20.02.1984
Efri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2964 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

178. mál, sala lagmetisiðju ríkisins á Siglufirði

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ekkert undarlegt við það, þótt menn orðfæri mjög í tilefni slíkrar lagagerðar grundvallarágreining, sem uppi er og öllum vitanlegur milli flokka um ríkisaðild að rekstri og framkvæmdum. Þess vegna komu þau atriði í máli hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnars Arnalds ekki á óvart. Ég hélt að það væri ekkert nýtt, og síst fyrir honum, að flokka okkar til að mynda, Sjálfstfl. og Alþb., greinir á í grundvallaratriðum um þessi efni. Það er þó mikill misskilningur ef því er haldið fram að af hálfu Sjálfstfl. sé aðild ríkisins að rekstri bannorð. Það hefur það aldrei verið og það er það ekki. Við erum hins vegar þeirrar skoðunar, að best fari á því í flestu falli að ríkið hafi sem minnst bein afskipti af almennum rekstri, þar sem einstaklingar eða félagsskapur, samvinnufélög eða hlutafélög, geta að honum staðið og við hann ráðið. Í sérstökum tilvikum álítum við að ríkinu sé ekki eingöngu eðlilegt heldur og skylt að koma til skjalanna, t.a.m. ef þann veg stendur á að hætta er á að almennt atvinnuleysi bresti á, þá hlaupi ríkið tímabundið undir bagga. Ekkert er þetta nýtt af afstöðu Sjálfstfl. að segja. Hann hefur hins vegar lengi haft þá stefnu uppi að draga úr ríkisafskiptum. Í samræmi við það, og það er raunar ótalmargt annað sem því veldur, erum við hér með fyrir framan okkur frv. til l. um sölu á lagmetisiðjunni Siglósíld. En ég er ekkert viss um að þann veg væri málum komið nema fyrir það í hversu miklum erfiðleikum þetta fyrirtæki hefur átt um langt árabil og að ekki varð séð að fram úr þeim yrði ráðið til atvinnuuppbyggingar í Siglufirði nema með þeim hætti sem við nú stöndum frammi fyrir.

Ýmislegt er gagnrýnt í þessu, og satt best að segja heldur óskapfellilegt að heyra Alþfl.-menn sérstaklega víkja að því að ekki hafi verið með öllu heiðarlega að þessu staðið, og hlýt ég að vísa því algerlega á bug. Grandvar lögfræðingur iðnrn. var fyrir þeim þremur ungu mönnum, lögfræðingum, sem unnu að þessari samningsgerð. Fjmrn. tilnefndi einn, Gunnlaug Claessen og Framkvæmdastofnun ríkisins þann þriðja, Guðmund Malmquist. Að ætla að halda því fram að í einhverri auglýsingu geti bundist einhver skilyrði fyrir fram um endanlegan kaupsamning er auðvitað út í hött, eða að það er misskilningur minn á því hvaða meiningar liggja að baki orða hv. 5. landsk. þm. þegar hann vitnar til auglýsingar. Auðvitað er eigandinn ekki skuldbundinn að einu eða neinu. Þetta var í samræmi við almenna stefnumótun, sem hafði komið fram af hálfu fjmrh., um að við það skyldi að jafnaði miða að 20% söluandvirðis yrði greitt út. En allir menn sjá að slíka reglu er ekki hægt að móta til frambúðar í öllu falli. Auðvitað var það aðeins lauslegur rammi og óskuldbindandi í mesta máta fyrir þann sem með málefni þessa fyrirtækis fór, sem er iðnrh.

