20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2987 í B-deild Alþingistíðinda. (2577)

196. mál, lausaskuldir bænda

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það hefur vakið athygli við þessa umr.hæstv. landbrh. og hv. formaður þingflokks Framsfl. hafa lagt á það mikla áherslu að þessu frv. verði hraðað í gegnum þingið. Engu að síður er ljóst að mjög skortir á að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir um þetta mál. Hér rakti síðasti ræðumaður nokkur þau atriði sem nauðsynlegt er að fá skýr svör við áður en Alþingi getur fjallað nánar um það með hvaða hætti á að afgreiða þetta frv. Er hæstv. landbrh. t.d. reiðubúinn að láta landbn. og fjh.- og viðskn. þessarar deildar í té úttekt á því um hvaða fjárfestingu er þarna að ræða, hverjir eru þeir aðilar sem hafa sótt um þessar skuldbreytingar og hverjar þær framkvæmdir sem þeir ætla sér að fjármagna með þessum hætti? Hver er tekjudreifing þeirra? Slík gögn eru algerlega nauðsynleg ef Alþingi á að geta tekið með sómasamlegum hætti afstöðu til þessa frv.

Það gengur ekki að stjórnarliðar séu að reka með þessum hætti, sem hér hefur verið gert, á eftir afgreiðslu mála þegar þeir sjálfir leggja þetta mál svo seint fram. Ef það er það brýna nauðsynjamál sem þeir hafa talað hér fyrir hefði það átt að vera komið fram fyrir mörgum mánuðum síðan. Upplýst er að nefndin hefur skilað af sér fyrir alllöngu síðan. Það er því eitthvað annað sem liggur að baki kröfunni um að hraða afgreiðslunni hér án þess að nægilegar upplýsingar liggi fyrir. Ef hæstv. landbrh. og formaður þingflokks Framsfl. vilja sjálfir stuðla að því að þetta mál verði afgreitt er nauðsynlegt að þeir beiti sér fyrir því að þessar upplýsingar verði lagðar fram. Einnig er óhjákvæmilegt, eins og hér hefur komið fram í umr., að þetta frv. verði skoðað í samhengi við það frv. til lánsfjárlaga sem er til afgreiðslu í þessari hv. deild. Fram kom í upplýsingum sem fulltrúar Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar gáfu á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að þær skuldbreytingar sem hér er verið að tala um eru meðal þeirra gata sem eru í lánsfjárlagafrv. Fulltrúar þessara sérfræði- og stjórnunarstofnana höfðu engar upplýsingar um það með hvaða hætti ætti að fjármagna þessa skuldbreytingu. Þeir greindu jafnframt frá því að í lánsfjárlögum, eins og þau eru hér lögð fram í frumvarpsformi, sé ekki reiknað með því að þetta komi inn í dæmið. Þess vegna er alveg ljóst að með þessu frv. er verið að fara fram á breytingu á veigamiklum efnisþáttum lánsfjáráætlunar og lánsfjárlaga ef ætlunin er að reka skynsamlega hagstjórn á þessu ári. Þess vegna er fullkomlega eðlileg krafa að fjh.- og viðskn. fái að fylgjast náið með afgreiðslu þessa máls. Æskilegast væri að landbn. og fjh.- og viðskn. fjölluðu sameiginlega um málið, einkum og sér í lagi ef ljóst er að slík nauðsyn sé að hraða afgreiðslu eins og hér hefur komið fram í umr.

Ég vil þess vegna óska eftir því áður en þessari umr. lýkur að hæstv. landbrh. og formaður fjh.- og viðskn. þessarar deildar, hv. þm. Páll Pétursson, geri grein fyrir því hvort þeir eru reiðubúnir til að stuðla að því að þessar upplýsingar verði allar lagðar fram. Í öðru lagi að hæstv. ráðh. geri skýra grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna þessa skuldbreytingu. Hvaðan á fjármagnið að koma?

Ljóst er að ríkisstj. hefur hengt sig aftan í ákveðið mark varðandi erlenda skuldsöfnun. Hæstv. fjmrh. hefur gert það með þeim hætti að hann hefur lagt sinn ráðherrastól að veði fyrir því að erlendar lántökur fari ekki yfir 60% af þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum. Á sama tíma er einnig ljóst að óleystur vandi atvinnuvega, húsbyggjenda og fjölmargra annarra aðila hleðst upp og enginn hefur hugmynd um hvernig eigi að leysa hann. T.d. kom fram á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að menn draga mjög í efa, hæstv. félmrh., að það fjármagn fáist til húsnæðislánakerfisins eftir innlendri fjármögnunarleið sem ráðh. hefur marglýst yfir að verði útvegað þótt hann greini nokkuð á við hæstv. fjmrh. um það efni. Einnig kemur í ljós að hæstv. fjmrh. ætlar að hefja hér útboð á ríkisvíxlum innan tíðar sem verða í samkeppni við fjármögnun atvinnuveganna. Enn fremur kemur í ljós að hæstv. fjmrh. hefur bætt mjög kjör á sérstökum sparnaðarbréfum sem ríkið gefur út til þess að geta tekið enn meira af sparifénu í landinu — til ríkisins frá atvinnuvegunum — en gert hefur verið.

Það er þess vegna alveg ljóst að á sama tíma og þetta frv. er hér til umr. er fjmrn. önnum kafið við að finna upp alls konar kúnstir í formi nýrra ákvæða varðandi sparnaðarbréf og útgáfu ríkisvíxla, sem eiga örugglega eftir að verða með mjög sérkennilegum hætti, til að draga inn í fjmrn. og ríkiskassann æ stærri hluta af fjármagninu í landinu frá atvinnuvegunum. Í ljósi þess er enn brýnni nauðsyn á því að hæstv. landbrh. svari því hvernig hann ætli að tryggja það í samkeppni við ríkisvíxla og sparnaðarbréf fjmrn. að fjármagn fáist til þessara skuldbreytinga.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni en að gefnu tilefni frá hæstv. landbrh. og hv. þm. Páli péturssyni ítreka að sé ætlunin að afgreiða þetta mál á næstunni er nauðsynlegt að þeir hafi forgöngu um að svör við öllum þessum spurningum liggi fyrir innan tíðar.