16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2926 í B-deild Alþingistíðinda. (2539)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Undir öllum þessum umr. um sögukennslu rifjaðist upp fyrir mér sögutími. Ég kom í fyrsta sinn í hópi tólf nemenda í tíma í hagsögu í erlendum háskóla og kennarinn, írskur hagfræðingur, spurði: Hver ykkar hafið lært sögu áður en þið komuð hingað? U.þ.b. helmingur rétti upp höndina og síðan spurði hann: Og hvaða sögu hafið þið lært? Einn hafði lært sögu breska heimsveldisins, annar hafði lært nútímasögu Indlands, þriðji hafði lært nýlendusögu latnesku Ameríku og þeir sem höfðu notið klassískrar menntunar í klassískum breskum skólum höfðu numið sögu Grikklands og Rómar. Þegar kom að mörlandanum svaraði ég því til sannleikanum samkvæmt, hugsandi á íslensku en þýðandi á ensku, að ég hefði lært allsherjarsögu mannkynsins auk Ístandssögu. Viðbrögð kennarans voru þau að hann stóð upp úr sæti sínu, hneigði sig djúpt og sagði: Lengi hef ég beðið eftir þessum manni. Gerðu svo vei. Þarna er sætið.

Fljótlega kom það nú á daginn með þennan alvitring af Íslandi að hann kunni að vísu að nefna nöfn grískra heimspekinga, kunni að nefna Platon og Aristóteles, en hafði ekki lesið rit þeirra. Ég kunni að nefna nöfn frægra leikskálda í grískri menningu, en ég hafði hvorki lesið né séð á sviði verk þeirra. Ég kunni að segja frá því að það fræga skáld Balsac hafði dáið af þeim fimmtíu þúsund kaffibollum sem í mannkynssögunni minni stóð að hann hefði lifað á, en ég hafði ekkert af verkum hans lesið. — Ég varð því að játa fyrir sjálfum mér að þetta afsprengi hefðbundinnar íslenskrar sögukennslu gat nefnt nöfn, sem þykir kannske ekki mikil dyggð, taldist hafa farið yfir geysivítt tímasvið, en söguþekkingin var að sjálfsögðu mjög í molum. (Gripið fram í: Var hún ekki best af þessum tólf?) Það fer eftir hvað er best, herra þm.

Einhver vék að símaskrárfræðum. Það er ekkert efamál að þeir nemendur sem þarna voru saman komnir og höfðu enga sögu tært gátu áreiðanlega ekki nefnt til jafnfræg nöfn og undirritaður. En ef við færum að bera saman þekkingu á vöggu vestrænnar menningar í Grikklandi annars vegar af þessari sögufræðslu en hins vegar af hefðbundnum klassískum breskum menntaskóla, þá er ég hræddur um að lítið hefði farið fyrir söguþekkingu undirritaðs.

Ég nefni þessa gamansögu fyrst og fremst vegna þess að hér hefur mikið verið talað um hefð íslenskrar sögukennslu. Nú er það svo að till. sem hér liggur fyrir er ósk um þrennt: Í fyrsta lagi að kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar verði aukin. — Ef ég er spurður þessarar spurningar: Telur þú rétt að sögukennslan verði aukin? færi svar mitt mjög eftir því hvernig ætti að koma til skila aukinni kennslu í Íslandssögu og hvaða þætti í Íslandssögu ætti að taka upp sem áður hafa verið vanræktir. Ef ég er spurður: Viltu láta auka trú á landið? Jú, ætli ég svaraði því ekki játandi. En ef ég væri spurður: Hefurðu trú á því að trú á landið verði aukin með sögukennslu í skólum? léti ég uppi efasemdir. Og ef ég er spurður: Viltu láta varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur þróast um aldir? þá er svarið að vísu já, en um leið kemur upp í hugann að það menningarsamfélag sem hér þróaðist um aldir er mestan part liðið undir lok. Það bændasamfélag sem hér var ríkjandi í Íslands þúsund ár er nú óþekkjanlegt.

