16.02.1984
Sameinað þing: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2946 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

105. mál, viðhald á skipastólnum

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég stend hér upp öðru sinni fyrst og fremst til að þakka augljósan stuðning við þessa till. í meginatriðum. Það kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. að hann saknaði þess að nýsmíði skipa væri ekki tekin jöfnum höndum í meðferð þessarar till. Nú er ljóst að þessi ágæta till. verður til umfjöllunar í atvmn. og vel má vera að þar verði niðurstaða sú að gera till. víðtækari ef ég má svo að orði komast. Þó held ég fyrir mitt leyti að það sé, eins og raunar fram hefur komið í máli margra hv. ræðumanna, rík ástæða til að fjalla sérstaklega um viðhald skipastólsins.

En málum er hreyft með ýmsum hætti. Þáltill. eru í sannleika sagt oft af þeim toga að hreyfa málum og vekja upp umr. um mát. Við flm. kusum að gera það með þessum hætti. Að mínum dómi hafa ekki komið fram atriði í máli hv. ræðumanna sem sérstök ástæða er til að fara orðum um. Þó fannst mér koma fram svolítill misskilningur í viðbrögðum hv. þm. Garðars Sigurðssonar við þessari till. Ég hélt að það væri alveg ljóst af minni framsögu og raunar grg. með till. að ekki er verið að stefna með tillöguflutningnum að einu eða neinu styrktarkerfi varðandi skipasmíðar eða viðgerðir, síður en svo. Við viljum að allir þeir aðilar sem um þessi mál fjalla leggist á eitt, stofni til samvinnu í þeim tilgangi að gera þennan mikilsverða iðnað samkeppnisfæran nú og framvegis.

Ég vil fagna því sem fram kom — þeir reyna að fylgjast með, framsóknarmennirnir, eins og ég hafði nú raunar grun um — að þessi mál væru til meðferðar á vegum ríkisstj. og er ekkert nema gott um það að segja. Ég endurtek að ég fagna því. Hins vegar held ég að í svona málum geti oft verið þörf á því að fá ályktanir Alþingis. Eins og ég þykist hafa vikið að áður er oft betra að hafa breiðfylkingu þingsins að baki mjög mikilsverðum ráðagerðum.

Að svo mæltu vil ég endurtaka þakklæti mitt til hv. þm. fyrir góðar undirtektir við þessa till. Það er auðvitað von okkar allra að hún fái greiðan gang í gegnum þingið og verði samþykkt.