Yfir því var kvartað af hv. 3. þm. Norðurl. v., Ragnari Arnalds, að ekki hefði verið haft samráð við stjórn fyrirtækisins Siglósíldar. Ég hirði nú ekki um að rifja upp það samráð sem áður hefur verið haft við stjórn fyrirtækisins né heldur bæjarstjórn Siglufjarðar, en einnig er gagnrýnt að ekki hafi verið ráðslagað við hana. En stjórn lagmetisiðjunnar hafði ekki verið að verki frá því að þetta fyrirtæki er snemma á vordögum með leigukaupasamningi, sem við getum kallað hann, fært til fyrirtækisins Þormóðs ramma. Ég leit nú þann veg á að þessi stjórn væri ekki að störfum og hefði raunar lagt nokkurn veginn upp laupana, þótt það væri ekki formlega, við þennan gerning, sem hv. 3. þm. Norðurl. v., þáv. fjmrh., stóð fyrir ásamt fyrirrennara mínum, hv. 5. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni, og áttu af allan heiður, einnegin það að hafa fengið mér í hendur það kaupverð sem nú hefur verið samið um nákvæmlega, svo að menn hitta nú sjálfa sig fyrir þegar þeir hefja slíka þrætubókarlist.

Því er haldið fram að gefist hafi einstaklega vel þessi sameining við Þormóð ramma. Að vísu kom þar nýr afli og aukinn til og greiddi fyrir, en hvorugu fyrirtækinu nein undirstaða, og það liggur alveg ljóst fyrir að Þormóður rammi var ekki í neinum færum um að veita það fjármagn sem til þurfti til að byggja þetta fyrirtæki upp til frambúðar, fjarri öllu lagi. Og þegar nú stjórnarandstöðuþingmenn mæta hér hver á fætur öðrum og halda því fram að staðið hafi fyrir dyrum að þarna yrði um stórgróðafyrirtæki að tefla í Siglufirði, Siglósíld, þá er nú stungin tólg. Þeir menn sem það hafa kynnt sér, ekki menn eins og hv. þm. Karl Steinar, sem aldrei hefur fyrr á ævi sinni horft norður fyrir Arnarvatnsheiði en veit núna allt um málið, heldur þeir sem árum saman hafa staðið frammi fyrir því að bjarga þessu fyrirtæki frá stöðvun í atvinnuaukningarskyni í Siglufirði, þeir þekkja við hvaða erfiðleika þar hefur verið að glíma.

Menn segja: Skipulagsbreyting þessi var óþörf. En það liggur alveg ljóst fyrir eins og ég sagði að Þormóður rammi hafði ekki fjármuni til að gangast fyrir uppbyggingu þessa fyrirtækis, og hefur komið í ljós að sá kostnaður er miklu meiri en menn gerðu ráð fyrir einnegin við samningsgerðina, því þegar farið var að hefjast handa um viðgerðir hússins komu verulegar nýjar skemmdir í ljós.

Því hefur verið haldið fram að hér sé um ótryggan kaupanda og nýjan eignaraðila að tefla, af því sem ekki sé nægjanlega vel frá því gengið og tryggt, að fyrirtækið verði rekið í siglufirði. Í kaupsamningnum eru einmitt ákvæði sem tryggja eiga þetta atriði. Það verður heimilt að gjaldfella skuldabréf vegna kaupanna ef skuldbindingar um áframhaldandi rekstur í Siglufirði eru vanefndar. Þá eru 50% hlutafjár í Siglufirði þannig að heimamenn hafa að því leyti neitunarvald um málefni félagsins og m.a. um áframhaldandi rekstur. Ég verð að segja það, að mér fannst einmitt í þessu efni vel og varfærnislega frá þessum atriðum gengið, vegna þess að það var eindreginn vilji minn að fyrirtækið yrði áframhaldandi rekið í Siglufirði og kom ekkert annað til greina. Mun þessum ákvæðum verða beitt að fullu ef eitthvað brestur í böndunum að því leyti. Ég vísa þar með þessu gagnrýnisatriði einnig á bug.

