20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2983 í B-deild Alþingistíðinda. (2576)

196. mál, lausaskuldir bænda

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn þegar umr. fara fram hér á hv. Alþingi um málefni bænda að ef einhverjir verða til þess að spyrja spurninga eða gagnrýna mál af þessu tagi eru viðbrögðin gjarnan á sömu lund eins og t.d. kom mjög skilmerkilega fram í máli hv. síðasta ræðumanns. Hann talaði um að hv. 3. þm. Vestf. hefði verið að skeyta skapi sínu á bændum, verið hér í einhverjum ham með vonsku í garð bænda, hnykkir síðan á með því að vandann bæri fyrst og fremst að rekja til þess sem hann kallaði vaxtaokursstefnu Alþfl. o.s.frv.

Eru einhver tilefni til þessara ummæla? Nei. Hv. 3. þm. Vestf. sagði ekkert efnislega um að þessi till. um skuldbreytingu til bændastéttarinnar væri óþörf. Hann lagði engan dóm á það, tók það skilmerkilega fram í sínu máli. Hann lagði hins vegar út af hugtakinu jafnrétti og hvort menn væru jafnir hér fyrir lögum. Hann spurði ákveðinna spurninga um það hvort aðrir aðilar í þessu þjóðfélagi eins og t.d. óbreyttir launþegar, sem sannarlega búa margir hverjir við hallæri þessi misserin, mættu eiga von á viðlíka fyrirgreiðslu. Hann spurði hvort aðrar atvinnustéttir — jafnvel stéttir sem njóta mun lakari fyrirgreiðslu í sjóðakerfi landsmanna og mætti ég þar t.d. nefna íslenskan iðnað — mættu eiga von á svipaðri fyrirgreiðslu eða hvort fordæmi væru fyrir því að þessar stéttir hefðu notið þess ekki aðeins s.l. 14 ár heldur s.l. áratugi samfellt, að hér væru lögð fram og samþykkt á Alþingi lög af þessu tagi um skuldbreytingar, ekki aðeins í nokkur ár vegna hallæris sem talað er um í fjögur ár heldur samfellt í 14 ár og fjórum sinnum á undanförnum áratugum þar á undan. Spurningin er þessi: Eru Íslendingar jafnir fyrir lögum?

Og um vaxtaokursstefnu Alþfl., hv. þm. Ég ætta að láta mér nægja að rifja upp fyrir hv. þm. að það sem hann kallar því óvirðulega nafni er að finna í lagabálki sem kenndur er við formann Framsfl. og er hans stolt og eftirlæti í lífinu, sennilega mesta afrek í lagasmíð sem heitir Ólafslög. En þar var sett það markmið að stefnt skyldi að raunvöxtum í áföngum á tilteknu tímabili. Niðurstaðan varð hins vegar sú að framkvæmdin tókst ekki en hefur í tíð núv. ríkisstj. tekist a.m.k. svo vel að raunvextir hafa ekki í annan tíma verið hærri. Það skal síðan tekið fram að þessi lög voru að sjálfsögðu samþykkt af Framsfl. og þar á meðal þeim hv. þm. sem nú gefur sjálfum sér þessi eftirmæli.

Ef það er álit ekki einasta hæstv. landbrh. heldur núv. ríkisstj. og stjórnarmeirihluta á Alþingi að vegna hallæris í landbúnaði s.l. fjögur ár, og reyndar s.l. 14 ár og s.l. áratugi, beri nauðsyn til að setja slík lög er meginspurningin sú: Geta aðrir aðilar sem sannanlega geta fært sönnur á hörmulegan aðbúnað þessi misserin átt von á því að fá viðlíka fyrirgreiðslu?

