20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2973 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

196. mál, lausaskuldir bænda

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hér er nokkuð óvanalegt mál á ferðinni sem ég vildi gjarnan að yrði rætt að hæstv. fjmrh. viðstöddum sem nú stendur í samningum við starfsmenn ríkisvaldsins. Ég vildi fara þess á leit við hæstv. forseta að hann athugaði hvort ráðh. væri í húsinu og hvort hann gæti verið viðstaddur þessa umr. (Forseti: Ég hlýt að taka það fram að ég hygg að hæstv. ráðh.— sé í London eða einhvers staðar erlendis. En það gætu aðrir ráðh. kannske betur upplýst en ég.) (PP: Hver fer með embætti fjmrh. í fjarveru hans?) (Forseti: Það gerir hæstv. heilbr.- og trmrh. Ég get reynt að hafa samband við hann. Ef hv. þm. vill bíða eitthvað með ræðu sína skal ég gera gangskör að því að hæstv. heilbr.- og trmrh. verði hér til svara.) Nei, ætti við látum okkur ekki nægja að ræða við hæstv. fjmrh. þegar hann kemur til landsins. Einhvern tíma hlýtur að koma að því. A.m.k., herra forseti, ef ákveðið dýr í hans eigu hefur ekki farið með honum til útlanda má vænta þess að hann komi senn hvað líður til þess að huga að hundum sínum.

Það sem ég vildi gjarnan vekja athygli hv. þm. á í sambandi við það mál sem hér er til umr. er hversu óvanalegt það er. Í 1. gr. frv. stendur að lagt sé til að veðdeild Búnaðarbanka Íslands breyti í föst lán öllum lausaskuldum bænda sem þeir hafi stofnað til vegna fjárfestinga á jörðum og vegna jarðakaupa, véla-, bústofns- og fóðurkaupa frá og með árinu 1979 til og með ársins 1983. En, herra forseti, í gildi eru lög frá árinu 1979 þar sem öllum lausaskuldum bændastéttarinnar frá og með árinu 1970 til og með árinu 1979 var breytt í föst lán. M.ö.o., það stendur til ef þetta frv. verður samþykkt að breyta öllum lausaskuldum, sem bændastéttin hefur stofnað til s.l. 14 ár, í löng lán.

Í grg. með frv. er sérstaklega tekið fram að s.l. tvo áratugi hafi þetta fjórum sinnum átt sér stað. Ég vildi gjarnan fá að vita hjá hæstv. ráðh., þar sem mína þekkingu brestur lengra aftur í tímann en til 1970, hversu langan tíma af s.l. tveim áratugum bændur hafi sjálfir þurfi að standa undir þeim lausaskuldum sem þeir hafa stofnað til vegna búrekstrar. Hvers konar framferði er það af stjórnvöldum að ætla að gera þannig upp á milli atvinnustétta í landinu að ein tiltekin atvinnustétt fái að breyta öllum sínum lausaskuldum frá 14 ára samfelldu tímabili í löng lán? Hvers konar vinnubrögð eru þetta, hvers konar sérréttindi eru það sem hér er verið að bjóða upp á af löggjafanum til handa einni tiltekinni atvinnustétt?

Það vill svo til að nú er árið 1984. Eins og þm. vita var samin fyrir nokkrum árum bók með því nafni. Höfundur þeirrar bókar samdi einnig aðra bók sem á íslensku er kölluð „Félagi Napóleon“ þó að rétt íslensk þýðing á bókarheitinu á frummálinu sé „Dýragarðurinn“ sem e.t.v. á betur við í þessu tilviki. Þar er sett fram sú kenning að allir séu jafnir en eigi að síður séu sumir jafnari en aðrir. Finnst mönnum eðlilegt, þó að nú sé árið 1984, að Alþingi og stjórnvöld mismuni fólki svo gróflega í réttindum eftir því hvaða störf það stundar að ákveðinn starfshópur í þjóðfélaginu fái að breyta öllum lausaskuldum sínum frá samfelldu 14 ára tímabili í löng lán á sama tíma og Lögbirtingablaðið, sem gefið er út af ríkissjóði, og Morgunblaðið og DV, sem gefin eru út af félögum sjálfstæðismanna, komast varla frá því að birta auglýsingar um nauðungaruppboð á eigum venjulegs launafólks? Því er ekki boðið upp á svona afgreiðslu, ekki einu sinni frá einu einasta ári hvað þá að hæstv. ríkisstj. bjóði launafólki upp á möguleika til að breyta lausaskuldum vegna íbúðakaupa og húsnæðisöflunar í lengri lán.

Það nær ekki nokkurri átt að hv. Alþingi skuli leyfa sér að gera svona upp á milli þjóðfélagsþegnanna hvað varðar lagaleg réttindi sem veita á. Sú grundvallarregla á að vera í íslensku stjórnarfari að við eigum allir að vera jafnir fyrir lögunum. Sumir eiga ekki að vera jafnari en aðrir. Það nær ekki nokkurri átt að Alþingi skuli gera sér leik að því að afgreiða breytingar eins og hér er um að ræða.