Sá þjóðfélagsveruleiki sem mín börn munu lifa í er óþekkjanlegur frá þeim þjóðfélagsveruleika og því hugmyndaumhverfi sem móðir mín ólst upp við. — Þannig er þá eiginlega fátt um svör. — Auka, varðveita og efla trú á landið? Já, já. — En hvernig?

Þá er komið að hefð Íslandssögukennslunnar. Hefð sögukennslu í íslenskum barnaskólum var kennsla af einni bók. Og það er mín bjargföst sannfæring, bæði af bóklestri og kennslureynslu, að hvorki Íslandssaga né önnur saga, né yfirleitt nokkur fræði, verði kennd af einni bók. Skal ég þó taka það fram af því að ég er alinn upp við Íslandssögu Jónasar frá Hriflu að hún ber sem gull af eiri af flestum þeim bókum sem síðar hafa verið samdar í þessari grein fyrir þær sakir að þar var listamaður sem hélt á penna og kunni að skrifa sögu sem var áhugaverð og skemmtileg. En flest af því sem síðan hefur verið skrifað stenst þar yfirleitt því miður lítinn samanburð.

En hver var hefðin í framhaldsskólanum? Jú, ég vék að henni í gamansögunni sem ég sagði frá áðan. Það var farið hratt yfir sögu. Þetta voru yfirleitt bækur sem voru meira eða minna þýddar, stældar og stolnar af erlendum kennslubókum. En munurinn var einn: Víðast hvar í erlendum skólum, þar sem fengist er við kennslu af þessu tagi, þótt stuðst sé við eina textabók, þá er nemendum vísað á bókasöfn. Það hörmulegasta í íslensku skólastarfi lengst af hefur verið að íslenskir skólar hafa verið algerlega vanbúnir að öllum hjálpargögnum til kennslu. Bókasöfn voru fyrir fáum árum óþekkt í framhaldsskólum. Ég get sagt frá því, og kannske ekki alveg kinnroðalaust, að á mínum starfsferli sem skólameistari við ungan menntaskóla, þar sem ég lagði mig allan fram um að byggja upp slíkt bókasafn, — og áður en ég kvaddi skólann get ég játað að það bókasafn var kannske orðið óvenjuöflugt um það er lauk — var u.þ.b. þriðjungur af því gjafabækur frá erlendum sendiráðum eða erlendum stofnunum, þ.e. í þeim raunvísindum eða hugvísindum sem kennd voru. Að því er varðaði viðleitni til að koma upp bókakosti sem snerti íslenska sögu, íslensk þjóðfélagsfræði, var það fyrsta vandamálið hversu fábreytilegur og lélegur sá bókakostur var.

Ég held ég hafi sagt nóg. Ég held að hefð okkar, sem við viljum vegsama í kennslu á sögu íslensku þjóðarinnar, sé ekkert sérstakt til að vegsama. Ég held við höfum lagt henni allt of lítið lið. Ég held hún hafi verið of fábreytileg og af vanefnum gerð.

Á seinasta hálfum öðrum áratug voru gerðar tilraunir til breytinga á róttækan hátt á kennsluháttum á framhaldsskólastigi. Því kynnist ég nokkuð vel og af því má kannske draga nokkra lærdóma. Menn spyrja um menntastefnu, sjálfræði skólastofnana eða hlutverk ríkisvaldsins, menntmrn., yfirvalda skólanna. Það er kannske ómaksins vert að nefna í þessari umr. tilraunina sem þá var gerð um kennslu í ýmsum greinum sem tengjast þjóðfélagsfræðum. Hefð þess skóla sem ég er alinn upp í, sem er Reykjavíkur lærði skóli, elsti menntaskóli í heimi, eins og við segjum stundum MR-ingar, stofnaður 1056 svona nokkurn veginn, var sú, að orðið „þjóðfélagið“ var aldrei nefnt þar á nafn frekar en snara í hengds manns húsi. (Gripið fram í: Hvert er nákvæmlega ártalið?) — Við höfum þetta sisona. Það gæti verið satt.