Þá er að því vikið að kaupsamningur sé í engu samræmi við verðmæti eigna. Það má kannske í þessu sambandi líka vitna til gerningsins frá því á vordögum milli stjórnar lagmetisiðjunnar Siglósíldar og stjórnar Þormóðs ramma, og mætti spyrja hvort það bendi til mikils samráðs og vandaðs undirbúnings þar sem ráðslagað væri við alla aðila, að lögfræðingurinn sem semur þetta skjal bætir hér við neðst að Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, sem hv. 3. þm. Norðurl. v. kannast vafalaust við, þekktur og ágætur hæstaréttarlögmaður, hafi gert drög að þessu á grundvelli viðræðna fyrr í dag. Það er seinni part þessa dags sem frá þessu er gengið, en fyrr í dag, eins og þar stendur, hefur þessi hrl. gengið frá drögum á grundvelti viðræðna, og ber ekki að líta á þau sem neins konar tilboð frá öðrum hvorum aðilanum, heldur sem samningsgrundvöll. Má af því sjá að harkalega var unnið að framgangi þessa máls, enda lokið við það rétt áður en klukkan sló 12, svona kortér fyrir 12 getum við sagt, í tíð fyrrv. ríkisstj., áður en ný tók við, svo að menn þurftu að hafa hratt á hæli. (Gripið fram í: Hvað heitir plaggið?) Heitir plaggið? Það heitir Drög 1. Og þar segir, með leyfi hæstv. forseta, 7. liður þessa samnings hljóðar svo:

„Samningur þessi um afnot og rekstur gildir í eitt ár frá yfirtökudegi að telja, en að því ári liðnu hefur Þormóður rammi hf. rétt til að kaupa eignirnar og réttindi tengd rekstrinum, svo sem vörumerki og viðskiptasambönd, á verði sem er sem næst þeirri fjárhæð sem Siglósíld skuldar nú sem langtímalán, með þeim breytingum sem leiðir af verðlags- og gengisbreytingum til kaupdags.“

Og það hafa mínir menn reiknað út, sem ég treysti, að það sé nokkurn veginn nákvæmlega þessar umtöluðu 18 millj. kr., þannig að ef þetta verð er gagnrýnivert, þá hlýt ég að vísa til þess að mér var fengið það upp í hendur á fyrirrennara mínum í iðnrh.-stól og hv. 3. þm. Norðurl. v. sem fjmrh.

Um útborgun er frá því að segja að það sýndi sig að til þess að hinir nýju aðilar yrðu í færum um svo gagngerar endurbætur, kaup á nýrri niðurlagningarlínu og rækjupillunarvél og annað sem til þurfti, þótti nauðsyn til bera að greiða fyrir þeim með því að falla frá kröfu um útborgun. Og satt að segja átti ég ekki von á að þetta atriði yrði gagnrýnt af mönnum sem eru í félagsmálalegu fyrirsvari fyrir Siglufjörð á sjálfu Alþingi og hafa margt viðvikið unnið á undanförnum árum til að mynda fyrir Þormóð ramma og Siglósíld, sem Alþfl.-menn, ef þeir hefðu nennt að kynna sér málin, hefðu vafalaust eitthvert gagnrýnisorð um að segja. Það hefur mikið almannafé runnið til þessa fyrirtækis á umliðnum árum. Það þekkja allir þeir sem kynnst hafa þeim málum, ekki síst þm. Norðurl. v. Það var alveg ljóst að um slíka fjármögnun gat ekki verið áfram að tefla, það var alveg ljóst.

Ég fullyrði að ef ekki hefði verið brugðið á þetta ráð hefði þetta fyrirtæki lagt upp laupana, því að eins og ég sagði var Þormóður rammi í engum færum um að reisa það við eins og til þurfti. Allt þetta ber að hafa í huga þegar menn eru að ræða um kaupverð og greiðslukjör. Menn vilja ýmislegt á sig leggja og vildu um áratuga skeið til þess að efla atvinnulíf í siglufirði eftir þau gríðarlegu áföll sem sá staður varð fyrir fyrir margt löngu og hefur reyndar ekki borið sitt barr síðan. Þetta framtak verður áreiðanlega eitt af því, að mínum dómi a.m.k. Eftir minni bestu samvisku geri ég þetta fyrir því að ég hygg að þetta verði eitt af því sem getur orðið staðnum og atvinnu þar til framdráttar.