Það er fleira, herra forseti, sem er nokkuð óvanalegt við þann málatilbúnað. Skyldi það vera almenn regla í okkar þjóðfélagi að lántakendurnir fái hlutdeild í því að ákveða lánskjörin? Ef ég sæki eftir láni sem venjulegur launþegi, t.d. í banka, fæ ég þá eða fulltrúi minn að taka þátt í því að ákveða hvaða lánskjör mér skuli boðin, hvaða vexti ég eigi að borga af mínu láni? Nei, þetta er ekki sá háttur sem vanalega er hafður á um slík mál. Launþegar fá engin áhrif að hafa á slíkar ákvarðanir. En í 2. gr. þessa frv. er lagt til að ákvörðunin um lánakjörin á þessum lánum skuli tekin af stjórn veðdeildar Búnaðarbanka Íslands ásamt fulltrúum Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. M.ö.o., fulltrúar þeirrar stéttar sem verið er að útvega lánin eiga að öðlast hlutdeild í því að ákveða hvaða lánskjör þeim skuli boðin. Ég vil biðja hæstv. landbrh. að svara þeirri spurningu hvort hann viti um eitthvert fordæmi fyrir því að slíkt hafi verið gert.

Í lögunum frá 1979, sem ég vitnaði í áðan um skuldbreytingarnar frá 1970–1979 vegna lausaskulda bænda, er ekkert svona ákvæði að finna. Þar er ekki gert ráð fyrir því að lántakendurnir fái að hafa áhrif á lánakjörin sem þeim eru boðin. Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Getur hann fundið fordæmi um að svona hafi áður verið gert? Ég vildi gjarnan fá það upplýst. Finnst hv. alþm. þetta eðlilegur háttur á afgreiðslu mála? Ef þeim finnst það eiga þeir að láta eitt og hið sama ganga yfir alla því að allir viljum vér vera jafnir fyrir lögunum og allir landsmenn eiga að hafa sama rétt til sömu meðhöndlunar af stjórnvöldum. Í þessu landi erum við allir jafnir, þar eiga ekki sumir að vera jafnari en aðrir.

Ég vil líka, herra forseti, benda mönnum á að í 3. gr. er sú óvanalega afgreiðsla gerð að væntanlegum lántakendum er heimilað að veðsetja eigur ríkisins fyrir lausaskuldum sínum. Þar er gert ráð fyrir því að ábúendum á ríkisjörðum sé heimilt að veðsetja ríkisjarðirnar til tryggingar lausaskuldum sínum. Ég spyr: Er leigutökum í húsnæði ríkisins og stofnana þess, sem hafa tekjur af öðru en framleiðslu landbúnaðarafurða, heimilt að veðsetja ríkiseigurnar sem þeir leigja til tryggingar fyrir skuldum er þeir kunna að hafa stofnað til? Á maður sem er leiguliði hjá ríkinu ekki að hafa sama rétt án tillits til þess hvaða starfi hann sinnir? Eða á hann að hafa meiri rétt ef hann framleiðir búvörur en hann hefur ef hann vinnur eitthvert launað starf á vegum ríkisins og stofnana þess?

Ég ætla ekki að draga í efa að þörf sé á að Alþingi afgreiði breytingu á lausaskuldum framleiðenda í landbúnaði frá 14 ára samfelldu tímabili í föst lán. Ég ætla ekki að draga það í efa. En ég spyr hæstv. ráðh.: Eru ekki fleiri framleiðendur í landinu en framleiðendur búvöru? Hvað um t.d. framleiðendur iðnaðarvöru? Hvað um þá sem vinna verðmæta framleiðsluvöru úr afurðum landbúnaðarins? Eru þeir ekki framleiðendur líka? Hafa þeir ekki líka stofnað til lausaskulda, svo að maður tali nú ekki um í heil 14 ár samfellt? Ég spyr hæstv. ríkisstj.: Hver er þeirra réttur? Hvernig stendur á því að þeir fá ekki að vera eins jafnir fyrir lögunum og sú atvinnustétt sem þetta frv. fjallar um? Og hvað um launafólkið sem er að missa eigur sínar á nauðungaruppboðum? Ekki stendur á að það sé krafið um fulla greiðslu fyrir allar skuldir sem það hefur stofnað til. Herra forseti. Á þetta fólk engan rétt? Á þetta fólk ekki að vera jafnt fyrir lögunum og þeir aðilar sem hér er verið að fjalla um og stjórnvöld eru búin að setja lög fyrir um breytingu á lausaskuldum s.l. 14 ár samfellt?

Herra forseti. Ég mun gera ráðstafanir til þess í samvinnu við aðra þá sem slíkt mál vilja með mér flytja að frv. verði lagt fram hér á Alþingi um breytingu á lausaskuldum launamanna í föst lán eftir nákvæmlega sömu fyrirmyndum og í anda nákvæmlega sömu reglna og hæstv. ríkisstj. leggur fram í þessu frv. Látum svo reyna á, herra forseti, hvort Alþingi Íslendinga vill lifa og starfa í anda þeirrar leikreglu að í þessu þjóðfélagi séu allir menn jafnir. Ég mun líka beita mér fyrir því að sams konar brtt. verði flutt við þetta frv. þannig að alþm. geti ekki skotið sér undan því að taka afstöðu með atkvæði sínu til slíks máls.