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vitnaði í Orwell og Animal farm og orðtakið fræga: Sumir eru jafnari en aðrir. Ég vil vekja athygli á því, hv. þm., að þeir þrír þm. sem talað hafa hér fyrir þessu máli, hæstv. landbrh., hæstv. fyrrv. landbrh. og hv. formaður þingflokks Framsfl., eiga hér allir mikilla hagsmuna að gæta. Allir eru þessir hv. þm. atvinnurekendur í þessari starfsgrein. (Gripið fram í: Allt saman lán handa þeim.) Má ég, með leyfi hæstv. forseta, rifja upp að í 4. kafla laga um fundarsköp á Alþingi Íslendinga segir í 45. gr.:

„Enginn þm. má greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín.“

Ég vil bara biðja hv. þm. að hugleiða hvað í þessum orðum felst. Ég var að vitna í þingskapalög á Alþingi Íslendinga.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson færði rök að því að það mundi vera harla óvenjulegur afgreiðslumáti sem fælist í þessum lögum. Hvað er óvenjulegt við hann? Það er í fyrsta lagi að við erum ekki að tala um skuldbreytingalán núna í fyrsta sinn frá árinu 1979 skv. þessu frv. Við erum að tala um að þetta er orðinn fastur liður í stjórnarstefnu í landbúnaðarmálum. Þetta er eitthvað sem lánastofnanir, lánardrottnar, kaupfélög og aðrir slíkir aðilar geta gengið út frá sem gefnu, það er m. ö. o. regla en ekki undantekning sem við erum að fjalla um, skuldbreytingar með reglulegum hætti samfellt áratugum saman eru regla en ekki undantekning. Þá er spurt: Eru fordæmi fyrir því að aðrar stéttir í þjóðfélaginu njóti sömu kjara?

Í annan stað vakti hann athygli á því að óvenjulegt væri að ákvörðun um vaxtakjör við slík lán skyldi vera að hluta til í höndum lántakendanna sjálfra. Ekki fer á milli mála að þarna er kveðið á um að Stéttarsamband bænda skuli vera aðili að ákvörðuninni um vaxtakjör. Hvernig eru vaxtakjör yfirleitt ákveðin á Íslandi? Eins og hv. þm. vita er það í stórum dráttum á valdi Seðlabanka Íslands sem styðst við ákveðna löggjöf oft á tíðum og í samráði við ríkisstj. Það er hins vegar ekki hin almenna regla að vaxtakjör séu ákveðin af þeim sem taka við lánum. Eru vaxtakjör ákveðin af húsbyggjendum? Venjan er ekki sú. Þannig að ég held að það standist fyllilega sem hv. þm. sagði að þetta er hvort tveggja heldur óvenjulegt.

Ég vík aftur að spurningunni: Mega aðrar stéttir eiga von á sambærilegri fyrirgreiðslu? Það vill svo til að í hádeginu vorum við nokkrir fulltrúar þingflokks Alþfl. á viðræðufundi með Landssambandi ísl. iðnaðarmanna. Talsmenn iðnaðarins lögðu fram upplýsingar um hlut iðnaðarins í fyrsta lagi í atvinnustarfseminni í landinu, hversu margir þeir væru sem störfuðu innan vébanda Landssambands ísl. iðnaðarmanna og reyndar Félags ísl. iðnrekenda. Þeir gerðu nokkra úttekt á því hver væri hlutur iðnaðarins í hinni almennu lánastarfsemi í landinu, annars vegar að því er varðaði fjárfestingarlán og hins vegar að því er varðaði rekstrarlán. Þeir vöktu athygli á því að hinn hefðbundni iðnaður á Íslandi nýtur t.d. ekki þeirrar forgjafar í lánastarfsemi að njóta sérstakra kjara í sambandi við afurðalán og ef litið væri til lengri tíma væru lánskjör iðnaðarins mun lakari en annarra greina þrátt fyrir að þetta er sú atvinnugrein sem veitir hvað flestum atvinnu. Auðheyrt var á þeim að þeir töldu nú ástæðu til og nefndu það mál sem hér liggur fyrir sem fordæmi, að beina því mjög alvarlega til ríkisstj. að lagt verði fram á Alþingi sams konar frv. um skuldbreytingar í íslenskum iðnaði. Þeir nefndu t.d. þau áföll sem heilar starfsgreinar hafa orðið fyrir, eins og t.d. húsgagnaframleiðsla eða innréttingaframleiðsla, þeir nefndu t.d. stórt fyrirtæki norður á Akureyri sem nú er að leggja upp laupana og segja upp starfsfólki í stórum stíl vegna þess að það hefur verið kafsiglt af innflutningi. Nú spyr ég: Má vænta þess að talsmenn íslensks iðnaðar njóti jafn ljúflega og jafn greiðlega sams konar kjara og lagt er til hér? Megum við vænta þess að innan fárra daga verði lagt fram frv. um skuldbreytingar í íslenskum iðnaði og að kjörin í sambandi við það verði ákveðin með sama hætti og hér er gert ráð fyrir?

