27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (257)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Atburðirnir í Grenada s.l. mánuð vekja vissulega þungar áhyggjur. Ég ætla mér raunar ekki að fjölyrða um þessa atburði á þessu stigi, enda ekki öll kurl komin til grafar. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að Bandaríkjamenn vilji vernda líf þeirra u.þ.b. þúsund Bandaríkjamanna sem dvöldu í Grenada, m.a. við nám í læknaskóla sem þar er rekinn. En hvort það er nægileg málsástæða fyrir athöfnum þeirra er annað mál.

Önnur skýring Bandaríkjamanna er sú að þeir vilja ásamt öðrum nágrannaríkjum Grenada koma á lögum og reglu og lýðræðislegu stjórnarfari í stað ógnarstjórnar. Það verður því fylgst vel með því hver framvindan verður og hve fljótt Bandaríkjamenn draga lið sitt til baka og Grenadabúar sjálfir fá að ráða málum sínum á lýðræðislegum grundvelli. Þeirri kröfu verður fylgt fast eftir.

Þá er rétt að upplýst sé hver séu réttindi og skuldbindingar þeirra sex aðildarríkja í samtökum austurkarabískra eyríkja, sem stóðu að landgöngunni ásamt Bandaríkjunum, Barbados og Jamaica. Athygli vekur að fleiri en 600 Kúbumenn og 60 Sovétmenn voru til staðar í Grenada, Kúbumennirnir taldir verkamenn að byggja flugvöll. Í ljós kom að byggingarverkamennirnir voru vopnaðir svo að ástæða er til að kanna hvort önnur innrás hafi í raun átt sé stað fyrr en sú bandaríska og austurkarabíska og hvort vopnað lið frá Kúbu hafi staðið fyrir fangelsun og síðar morði forsætisráðherra, þriggja ráðherra, tveggja verkalýðsleiðtoga og margra annarra borgara í Grenada fyrr í þessum mánuði sem og fangelsun landstjórans, fulltrúa þjóðhöfðingja.

Auðvitað vekja atburðirnir í Grenada áhyggjur vegna hættu á aukinni spennu í Alþjóðamálum almennt og í Mið-Ameríku sérstaklega. Því verður fylgst náið með málum. Ríkisstjórnin mun gera það og undirstrika þá kröfu að landgönguliðið hverfi á brott og tryggt sé að Grenadabúar ráði sjálfir mátum sínum og ríkisstjórn.