20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2980 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

196. mál, lausaskuldir bænda

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hér er komið fram á Alþingi frv. sem var boðað í útvarpsauglýsingu frá veðdeild Búnaðarbanka Íslands og þannig fyrst kynnt landsmönnum síðustu helgina í okt. s.l. Þá urðu hérna utandagskrárumræður af því tilefni. Með leyfi hæstv. forseta langar mig að lesa aftur auglýsinguna. Hún var svona:

„Bændur. Ríkisstj. áformar að leggja fram frv. til l. um breytingar á lausaskuldum bænda í föst lán. Þeir sem vilja notfæra sér þá heimild sem lögin kunna að veita, verði frv. samþykkt, sendi umsóknir til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands, Laugavegi 120, Reykjavík, fyrir 15. nóv. Umsókninni fylgi veðbókarvottorð og afrit af síðasta skattframtali þeirra sem ekki hafa þegar sent það til Stéttarsambands bænda.“

Þetta var undirritað af veðdeild Búnaðarbanka Íslands.

Um þetta urðu umr. þó nokkrar. Það þótti ýmsum skjóta við skökku að það kæmi í hlut veðdeildar Búnaðarbankans að tilkynna ásetning ríkisstj. um setningu lagafrv. og það þótti líka dálítið langt gengið að auglýsa eftir umsóknum um lán skv. frv. sem ekki væri farið að draga til stafs um. Það var lögð fram spurning í þessari utandagskrárumræðu um hvort hæstv. landbrh. teldi eðlilegt að auglýst væri eftir umsóknum um lán sem ættu að byggjast á frv. sem ekki væri búið að semja.

En nú er frv. komið og þá er loksins hægt að líta á það. Nú verð ég örugglega merktur bændahatari af því ég voga mér að taka til máls um þetta, þó ég sé af bændum kominn og vilji helst að bónda aftur verða. Ýmislegt kemur í hug við lestur þessa máls og við að hlusta á þessar umr. Í fyrsta lagi er hérna á ferðinni enn eitt óstoppaða gatið í lánsfjármálum ríkisstj., sem nú eru reyndar til umr. í þessari hv. deild. Það var langur fundur í hv. fjh.- og viðskn. um lánsfjárlög og lánsfjármál stjórnarinnar í morgun og það verða vafalaust margir fundir um þau enn. Það hefur komið í ljós að lánamál og fjárhagsmál stjórnarinnar eru flókin og erfið, ekki síst þar sem til standa viðamiklar skuldbreytingar, t.d. í sjávarútvegi, sem alls eru ókunnar, og hér eru boðaðar skuldbreytingar í landbúnaði.

Fyrsta spurningin sem vaknar er þessi: Hvar á að afla þessara 150 millj. a.m.k.? Önnur spurningin sem vaknar er hvort ekki sé eðlilegt að fjh.- og viðskn. hv. deildar fjalli um þetta mál eins og önnur lánsfjármál um þessar mundir en ekki landbn. Ég legg til að þessu máli verði vísað til hæstv. fjh.- og viðskn. þannig að það geti komið þar til umr. um leið og önnur lánsfjármál ríkissjóðs liggja þar fyrir. Þetta er ein hliðin á þessu máli.

Önnur hliðin er sú að það setur að mönnum vissan ótta um nýjasta ramma ríkisstj., 60% rammann, sem á við hlutfall lána af þjóðarframleiðslu. Hann virðist nú vera orðinn ansi sveigjanlegur og teygjanlegur ef hann á að taka við þeim viðbótarskuldum sem þegar hafa verið boðaðar.

Næsta atriði sem ég vildi gera að umtalsefni eru reglur um úthlutun þessa fjár og markmiðið með þessari úthlutun. Þetta á við skuldbreytingar yfirleitt, á við skuldbreytingar í landbúnaði og skuldbreytingar í sjávarútvegi. Það er grundvallaratriði að mönnum séu kunn þau meginmarkmið sem skuldbreytingarnar stefna að. Það hefur ýmislegt verið rætt um sjávarútveg. Menn hafa talað um að ekki mætti búa svo um hnútana að allir séu dregnir upp á þurrt land, að hysjað sé upp um alla, skussana jafnt sem þá sem vel hafa staðið að sínum búskap. Allar þær röksemdir og umr. eiga við í sambandi við skuldbreytingar landbúnaðarins líka. Svona aðferðir hljóta að verða að verka á almenna réttlætiskennd þjóðarinnar í fjármálum og þá spyrja menn sig: Hvað með iðnaðinn í þessu landi og hvað með launamennina? Þannig er fullkomlega eðlilegt að þeim spurningum sé varpað hérna upp hvort við eigum þá að stefna að allsherjar skuldbreytingu fyrir alla, konur og karla.

Þetta vekur líka til umhugsunar um rekstrargrundvöll atvinnuveganna í þessu landi, t.d. landbúnaðarins. Við höfum í fyrsta lagi þannig fyrirkomulag, að í landbúnaði er greiddur af sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar mismunur á kaupgetu almennings og framleiðslukostnaði búvaranna. Ef þetta dugar ekki eru skuldirnar sem safnast á sama tímabili teknar og settar í poka og framlengdar með aðgerðum ríkisvaldsins. Ég á marga frændur í bændastétt sem eru löngu orðnir leiðir á svona gervirekstrargrundvelli. Ég held að það sé virkilega kominn tími til þess að menn athugi sinn gang og velti því fyrir sér hvort ekki sé hægt að finna heilbrigðari rekstrargrundvöll fyrir atvinnurekstur í þessu landi og þá í þessu tilfelli landbúnað, vegna þess að ég held að hugur bæði bænda og almennings í þessu landi standi til þess að hér sé öðruvísi staðið að málum.