Ég vil alls ekki segja að bæjarstjórn Siglufjarðar hafi sýnt þessu fyrirtæki tómlæti eða áhugaleysi, enda þótt maður hafi ekki orðið var við neitt frumkvæði af hennar hálfu fyrr né síðar. Ég tala þar af nokkurri reynslu af því að ég þekki til atvinnulífsins og átti hlut að máli um alllangt skeið sem forstjóri í Framkvæmdastofnun. En ég tel vafalaust að aðgerðarleysi bæjarstjórnarinnar sjálfrar hafi orsakast af því að hún hafi ekki verið í fjármögnunarlegum færum um að veita aðstoð. Það má auðvitað svara því kalt til og segja: eigandi fyrirtækis þarf auðvitað ekki að spyrja aðra að því hvað hann gerir við það, ef menn eru að kvarta undan þessu samráðsleysi. En ég tel að öllum hafi verið vitanlegt hvað þarna fór fram. Bæjarstjórninni var kynnt salan í byrjun janúar og sent handrit að frv. eins og t.a.m. öllum þm. og það hefur ekkert heyrst af þeim vettvangi síðan. Það hafa engar aths. verið gerðar og ég lít svo á að þar með hafi hún út af fyrir sig ekkert sérstakt við þetta að athuga.

Gerður var samningur í mesta bróðerni milli Þormóðs ramma og Siglósíldar við hin nýju skipti og ég held að samkvæmt honum muni þessi fyrirtæki njóta styrks og stuðnings hvort af öðru eftir sem áður.

Ég held að ég hafi þá að mestu vikið að því sem gagnrýnt hefur verið af hv. stjórnarandstöðuþingmönnum. En hv. 9. þm. Reykv. Ólafur Jóhannesson bar fram fsp. í þá veru, hvernig gætt hefði verið gamla tilgangsins, sem var mikilvægur auðvitað á sínum tíma, um tilraunastarfsemi margháttaða sem þessari verksmiðju var ætlað að vinna vegna matvælaframleiðslu og þá auðvitað sjávarrétta. Hann svaraði sér sjálfur með því að segja það sem rétt er, að ekki þótti fært að gera einkaaðila það að taka við slíkum skilmálum. Eftirsjá er að þessu og hefði auðvitað átt að gefa þessa einföldu skýringu, annað tveggja í aths. við frv. eða í minni framsögu og eru það mistök. En svarið er afar einfalt að þessu leyti. Það ræddu menn en töldu ekki fært að setja fram sem skilyrði, enda trúi ég að ekki hefði verið að því gengið. Það er tekið fram að á ýmis ný ráð ætla þeir að bregða, en alls ekki neitt í átt við það sem upprunalega var gert ráð fyrir að þetta fyrirtæki hefði með höndum.

Á það er lítandi að lagmetisiðjan Siglósíld gat að mjög óverulegu leyti sinnt þessu mikilvæga hlutverki af ástæðum sem hv. þm. gat einnig um, af þeim ástæðum að það var aldrei þann veg um það búið, það var aldrei í stakk búið af eiganda sínum til að sinna því mikilvæga hlutverki og því fór sem fór. Þetta fyrirtæki hékk lengst af á horriminni og mér er til efs eða öllu heldur ég er sannfærður um að þetta fyrirtæki hefði lagt upp laupana fyrir margt löngu nema fyrir það að vegna atvinnuástands töldu menn nauðsynlegt að hlaupa undir bagga ár frá ári og stundum oft á ári til þess að það stöðvaðist ekki með öllu.

