27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár til að ræða innrás Bandaríkjahers í eyríkið Grenada og beina fsp. til hæstv. utanrrh. af því tilefni.

Tæpir þrír sólarhringar eru liðnir frá því að risaveldið í vestri, Bandaríkin, réðust með hervaldi á Grenada, eyríki í karabíska hafinu, smáríki sem telur aðeins 110–115 þús. íbúa. Í morgun var þar enn barist og Bandaríkin sendu viðbótarliðstyrk til eyjarinnar. Fámennur her heimamanna og kúbanskir verkamenn við störf á eynni brugðust til varnar gegn ofureflinu. Þó spyr enginn að leikslokum í þeirri viðureign, en hún á eflaust eftir að draga dilk á eftir sér í Mið-Ameríku og á alþjóðavettvangi. Íhlutun stórvelda í málefni ríkja á svæðum þar sem þau telja sig eiga tilkall til áhrifa eru ekki ný af nálinni. Hernaðarleg íhlutun risaveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, um mátefni annarra ríkja hefur gerst æ ofan í æ síðustu áratugi og magnað spennuna í alþjóðasamskiptum. Oft eru slík afskipti þessarar tvíhöfða heimslögreglu réttlætt með því að vilhallar ríkisstjórnir, oft hreinar leppstjórnir í reynd, hafi óskað eftir aðstoð. Þannig er m.a. háttað um hinn blóðuga og miskunnarlausa hernað Sovétríkjanna í Afganistan, sem réttilega hefur verið fordæmdur æ ofan í æ og þannig var háttað grimmdarstyrjöld Bandaríkjanna í Víetnam.

Nú ráðast Bandaríkin með hervaldi gegn smáþjóð sem fékk sjálfstæði fyrir tæpum áratug, einu minnsta ríkinu að landstærð og fólksfjölda í samfélagi þjóðanna. Engin beiðni hafði borist um bandarískar liðssveitir frá stjórnvöldum í Grenada og ekki frá neinum þarlendum aðila svo vitað sé. Landið er hluti af breska samveldinu og Bretadrottning telst vera þjóðhöfðingi þess. Fram hefur komið að innrás og hernám eyjarinnar er gerð í óþökk og andstöðu við bresku stjórnina og mundi afstaða Breta þó engu breyta um eðli þessarar árásar. Innrásin í Grenada er af talsmönnum margra vestrænna ríkja talin vera skýlaust brot á alþjóðalögum, einhver hin grófasta sem þekkt er frá síðustu árum og jafnframt brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Tilraunir Bandaríkjastjórnar til að réttlæta innrásina eru ekki einu sinni teknar gildar af nánustu bandamönnum þeirra. Sterkar líkur benda til að bandaríska leyniþjónustan hafi unnið að því að plægja akurinn fyrir innrásina með afskiptum af innanríkismálum á Grenada að undanförnu og átt þátt í að forsrh. landsins, Maurice Bishop, var steypt fyrir skömmu og herinn tók þar völdin. Slíkt er ekki nýmæli í rómönsku Ameríku. Haft er eftir sendiherra Bandaríkjanna í París að undirbúningur að innrásinni hafi hafist fyrir tveimur vikum, þ.e. áður en Bishop var steypt og hann tekinn af lífi. Hann komst til valda árið 1979 og var aldrei í náðinni hjá valdhöfum í Washington.

Reagan Bandaríkjaforseti telur markmið stjórnar sinnar að koma á því sem hann kallar: lögum og reglu í Grenada og lýðræði, sem hann kallar, þ.e. stjórn sem fúslega beygir sig undir veldissprota Bandaríkjanna. Slíkur skilningur á löggæsluhlutverki Bandaríkjanna og því stjórnarfari, sem þeir telja henta hagsmunum sínum í rómönsku Ameríku, er alþekktur, m.a. frá El Salvador og Guatemala og veldur því að í Mið-Ameríku er ekki síður ófriðlegt nú en fyrir botni Miðjarðarhafs. Nú er spurt austan hafs og vestan: Verður Nicaragua næsti viðkomustaður fallhlífasveita bandaríska flotans?

Herra forseti. Ríkisstjórnir margra landa hafa nú þegar fordæmt harðlega innrás Bandaríkjanna í Grenada, þ. á m. ríkisstjórnir Svíþjóðar og Frakklands. Flest dagblöð í Vestur-Evrópu gagnrýna framferði Bandaríkjanna harðlega og áhrifamenn eins og Willy Brandt, forseti Alþjóðasambands jafnaðarmanna, tetur hana brjóta í bága við öll alþjóðalög. Frá íslensku ríkisstjórninni hefur enn engin yfirlýsing komið í þessu máli, en dagblaðið Þjóðviljinn hefur það eftir hæstv. forsrh. í dag að hann fordæmi persónulega innrásina. Ég tel að enginn vafi megi ríkja um afstöðu íslenskra stjórnvalda í máli sem þessu, ekki síst þar sem hér er vegið að smáþjóð, eyríki, sem hefur færri íbúa en Ísland. Við hljótum hér á Atþingi Íslendinga að fordæma afdráttarlaust þessa innrás og krefjast þess eftir réttum leiðum og þar sem rödd okkar heyrist á alþjóðavettvangi að bandaríska innrásarliðið og fylgisveitir þess frá öðum ríkjum í karabíska hafinu verði þegar á brott frá Grenada. Ég vænti þess að sú sé einnig afstaða íslensku ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá velvild að heimila mér að taka til máls hér utan dagskrár í dag, en ég taldi tilefnið mjög knýjandi. Ég leyfi mér að bera hér fram fsp. til hæstv. utanrrh. um afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar til innrásarinnar í Grenada og viðbrögð af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Ég óska einnig eftir að fram komi afstaða hæstv. utanrrh. sjálfs til þessa framferðis Bandaríkjanna, stórveldis sem við erum tengdir í hernaðarbandatagi, svonefndu varnarbandalagi, og sem íslensk stjórnvöld hafa veitt hér aðstöðu fyrir herstöðvar í meira en tvo áratugi.