég sagði hér í fyrradag, að mig minnir:

„Ég vara mjög eindregið að lokum, herra forseti, við umr. eins og hún hefur að hluta til gengið fyrir sig um endurskoðun á Íslandssögunni og þörfinni á að bæta þar um. Það er nánast ekki hægt að líkja því við annað en upphaf að eins konar galdraofsóknum eins og þar hefur verið gengið fram. Ég er ekki að mæla það til flm. till. Ég er ekki að því. Ég vitnaði hér til blaðaskrifa, þ. á m. fjöllesnasta blaðs landsins, Morgunblaðsins, sem vakti upp þessa umr. í nóv. s.l. og hefur gengið þar fram með þeim hætti í sínum skrifum um það að síst er til þess fallið að tekið verði á þessum málum þannig að til heilla horfi og unnt sé að stilla menn saman um að bæta úr varðandi þennan þátt í starfi skólanna, söguna og samfélagsfræðina, eins og hlýtur að vera áhugamál sem flestra.“

Þetta er tilvitnun í ræðu mína hér um daginn. Svo lætur flm. svo lítið að fullyrða að ég hafi líkt þessari till. við galdraofsóknir. Þetta er ekki heiðarlegur málflutningur og það er ekki friður innra með þeim manni sem sér ástæðu til að ganga þannig fram. En það er dálítið sérkennileg ástúð þeirra manna sem hér tala fyrir hinum gömlu viðhorfum, símaskrárstílnum forna í sambandi við sögukennsluna, staðreyndamiðluninni, sem á að vera inntak sögukennslu ef marka má ummæli þeirra eða a.m.k. leyfir maður sér að draga þær ályktanir að þeir telji að þar þurfi að halda fram svipað og gert var og gert er sumpart. Ég held að ástæða sé til að minna aðeins á það sem Erla Kristjánsdóttir segir um þetta í grein sinni í Morgunblaðinu 24. nóv. því hún túlkar viðhorf sem er hollt að hafa í huga um þetta efni. Hún segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í hefðbundinni sögukennslu hefur megináhersla verið lögð á að læra ákveðið inntak og leggja fjölmarga atburði frá liðinni tíð á minnið. Nú sýna niðurstöður rannsókna að nemendur gleyma 3/4 af því námsefni sem þeir læra á þennan hátt innan tveggja ára. Og ef við berum þessar niðurstöður saman við eigin reynslu þá segir mér svo hugur um að margur lesandi, sem lítur af hreinskilni í eigin barm, komist að þeirri niðurstöðu að hann hefur ekki ýkja margt á takteinum úr sögunámi sínu úr barnaskóla. Manst þú t.d. lesandi góður eftir Hörmöngurum, Staðamálum, Stefánungum eða Stöðulögunum? Hér má einnig minna á hve fátt varð um svör í útvarpsþætti á þjóðhátíðardegi fyrir fáum árum er vegfarendur voru spurðir: Hver var Jón Sigurðsson?“

Ég held að hér sé nefnilega komið að þýðingarmiklu atriði sem varðar ekki sögulærdóm einan sér heldur fræðslu í skólum almennt og spurninguna um viðhorf til þess starfs sem þar er unnið.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson talaði hér áðan, og ég verð að segja að hann bætti um betur eftir þau ósköp sem fram gengu af hans penna í Dagblaðinu og Vísi þann 18. nóv. s.l. Það var vissulega þörf á. Ég sé að hv. þm. hefur tekið sig nokkuð á frá því að hann henti sér í fang Morgunblaðsins í skrifum sínum í Dagblaðinu og Vísi með nokkuð sérkennilegu orðbragði á köflum. En hann var að finna að því áðan að ekki væri nóg matreitt ofan í börnin, þau hefðu ekki allt við höndina. Kennurunum væri ætlað að hafa allt við höndina til uppfyllingar en ekki börnunum. Þau ættu að læra vinnubrögð og hvernig ætti að afla sér heimilda en kennararnir fengju bara matreitt og nokkurn veginn forskrifað hvað þeir ættu að segja við blessuð börnin. Hann sagði, held ég, orðrétt: „Það er auðveldara að láta nemendur hafa allar upplýsingar við höndina.“ Það er ekki fram á lítið farið.

Það er nú skilningur á eðli skólastarfs og vanda skólastarfs sem felst í þessu!

Ég vil líka bæta því við til þeirra sem mesta dálætið hafa á staðreyndatuggunni sem ég leyfi mér að nefna svo, þ.e. ártalalærdómi og öðru af því tagi, að sum þeirra eru nú nokkuð á reiki. Saga er ekkert sem er 100% þó að svo sé reynt að láta líta út í útgáfum í einræðislöndum — sem hv. þm. Eiður Guðnason vék hér að og taldi mér sérstaklega kær-þar sem menn sjá ástæðu til að endurskoða sögu ráðandi flokks á 18 mánaða fresti nú síðast og endurskrifa textann. En það er ekki einu sinni svo í sagnfræði í okkar landi að allt sé gullslegið eins og látið er líta út þar sem menn gefa út löggilta texta. Meira að segja hef ég séð að menn deila um árið 1000, hvort það sé nákvæmlega á Alþingi árið 1000 sem kristni hafi verið lögtekin á Íslandi. Hér skiptir auðvitað eitt ár til eða frá ekki máli. En það er margt sem er á rannsóknarstigi og það þarf líka að gera nemendunum ljóst að sagnfræði er ekkert sem er óskeikult. Ég held að skammt verði komist í sambandi við fræðslu í þessu landi ef ítroðsluaðferðinni eftir formúlu Helgakvers á að beita í sambandi við þekkingarmiðlun í stað þess að veita nemendum lykla að þeim síflóknari veruleik sem ungmenni og reyndar fullorðnir líka búa við í nútímasamfélögum.

