21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 2997 í B-deild Alþingistíðinda. (2586)

171. mál, gjaldskrá fyrir uppboðshaldara

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 312 spyr hv. 2. landsk. þm. um áform um breytingu á þeirri tilhögun sem gilt hefur um innheimtulaun uppboðshaldara. Er í fsp. réttilega vísað í þessu sambandi til reglna í lögum um nauðungaruppboð nr. 57/1949 og gjaldskrá fyrir uppboðshaldara nr. 757/1981 sett skv. þeim lögum.

Svo sem hv. þm. er kunnugt á fyrirkomulag á kjaramálum sýslumanna og bæjarfógeta sér rætur áratugi aftur í tímann, jafnvel aldir, og tengjast innheimtustörf þeirra víða inn í löggjöfina. Það fer saman að brýnt er orðið að endurskoða eða endurnýja slíkt fyrirkomulag en jafnframt er það nokkuð margþætt í framkvæmd.

Viðræður hafa verið milli dómsmrn. og fjmrn. um ýmsa þætti þessa málefnis. Þess er að vænta að hæstv. fjmrh. muni á næstunni leggja fyrir Alþingi lagafrv. þar sem m.a. verða ráðagerðir uppi um að sýslumenn og bæjarfógetar og jafnframt aðrir héraðsdómarar fái kjör sín ákveðin af kjaradómi. Mun þá gefast tækifæri til almennrar umfjöllunar um þau málefni sem þá verða í höndum Alþingis. Þegar afstaða Alþingis um málið liggur fyrir mun ráðuneytið taka til athugunar hvort frekari aðgerða er þörf.