20.02.1984
Neðri deild: 49. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2988 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

196. mál, lausaskuldir bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ef hv. þm. hafa ekki tekið eftir því fyrr að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur tekið sæti hér á Alþingi vita þeir það a.m.k. eftir síðasta kast sem hann fékk í ræðustólnum áðan í sambandi við frv. sem hér er til umr. En þó fannst mér annað athyglisverðara, að ræða hv. þm. skyldi fara þannig í hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson að hann fyndi þörf hjá sér til að tala hér lengi til að reyna að verja þm. Sighvat Björgvinsson eins og hann gerði áðan. Það hefur ekki komið fyrir svo ég muni til hér á Alþingi áður.

Hér hafa komið ýmsar spurningar fram um þetta frv. Í fyrsta lagi. Hvaða markmiði er verið að reyna að ná í sambandi við þessa skuldbreytingu? Öllum hlýtur að vera ljóst að um 1975 varð mikil breyting í sambandi við lánakjör. Þeir sem voru búnir að framkvæma t.d. á jörðum sínum áður bjuggu við allt aðrar aðstæður en þeir sem fóru í framkvæmdir og ég tala nú ekki um að kaupa jarðir eftir þann tíma. Það eru yfirleitt yngri bændurnir sem sitja uppi með þessa sérstöku aðstöðu. Eins og fram hefur komið í þessum umr. hafa a.m.k. þrjú af fimm síðustu árum verið þau köldustu á þessari öld. Enginn atvinnuvegur er jafnnæmur fyrir slíku og landbúnaðurinn. Þarna eru komnar fyrst og fremst tvær ástæður fyrir því að hallað hefur verulega á bændur, sérstaklega hina yngri. Ég tel að það markmið sem er verið að reyna að ná með þessari skuldbreytingu sé að greiða fyrir stórum hópi af yngri bændum, sem hafa verið í framkvæmdum á undanförnum árum og hafa lent í þessu harðæri. En þeir hafa ekki gefist upp. Ég þekki það dálítið. Það var hópur af mönnum t.d. í mínu kjördæmi sem var talið að stæði mjög illa að vígi þegar síðast var skuldbreytt fyrir fimm árum og við, sem athuguðum þessi mál þá, vorum mjög í efa að slíkt kæmi að miklu gagni fyrir þá sérstaklega, ef þróun í verðbólgumálum yrði svipuð og hafði verið, hvað þá ef verðbólgan færi hækkandi, eins og raun bar vitni. Það voru engin sældarkjör sem mennirnir fengu. Þeir fengu skuldbreytinguna með þeim kjörum að þeir urðu að borga lánskjaravísitölu á þessi lán. Þó hefur það gerst með flesta af þessum mönnum, sem fengu skuldbreytingu 1979, að það hefur lagast fyrir þeim á þessum fimm árum. Það er fyrst og fremst markmiðið.

Hér hefur verið gagnrýnt að veðdeild Búnaðarbankans skyldi auglýsa eftir því áður en frv. var lagt fram hér á Alþingi hvort menn sæju ástæðu til að sækja um skuldbreytingu. Þetta er bara aðferð til að reyna að kanna ástandið. Ég held að það sé ekki ámælisvert þó að hæstv. landbrh. vildi kanna hvernig staðan er í þessum málum áður en ákveðið er hvað gera skuli. En menn finna sér ástæðu til að gagnrýna hvað sem er, jafnvel það sem er sjálfsagt að gera.

Það er spurt um hvort t.d. húsnæðismálastjórn ákveði lánskjörin. Það er talað um að það sé sama og að bændur ákveði lánskjörin að bankaráð Búnaðarbankans geri það, sem er nú ábyrgðaraðili í fyrsta sinni að þessum bankavaxtabréfum. Ég veit ekki betur en húsnæðismálastjórn geri tillögur til ríkisstj. um lánakjör, um vexti af lánum, á sama hátt og t.d. stjórn Stofnlánadeildar gerir. Hún gerir tillögur um vexti og lánskjör, en það er ríkisstj. sem ákveður á hverjum tíma hvort hún samþykkir þær tillögur. Hér er því ekki í neinu breytt frá því sem er, ef ég man rétt, sem ég hygg, hvernig húsnæðismálastjórn hagar sínum vinnubrögðum.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson komst þannig að orði: Þessi lán sem er verið að niðurgreiða. — Hann hefur kannske mismælt sig. Hér er ekki verið að niðurgreiða neitt. Hér er verið að breyta lausaskuldum í lengri lán, þannig að þau séu viðráðanleg, í von um að það komi betri tíð, í von um að það verði ekki áfram þetta harðæri.

