27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (259)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Atburðir undanfarinna daga í eyríkinu Grenada eru enn eitt dæmi þess að stórveldi beiti afli sínu gagnvart minna ríki sem enga rönd fær við reist. Slíkir atburðir eru engan veginn nýlunda í mannkynssögunni, og það er heldur engan veginn nýlunda að innrásaraðilinn segist vera að hjálpa þeim sem hann ræðst á. Ég vil minna á að þetta sögðu Þjóðverjar í seinni heimsstyrjöldinni þegar þeir hertóku Danmörku t.d. Þetta sögðu Sovétmenn í Afganistan, Ísraelsmenn í Líbanon og Bandaríkjamenn í El salvador og núna í Grenada. Þá sem nú er ekki verið að hjálpa heldur er verið að beita valdi til að tryggja hagsmuni innrásaraðilans.

Samtök um kvennalista taka afstöðu gegn valdbeitingu og misrétti í hvaða mynd sem er og hvar sem er í heiminum. Þess vegna skora SK á ríkisstjórn Íslands að taka afstöðu á Alþjóðavettvangi gegn þeirri valdbeitingu sem nú á sér stað á Grenada. Íslendingar verða að taka afstöðu gegn valdbeitingu í samskiptum þjóða, hver sem í hlut á, eigi þeir að teljast ábyrgur aðili í samfélagi þjóðanna.