Það voru ákveðin rök fyrir því að ekki var verið að kenna um þjóðfélagið. Sá skilningur ríkti að það væri ekki á valdi skóla og það væri ekki verkefni fræðara sem vildu kenna vísindi og nálgast sín viðfangsefni af hlutlægni að vera að fara með fræði þar sem enginn fastur punktur væri í tilverunni, þar sem viðleitni til hlutlægni væri yfirleitt mjög vandmeðfarin. Þennan fróðleik ættu nemendur að læra annars staðar en í skólum. — Þetta sjónarmið var mikið gagnrýnt á sinni tíð og tilraunir voru gerðar til að innleiða fræðslu um þjóðfélagið inn í skólana.

Nú er hægt að líta til baka yfir þessa tilraun og það er margt um hana að segja. Hvað er þjóðfélagsfræði, hagfræði, félagsfræðin og stjórnmálafræði, svo nefndar séu nokkrar slíkar greinar? Það fyrsta sem við rákum okkur á var að þessar greinar voru óíslenskar að mestu í hugsun og bókakostur, tímaritagreinar eða annað slíkt um þessi fræði var ýmist ákaflega fátæklegt eða jafnvel gersamlega ófullnægjandi. Tilraunirnar fóru síðan af stað í einstökum skólum og þær voru mjög misjafnlega framkvæmdar. Ég skal nefna nokkur dæmi.

Í einum menntaskóla á Íslandi var kennd heimspeki. Samkvæmt námsskrá skólans var aðalkennslubókin eftir Maurice nokkurn Comforth og hét Dialectical materialism. Um þessa bók er það að segja að hún er frumstætt áróðursrit eftir breskan stalínistakomma. Nú hefði engin goðgá verið að kenna þetta rit í námskeiði í heimspeki eða kenna einhverju marxíska heimspeki, ef það hefði verið þannig um hnútana búið að þetta hefði verið einn liður í víðtækara námsefni og tekið til gagnrýninnar skoðunar. — Í einum menntaskóla var gerð tilraun til að kenna hagfræði. Námsefninu var skipt þannig, að fyrir jól var kennt eitthvað sem hét „marxísk“ hagfræði og eftir jól var kennt eitthvað sem hét „borgaraleg“ hagfræði.

Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um að við getum spurt spurninga á borð við þessa: Hvert á að vera hlutverk skólanna, kennaranna, og hvert á að vera hlutverk fræðsluyfirvalda þegar tekin er ákvörðun um að innleiða kennslu í greinum af þessu tagi í skólunum? Á það að vera niðurnjörvað samkvæmt námsskrá og á því að vera skýrt af menntmrn. eða eiga skólarnir að vera sjálfráðir um þetta? Hver er tilgangurinn með þessari kennslu? Er hún tilraun til að færa fræði um þjóðfélagið inn í skólana, er hún tilraun til að gera það í anda og með viðleitni hlutlægrar gagnrýninnar umfjöllunar eða er hér með verið að efna til kennslu sem raunverulega er meira eða minna viðrun á hleypidómum kennara? Hverjir mennta kennarana til þess arna o.s.frv.?

Má ég nefna annað dæmi sem snertir sögukennslu. Mér var úthlutað því verkefni fyrir tveimur árum að rita kafla úr sögu Alþfl. Þegar ég hafði eytt mörgum mánuðum í að kynna mér hvaða gögn lægju til grundvallar urðu á mínum vegi m.a. nokkrar ritgerðir sem voru að efni til ritgerðir um sögu stjórnmála eftir nemendur við Háskóla Íslands. Það kom mér nokkuð á óvart, þegar ég fór að kanna innihald þessara ritgerða, að þarna var fjallað um sögu Alþfl. út frá heimildavali sem mér þótti með ólíkindum. Ég á einfaldlega við það, að þegar kannaðar voru heimildirnar kom það á daginn að þær voru flestar áróðursrit eftir menn sem voru yfirlýstir andstæðingar flokksins, gallharðir. Jafnvel þegar rætt var við stjórnmálamenn sem enn voru lífs og mundu þessa tíma, þá var einkum og sér í lagi rætt við andstæðinga flokksins. Í sumum tilvikum fannst mér þetta vera eins og endurframleiðsla á áróðri liðinnar tíðar. Þetta var gefið út af pólitísku forlagi og ekkert um það að segja, en var þó að stofni til ritgerðir eftir nemendur í sögu við Háskóla Íslands.

