16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2538)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Nokkur friðsamleg orð um þetta mál. Hv. þm. Eiður Guðnason vék að vísu ekki orðum sínum að mér beinlínis, en hann vék að þeim sem tala fyrir friði og því tók ég orð hans til mín. Mig langar að minnast á örfá atriði í máli hv. þm.

Enn afneitar hann sérstöðu þeirri sem lífsreynsla kvenna færir þeim í menningarlegu og sögulegu tilliti. Ekki trúi ég því að hv. þm. geti afneitað því að það sem við köllum siðmenningu og tileinkum heimsbyggðinni allri er samtvinnað úr fjölmörgum frábrugðnum menningarbrotum sem spegla ólíka lífsreynslu og veraldarskynjun þeirra sem leggja fram menningarskerf sinn. Þessi margslungna fjölbreytni eykur menningarauðgi okkar allra og til að tryggja henni aðgang að heimsmenningunni verðum við að viðurkenna, virða og varðveita menningarbrotin og gæta réttar þeirra. Réttur kvenna til að skila sérstakri lífssýn sinni og menningararfi inn í þá menningarheild sem við búum við hlýtur að vera óskoraður. Getur hv. þm. haft nokkuð á móti því?

Hv. þm. minntist á þá sem oft koma í ræðustól og tala máli friðarins. Það var einmitt þá sem ég tók við mér. Nú erum við svo heppin, hv. þm. Eiður Guðnason og ég, að eiga samleið. Þetta segi ég okkur báðum til lofs en ekki til hnjóðs. Við eigum samleið í því að trúa á að efla þurfi frið á milli manna og að því þurfi að standa á virkan og jákvæðan hátt. Í samræmi við þá skoðun hljótum við að þurfa að leggja áherslu á það m.a. að glæða virðingu og ábyrgðartilfinningu einstaklinga fyrir menningarlegum fjölbreytileika, fyrir því að viðurkenna rétt annarra og sýna skilning og umburðarlyndi.

Hv. þm. fullyrti að við værum öll jafnrétthá og að við ættum að virða réttindi annarra til jafnræðis. Ég virði og er sammála síðari fullyrðingu hv. þm., en ég veit að sú fyrri er því miður röng. Við sætum ekki hér á Alþingi og hefðum áhyggjur af síversnandi kjörum láglaunahópa ef með okkur væri jafnrétti. Það væru ekki fyrst og fremst konur sem skipuðu slíka hópa ef með okkur væri jafnræði til atvinnutækifæra og menntunar.

Ég held ekki að neinn alþm. geti haft á móti því að auka kennstu í sögu þjóðarinnar, heldur er hér fyrst og fremst ágreiningur um nálgun og aðferð, jafnvel viðhorf. Ég hef t.d. ekki verulegar áhyggjur af því hve margir muni hvenær kristni var lögtekin á Íslandi. Hitt þætti mér skipta meiru að margir myndu og skildu orð Þorgeirs Ljósvetningagoða og tilraun hans til sátta á þeirri stundu. Enn fremur finnst mér líka skipta mun meira máli að menn lifi samkvæmt þeirri siðfræði sem kristin trú boðar en að þetta ártal geymist í minni.

Hv. þm. minntist á menntunarskort og mismunandi áherslur. En er ekki sá menntunarskortur, sem hann minnist á, fyrst og fremst að kenna þeim orsökum, sem fram komu skýrt í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur og eru atvarlegur ljóður á ráði okkar Íslendinga, að vanrækja það sem einna mestu máli skiptir fyrir áframhaldandi sögu þessa lands, þ.e. að búa börnum okkar viðunandi veganesti til lífsgöngunnar. Það er miklu fremur sú skammsýni og glámskyggni sem við alþm. þurfum að ná samstöðu um að reka á brott við ákvarðanatöku og fjárlagagerð þessa þjóðfélags.