16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2931 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

164. mál, kennsla í Íslandssögu

Flm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég skal ekki tala langt mál. Það voru aðeins örfá orð vegna þess að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson taldi að ég hefði ekki svarað þeim spurningum sem hann kvaðst hafa til mín beint. Aukakennslu í sögu þjóðarinnar á kostnað hvers? spurði hann. Ég sagði m.a. í minni ræðu að gengið væri næsta langt og nokkuð snemma í því að kenna börnum í grunnskóla ýmiss konar ítarlegan fróðleik um önnur lönd býsna fjarlæg önnur trúarbrögð eins og Íslam, Múhameðstrú, þykkar bækur um það sem lagðar eru fyrir 13 ára börn t.d. Ég held að ýmislegt af þessu mætti bíða. Ég er ekki að segja að það ætti að víkja en það mætti bíða og saga þjóðarinnar sitja í fyrirrúmi meira en gert hefur verið í grunnskólum.

Mér fannst líka koma fram í máli hans misskilningur á því sem ég sagði áðan. Við höfum talað hér um mismunandi stefnur í kennslumálum og mismunandi hætti. Það er þetta annað hvort eða sem ég vísa á bug. Við eigum að geta blandað saman því gamla og nýja og notað það besta úr hvoru tveggja. Við eigum ekki að kasta öllu hinu gamla fyrir róða bara af því að það er gamalt og taka upp hið nýja bara af því að það er nýtt. Það verða að liggja önnur og veigameiri rök þar að baki.

Ég varaði sérstaklega við því í framsöguræðu minni fyrir þessari till. að við ættum ekki að stefna að eins konar eða neins konar þjóðrembu. Ég notaði nákvæmlega það orð. Hins vegar eigum við að efla heilbrigðan þjóðarmetnað og þjóðernisvitund. Ég hygg að hv. þm. geti lesið framsöguræðu mína og gengið úr skugga um að hér er rétt til vitnað þannig að hann rangfærir þegar hann talar um þjóðrembu í sambandi við það sem hér hefur verið rætt. Það er alls ekki hugsun eða ætlun okkar sem stöndum að flutningi þessarar till., fjarri sé því.

Ég andmæli því enn einu sinni að ég hafi talað hér gegn jafnréttishugsjón. Það hef ég aldrei gert. Ég hef sagt og segi aftur og enn: Hver einstaklingur á að fá að njóta sannmælis og þar á kyn ekki að skipta neinu máli.