Út frá mínum hugmyndum um tilraunir til hlutlægni og út frá mínum hugmyndum um það hlutverk háskólakennslu að reyna að kenna mönnum gagnrýna umfjöllun heimilda voru þetta vondar ritsmíðar. En það er ekki hægt að segja annað en að þessar ritsmíðar berast síðan um allt framhaldsskólakerfið, þar sem mikið er gert að því að skrifa einhverjar ritgerðir um stjórnmálaflokka eða stjórnmálastefnur. Grunur minn er sá, að þegar lítið er á þær heimildir sem tiltækar eru í fátæklegum bókasöfnum skólanna séu þær mjög í þessum anda, þ.e. ákaflega gallaðar heimildir, oft og tíðum lítið annað en áróður, klæddur í búnað sagnfræði.

Ég nefni þessi dæmi einungis til að sýna fram á að það er mikill vandi á ferðum þegar þessi fræði eru kennd. Ég hef sjálfur tilhneigingu til að segja: Látið hina dauðu hönd menntmrn. sem mest fjarri skólunum vera, aukið sjálfræði þeirra. Samt er niðurstaða mín sú, þegar ég lít á þessa tilraun, að tilraunagerð af þessu tagi sé vafasöm, þegar við spyrjum einföldustu spurninga sem varða menntastefnu — hvað á að kenna í skólum, hverjum á að kenna og hvernig á að kenna? — eigi að reyna að hafa einhverja fyrirframgerða áætlun um hvernig þetta námsefni eigi að tilreiðast. Það verður að auðvelda skólunum að geta boðið upp á fjölbreytileika í námsefni. Því aðeins er þetta gerlegt að tilraunirnar séu ekki bara á valdi hvers einstaks kennara. Og það er alveg fyrir fram vonlaust að halda uppi slíkri kennstu ef ekki er þannig að skólunum búið að þeir hafi íslenskan bókakost, fjölbreytilegan bókakost þar sem koma fram andstæð sjónarmið og hægt er að vísa nemendum á heimildir og þjálfa þá í gagnrýninni umfjöllun, m.a. á pólitískum áróðri. Það verður að mega treysta því að kennarar nálgist þetta viðfangsefni sitt út frá þeirri skoðun að hlutverk skólans sé að kenna gagnrýna umfjöllun en ekki að boða skoðanir, boða trú eða innræta nemendum í skjóli þekkingarleysis þeirra.

Ég hef leyft mér að nefna þessi dæmi í almennri umr. um sögukennslu, en skal nú víkja aftur að tillögunni. Hún er áskorun á menntmrn. um að auka kennstu í sögu þjóðarinnar og látin er í ljós sú ósk að aukin kennsla geti leitt til þess að nemendum, sem þessarar kennslu verði aðnjótandi, eflist trú á landið og vilji til að varðveita menningarsamfélag okkar. Auðvitað er hér enginn inni sem segir nei við því að auka kennslu. spurningin er hins vegar önnur, sem máli skiptir. Hún er spurningin um hvernig á að gera þetta. Hvaða menntastefna er það sem birtist okkur í starfi æðstu yfirvalda menntamála? Hvernig vilja þau fyrir sitt leyti standa að stjórn þessara mála? Hvert er þeirra hlutverk? Hvert er hlutverk skólanna?