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði nóg að því er varðaði hlut launþega í þessum samanburði, hann boðaði að hann mundi flytja hér brtt. sem hv. þm. verða þá að taka afstöðu til og efnislega og jafnvel orð fyrir orð verður nákvæmlega með sama hætti og hér er lagt til að gildi varðandi bændur. Þá reynir á það hvort hv. þm. standa við það í verki að við séum allir jafnir fyrir lögum eða hvort sumir eru jafnari en aðrir.

Hv. 1. þm. Norðurl. v., hæstv. fyrrv. landbrh., notaði þau orð í ræðu sinni að hallæri hefði verið í landbúnaði á undanförnum árum. Samkvæmt því sem fyrir liggur um skuldbreytingar í landbúnaði hefur verið hallæri í landbúnaði s.l. áratugi. En ástæða er til að spyrja sjálfan sig: Hverjum er þetta í hag? Hverjir eru það sem ábyrgð bera raunverulega á þessari lánastarfsemi? Fram kemur í grg. að það muni fyrst og fremst vera venjulegar lánastofnanir og kaupfélög. Spurningin er þessi í ljósi yfirlýsinga ríkisstj. um stefnubreytingu í allri hagstjórn, um kröfu um aukna ábyrgð þeirra sem stýra fjármálastofnunum, um mat á arðsemi í lánveitingum: Hvaða áhrif hefur aðgerð eins og þessi, þegar hún hefur staðið ekki aðeins í nokkur ár, ekki aðeins við óvenjulegar kringumstæður, heldur áratugum saman, á störf þeirra sem lána féð? Hvað mundu þeir segja sem vita af áratuga reynslu að lánað fé í þessari atvinnugrein t.d. er alveg gulltryggt með ríkisábyrgð, því verður alltaf skuldbreytt undir öllum kringumstæðum, það er engin áhætta tekin? Hvernig litist talsmönnum núv. ríkisstj. á það ef þetta væri sú grundvallarregla sem ríkisstj. hyggst styðjast við í málefnum allra atvinnugreina? Ætli það yrði mikill árangur í viðureigninni við verðbólguna ef þetta yrði haft að leiðarljósi? Hverjir eru það sem fengið hafa þessi lán fyrst og fremst frá þessum lánastofnunum? Liggja fyrir einhverjar upplýsingar um það, hæstv. landbrh.? Liggur ljóst fyrir að það sé fyrst og fremst sá hluti bændastéttarinnar sem við lökust kjör býr sem notið hefur þessarar lánafyrirgreiðslu eða má vera að það séu fyrst og fremst hinir efnameiri bændur sem fengið hafa þessi lán? Hverjir eru það í landbúnaði sem fyrst og fremst hafa efnt til nýfjárfestingar á undanförnum árum?

Enginn er búmaður sem ekki kann að barma sér. Þrátt fyrir allan barlóm skulum við minnast orða hv. fyrrv. þm. Björns á Löngumýri sem sagði í frægu viðtali: „Það vill nú svo til, sem betur fer, að hér á Íslandi eru mjög margir sterkefnaðir menn í bændastétt.“ Hann tíundaði um það mörg dæmi. Þeir sem eitthvað þekkja til í sveitum og eitthvað hafa kynnt sér landbúnaðarstefnu og fyrirgreiðslu við þessa stétt manna vita að það er fjöldinn allur af mönnum í bændastétt, sem betur fer, sem eru miklu meira en bjargálna menn, sem eru efnamenn. Ég spyr: Væri ekki ráð að leggja fram einhverjar upplýsingar um það hvort þessi skuldbreyting er fyrst og fremst í þágu þeirra sem mest hafa umleikis, stærst reka búin, mest hafa beitt sér í fjárfestingu, eða til annarra? Byggir þessi stefna á því að fyrst og fremst eigi að bjarga þeim sem búa við verst skilyrði eða verst hafa rekið sinn búskap? Það væri ráð að fá það upplýst.