Vissulega getur sögukennsla ekki verið hluttaus í þeim skilningi og það á ekki að gera kröfu til hennar um að hún sé það. Auðvitað verjum við meiri tíma til að miðla fróðleiksmolum um sögu eigin þjóðar en annarra þjóða, slíkt er okkar skylda. En þegar rætt er um söguþekkingu og þjóðerniskennd skulum við varast að líta svo á að skólinn hafi þar úrslitaáhrif einn sér. Áreiðanlega er mjög margt fleira í okkar samfélagi sem þar kemur til og margir aðrir sem bera þar ábyrgð, þ. á m. heimilin í landinu en ekki síður fjölmiðlarnir í landinu. Og vegna þess að hv. 1. flm. þessarar till. er starfandi í útvarpsráði vænti ég þess að hann íhugi einnig hlut ríkisfjölmiðlanna í sambandi við miðlun á fróðleik um sögu landsins og tunguna því að þeir mættu vissulega taka á þeim þáttum með skilmerkilegri hætti en gert hefur verið til þessa. Oft er verið að skrifa á reikning skólanna margt sem ætti heima hjá öðrum í reynd.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson kvartaði yfir því að verið væri að taka stórar ákvarðanir, m.a. í fræðslumálum, án þess að þm. vissu í rauninni nokkuð um hvað væri að gerast. Með þessu er í rauninni hv. þm. að kveða nokkurn dóm yfir alþm., að þeir fylgist heldur illa með því sem verið er að gera hjá framkvæmdavaldinu. Vissulega er vandi okkar alþm. á sinn hátt hinn sami og kennaranna í skólum landsins og nemendanna í skólum landsins, að það er margt sem á borð okkar berst og að mörgu að hyggja. En hins vegar liggur fyrir að endurskoðun á sögufræðsluefni og öðru sem hefur verið tekið upp undir nafni samfélagsfræði hefur verið kynnt mjög rækilega á undanförnum árum með grg. eftir grg. og fréttatilkynningum. Sumt af þessu efni hefur verið sent beint til alþm. þannig að það er mjög einkennilegt að menn skuli vakna upp 13. nóv. eða 15. nóv. eins og Morgunblaðið og fara að láta líta svo út sem Íslandssagan hafi verið tekin af dagskrá í skólum landsins í einu vetfangi. Þetta er óheiðarlegur málflutningur í hæsta máta og ekki hægt annað en mótmæla honum.

Þó að við hljótum að halda þannig á sögufræðslu að það hlúi að rótum íslenskrar menningar og auki sjálfstraust með Íslendingum skulum við varast að sagan sé matreidd undir merkjum þjóðrembu. Það getur verið skammt á milli, þarna er vandratað. Ég sé ástæðu til að minna á að við erum í heimi sem er að verða æ nátengdari og hlýtur að gera kröfu til þess að reynt sé að varpa ljósi á kjör og aðstæður fólks um víða veröld sem best á þeim takmarkaða tíma sem menn hafa til umráða innan veggja skólanna.

Í grein dr. Wolfgangs Edelsteins, sem ég vitnaði til um daginn, er gerð skilmerkileg grein fyrir því hvernig þetta endurskoðaða námsefni í samfélagsfræðum er fyrirhugað í heild sinni. Þar geta menn kynnt sér það. Hann dregur það mjög skilmerkilega fram. Ég vil svo aðeins í lokin vitna til þess sem nýr námsstjóri í Íslandssögu, Erla Kristjánsdóttir, segir í niðurlagi greinar sinnar í Morgunblaðinu 24. nóvember, með leyfi hæstv. forseta. Það eru lokaorð hennar, ég get gert þau að mínum:

„Ekki vil ég efast um að þeir sem hafa geyst fram á ritvöllinn undanfarna daga beri hag Íslandssögunnar fyrir brjósti. Því vekur það furðu mína hversu illa þeir reka málstað sinn og hirða ekki um að kynna sér málavöxtu eða reyna að fara með rétt mál. Ekki er hægt að sjá að þeir velti fyrir sér á hvern hátt sé farsælast að standa að sögukennslu til að nemendur fái áhuga á sögu þjóðar sinnar og nýti sér hana til þroska og aukins skilnings. Ekki er heldur hægt að segja að þessir „málsvarsmenn“ Íslandssögukennslu hafi lært að skoða heimildir, afla sér upplýsinga, vega þær og meta og draga skynsamlegar ályktanir.“

Þetta er ritað í Morgunblaðinu 24. nóv. Síðan hefur margt verið ritað um þessi efni og orð Erlu Kristjánsdóttur eiga því miður við um sitthvað af því sem þar hefur verið sagt.