Það er rétt, og ég get svo sem upplýst það í þessu sambandi án þess að ég fari eftir neinum kreddukenningum, að ég mun vinna áfram að sölu ríkisfyrirtækja í minni umsjá. Ég get upplýst að að því er unnið að starfsfólk Landssmiðjunnar stofni með sér hlutafélag og kaupi það fyrirtæki. Það tilboð gerði ég starfsfólkinu á síðasta ári. Ég trúi að það sé komið langleiðina í undirbúningi og er ánægjulegt ef af því getur orðið. Auðvitað mun ég af fremsta megni vanda til slíkrar sölu, og ég trúi og vona að þeir menn sem til þeirra verka verði fengnir muni njóta þess trausts að ekki verði dregið í efa að farið sé að öllu með lögum og samkvæmt venjulegum viðskiptasiðferðisreglum. Enn fremur er alveg að því komið og hef ég beðið eftir mati óvilhallra manna í því efni, en auðvitað verður hægt að gagnrýna það eins og öll mannanna verk, að seldur verði hluti ríkisins í Iðnaðarbankanum, 27% sem ríkið á í Iðnaðarbanka Íslands, en að sjálfsögðu með öllum fyrirvörum um að hið háa Alþingi samþykki. Og enda þótt samningur hafi verið undirritaður og nýir eigendur í Siglósíld hafi hafið starfsemi, þá verður sá kaupsamningur auðvitað að engu ef hið háa Alþingi vilI ekki svo vera láta. Ég tek þetta fram til upplýsingar svo að mönnum komi það ekki á óvart, enda ætti það ekki að þurfa að koma á óvart. Og ég verð nú að segja það, að mér sýnist það lýsa kreddu í meiri máta þegar hv. 3. þm. Norðurl. v. snýst gegn þessari sölu á Siglósíld, þar sem greinilega er verið að gera mjög athyglisverða tilraun til þess að reisa þetta fyrirtæki við með tvöföldu afli, ef svo má orða það. Að hanga þá í ríkisaðildinni og eigninni, það er ekkert nema kredda.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. minntist á kísilmálmverksmiðjuna og gat þess, sem rétt er, að þar væri sjálfsagt tvennt til, ríkiseign eða þetta mál yrði afhent útlendingum. Ég þarf víst ekki að endurtaka marggefnar yfirlýsingar mínar um það að ég mun kappkosta að fá útlendan aðila til að taka áhættu af þessum áhættusama rekstri þar eystra. Að vísu lítur það mál allt betur út en menn í upphafi þorðu að vona, en að því er ekki komið að hægt sé að taka ákvörðun um það. A.m.k. er ekki komið að því að lögð verði fram tillaga um slíkt á hinu háa Alþingi meðan ekki hafa að bestu manna yfirsýn náðst saman endar í áætluðum rekstri slíkrar verksmiðju. Meðan enn skortir 200 dollara fyrir hvert framleitt tonn á að slík verksmiðja geti borið sig vonast ég til að ekki sé til þess ætlast af mér að ég beri fram till. um slíka framkvæmd á okkar vegum, Íslendinga og ríkisins. Við getum í fyrsta falli byrjað að ræða saman um slíka framkvæmd þegar og ef verðlag á viðkomandi afurð, kísilmálmi, batnar svo að um greinilega hagstæða framleiðslu verður að tefla.

Virðulegi forseti. Ég er utan við efnið, mér er það ljóst. En að gefnu tilefni, vegna almennrar umr. sem hafin var af hv. 3. þm. Norðurl. v. Ragnari Arnalds um aðild ríkisins að fyrirtækjum og ríkisrekstri, hef ég vikið hér örfáum orðum að þeim fyrirtækjum sem ég nú nefndi. Ég sé svo ástæðu til að þakka hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir ágætar undirtektir við þetta mál. Og raunar þykist ég þess fullviss eftir formlegt samþykki þingflokka ríkisstj. á þessu frv. að það fái góða og greiða leið í gegnum hið háa Alþingi.