16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð síðasta ræðumanns um skóla unglinganna, hinn skipulagða skóla og skóla lífsins sem auðvitað er þegar allt kemur til alls hinn eini sanni skóli. En það skólakerfi sem hér hefur verið rætt um með íslenskukennslu, Ístandssögukennslu og öðrum greinum er undirbúningur að hinum æðri skóla, háskóla lífsins. Það þarf að vanda þennan undirbúning mikið.

Blandað hefur verið inn í umr. friðarhjall sem nú er mjög í tísku. En ástæða er til að minna á að friður byggist á því að ekki sé gengið á rétt næsta manns. Það þýðir að sýna þarf ákveðna tillitssemi til að ögra ekki þeim sannleik sem er í næstu persónu.

Það er ótrúlegt hvað hægt hefur verið að flækja þetta mál í þessum umr., einfalt mál. Með leyfi forseta langar mig að segja eina stutta sögu af því hvað hægt er að tala skýrt og skorinort. Ég hlustaði á umr. fyrir nokkrum árum þar sem sérfræðimenntaðir menn voru að fjalla um það hvernig hús ættu að vera. Þetta urðu langar umr., stóðu í tvær klst. Loks tók til máls maður, Halldór Kristjánsson, bóndi frá Kirkjubóli. Hann sagði: „Ég veit hvernig hús á að vera. Það á að vera bjart, hlýtt og rúmgott. Þannig á hús að vera“. Við höfum fjallað hér um Íslandssögukennslu og það er hægt að segja þetta í stuttu máli. Mergurinn málsins snýst um það að ein þjóð þarf að byggja á menningu og þar er tungan grundvallarþátturinn, sagan. Hún þarf að hafa land og hún þarf að hafa sjálfstæði.