Menn eru að tala um að það verði að liggja upplýsingar fyrir um vegna hvaða framkvæmda er verið að hugsa þarna um að skuldbreyta. Þetta eru framkvæmdir sem ráðist hefur verið í á síðustu árum, eins og ég gat um áðan, og vegna þeirra kjara sem þeir menn sem hafa látið gera þær búa við standa þeir alls ekki jafnt að vígi og hinir sem voru búnir að framkvæma fyrir 1975. Það er verið að gera þetta vegna atvinnuvegarins, vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem eru í þessum atvinnurekstri, en það er ekki verið að gera það t.d. í sambandi við íbúðarhúsabyggingar eða þess háttar. Það á að taka alveg undan. Bændur fá vegna þeirra framkvæmda fyrirgreiðslu á sama hátt og aðrir húsbyggjendur sem hafa verið að byggja á síðustu tveimur árum.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ræddi um að það þyrftu að liggja fyrir hinar og aðrar upplýsingar áður en þetta frv. yrði að lögum. Nú er það svo að síðasta ár mun hafa verið eitt það versta fyrir bændastéttina í mörg ár. Það liggur alls ekki fyrir hvernig bændur komu út úr því ári, ekki fyrr en reikningar kaupfélaganna og annarra viðskiptaaðila liggja fyrir. Þessar upplýsingar er ekki hægt að fá, a.m.k. ekki í snarhasti. Hitt vita menn, að þetta var mikið erfiðleikaár og á þeim stöðum þar sem vantar nú fóður vegna tíðarfarsins í fyrrasumar, þ.e. á Vesturlandi og Vestfjörðum, er mjög erfitt á þessari stundu að gera sér grein fyrir því hvernig staðan er. Það fer auðvitað eftir árferðinu. Það er nú svo með landbúnaðinn að hann á allt undir árferðinu og þess vegna er erfitt við þessi mál að eiga. Ef væri farið eftir ósk hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, að bíða með frv. eftir öllum upplýsingum sem hann virtist vilja fá, þyrfti að bíða lengi, kannske fram undir vor, vegna þess að það fer eftir vorinu hvernig staða þeirra manna verður sem vegna ársins í fyrra vantar nú fóður.

Ég held að það hafi verið hv. þm. Guðmundur Einarsson sem talaði um 150 millj. sem þyrfti til. Ég veit ekki hvaðan hann hefur þá tölu, 150 millj. Menn verða að vita hvað þeir eru að tala um. Það er mjög líklegt að um 300 millj. a.m.k. þurfi í skuldbreytingu. Ef útvega þarf 40% eru það ekki 150 millj., heldur 120 millj. Þetta er tala sem ég giska á án þess að hafa nokkuð fyrir mér annað en mína tilfinningu.

Það er ekkert nýtt varðandi bankavaxtabréfin. Þessar skuldir liggja fyrir og það er ekki ætlað að fá neina peninga gagnvart þeim. Það eru 40% af heildarupphæðinni, hver sem hún verður, sem vantar.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að sinni. Það a.m.k. ætti öllum þm. að vera ljóst frammi fyrir hvaða erfiðleikum landbúnaðurinn stendur og af hvaða ástæðum. Það hefur komið fram í ræðum hæstv. landbrh. og fyrrv. landbrh., þannig að ég ætta ekki að vera að halda hér lengri ræðu. En ég mun gera tilraun til þess að verða við óskum hæstv. landbrh., eftir því sem hægt er, að koma frv. í gegnum nefnd. Ég vonast til þess að hv. þm. sýni landbúnaðinum þann skilning að þeir setji ekki fótinn fyrir það að það verði gert mögulegt.