Ég er þeirrar skoðunar að öll stjórnun fjárfestingar á Íslandi, allt það sjóðakerfi sem hróflað hefur verið upp á undanförnum áratugum í þágu atvinnuveganna þar sem hver atvinnugrein hefur raunverulega eyrnamerkt sér sérstaka sjóði, sem síðan hafa löngum verið fjármagnaðir með sérstökum kjörum, lúta síðan þeim reglum að þeim er yfirleitt stjórnað af öflugum hagsmunaaðilum innan þessara sömu greina og veita og reka lánveitingapólitík, sem er í stórum dráttum rammskorðuð og íhaldssöm, þar sem lán eru ævinlega veitt eftir sömu gömlu formúlunni, jafnvel sjálfvirkum reglum til sömu aðilanna, að allt þetta kerfi sé ein meginundirrót verðbólgu á Ístandi, sé ein versta meinsemdin í íslenskri hagstjórn og þurfi að skera upp algerlega frá rótum. Ég veit að mjög margir í röðum hv. stjórnarþm. væru mér innilega sammála um þetta.

Þetta mál er kannske afsprengi af þessu úrelta og vitlausa sjóðakerfi. Þeir menn sem vilja kannske fitja upp á nýjungum, hvort heldur er í landbúnaði eða iðnaði, og efna til nýrrar starfsemi sem líkur benda til að geti skilað mikilli arðsemi og átt sér verulega framtíð, jafnvel á útflutningsmörkuðum, eiga oft í miklum erfiðleikum þegar þeir standa frammi fyrir þessu íhaldssama hefðbundna sjóðakerfi. Það er enginn sem hlustar á aðila sem ekki eiga beinna hagsmuna að gæta í kerfinu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta miklu fleiri orð. Ég vil aðeins vekja athygli á því að það sem hér hefur verið sagt um þetta frv., í fyrsta lagi varðandi þá reglu að skuldbreytingar hafa farið fram áratugum saman í landbúnaði, í öðru lagi að lánskjörin eru ákveðin að hluta til af viðtakendunum sjálfum og í þriðja lagi að hér stendur skilmerkilega að ábúendur ríkisjarða mega veðsetja ábúðarjarðir sínar til tryggingar þessum lánum, allt stendur þetta óhaggað. Hins vegar skortir mikið á að nægilegar upplýsingar hafi verið lagðar fram um það hverjum í hag þessar lánveitingar eigi að vera, það þarf að fást upplýst, áður en menn taka afstöðu til þess hvað hér er um mikla fjármuni að ræða, hvað miklum fjármunum hefur verið varið til þess á undanförnum gildistíma laganna frá 1979 og reyndar allan tímann aftur úr. Hver er staða bankakerfisins til að veita þessi lán? Hvaða framkvæmdir og hvaða fjárfestingar eru það fyrst og fremst sem verið er að niðurgreiða? Og síðast en ekki síst: Er ríkisstj., sem leggur fram svo stefnumarkandi plagg fyrir einn atvinnuveg í landinu, reiðubúin til að svara því hér og nú að aðrir atvinnuvegir, sem líkt er ástatt fyrir, muni njóta ekki lakari fyrirgreiðslu en hér er lagt til? Að lokum, herra forseti, legg ég til ef þessari umr. er haldið áfram að þeir þm. sem hér eru að tala um brýna eigin hagsmuni sín sjálfra stilli orðum sínum í hóf þegar þeir gagnrýna aðra eins og t.d. okkur Alþfl.menn fyrir að gagnrýna landbúnaðarstefnu framsóknarmanna.