Ég hef látið í ljós efasemdir um að tillögugerð af þessu tagi skipti nokkrum sköpum og læt það liggja á milti hluta. En um þessa umr. vildi ég aðeins að lokum segja örfá orð.

sumum finnst vafalaust sem þessi umr. sé með öllu fánýt. Hún er á víð og dreif, hún lýsir ólíkum viðhorfum sem oft valda misskilningi — greinilega eftir því sem menn hafa hér talað — og sennilega leiðir hún ekki til neinnar niðurstöðu. En einhvern veginn er það samt sem áður hlutverk löggjafans að setja viðamikla lagabálka, lagabálka um grunnskóla — nafn sem ég helst ekki tek mér í munn — lagabálka um samræmdan framhaldsskóla. Það tekur langan tíma að koma slíkum lagabálkum í gegn og síðan ekki söguna meir. Umr. á Alþingi um skólamál, um menntastefnu, hafa yfirleitt verið ákaflega litlar og þá yfirleitt í því formi að fólk hefur lýst háleitum og göfugum markmiðum. En því sem máli skiptir í þessum umr., sem eru tækin til þess að framkvæmda aðferðirnar, það hvernig á að koma þessum háleitu markmiðum til skila, er látið ósvarað, er látið eftir í höndum annarra.

Við höfum oft vikið að því, Alþfl.-menn og Bandalagsmenn líka, að efla þurfi nefndastarfið á Alþingi og eftirlitshlutverk nefnda. Ég held að þessi mál séu einmitt dæmi um það. Það ætti ekki aðeins að vera hlutverk menntmn. að taka til umfjöllunar viðamikla lagabálka sem koma frá kansellíinu og koma þeim í gegnum þing, heldur ekki hvað síst að leitast við að fylgjast með því ár frá ári hvernig markmiðum þeirra lagabálka er fylgt eftir í framkvæmd og hvað er að gerast í skólakerfinu í raun og veru.

En fyrst og síðast vil ég segja það af minni reynslu að við skulum ekki gera of miklar kröfur til skólakerfisins. Við skulum ekki ætla skólunum allt of mikið. Við skulum fyrst og síðast reyna að viðurkenna að því eru takmörk sett sem hægt er að gera í skóla. Það er ekki hlutverk kennara að boða nemendum sínum með prédikun einhverjar skoðanir og einhver gildi. Hinu neita ég ekki að snjall og hugmyndaríkur kennari getur með fordæmi sínu haft mjög góð áhrif á nemendur.

Ég held að hæstv. fyrrv. dómsmrh., sem flutti ágæfa hugvekju áðan, hafi nefnt lykilorð að öllu námi í ræðu sinni. Það er orðið „sjálfsnám“. Skóli getur raunverulega ekkert gert nema í besta falli að hvetja nemendur til sjálfsnáms. Því það er ekkert nám til annað en sjálfsnám. Skóli sem er afþreyingarstofnun, letigarður þar sem dekrað er við nemendur út frá einhverri sérstakri tískustefnu í uppeldis- eða skólamálum, er oft og tíðum ákaflega vondur skóli, þó að allir þar hafi mjög í munni háleit orð um göfug markmið og ákaflega húmanísk viðhorf til fólks. Í þeim skilningi getur gamall skóli og íhaldssamur, sem í einhverjum skilningi væri vondur skóli en harður skóli, verið nemendum sínum, þegar upp verður staðið, miklu þarfari skóli. Ég held því að kjörorðið sem ég rakst einhvern tíma á í gönguferð niður við höfn í Boston gæti verið mottó í skólastarfi:

„Gefirðu hungruðum manni fisk, þá seðurðu hungur hans í einn dag. Kennirðu honum að veiða, þá hefurðu kennt honum til að sjá sér og sínum farborða ævina á enda.“

Góður skóli er skóli sem kennir nemendum sínum að veiða: að afla sér þekkingar, sem endist honum ævina á enda, ekki í eitt skipti fyrir öll, heldur jafnt og þétt í lífi og starfi.