21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3001 í B-deild Alþingistíðinda. (2591)

193. mál, rannsókn umferðarslysa

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Einhvern veginn hafði ég þá tilfinningu áðan þegar ég var að hlusta á svör ráðh., að fyrirspurnatímar hér á hinu háa Alþingi væru nú ekki ferðalag á frjóum akri frumlegrar hugsunar. Mikið lifandi dæmalaust eru þessi ráðherrasvör þreytuleg og embættismennirnir einhvern veginn haldnir eilífum doða þegar þeir eru að semja þessi svör. (Gripið fram í.) Þeir eru að verða heldur dapurlegir þessir þriðjudagstímar okkar hér. Ég kom þó ekki hingað aðallega til að segja þetta, heldur til þess að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa komið þessu máli hér á framfæri. Ég held að full ástæða sé til að vekja athygli á því. Ég vil hins vegar minnast á þessar þreytulegu skýrslur sem lesnar eru hér yfir okkur. Ég hef lesið það í dagblöðum bæjarins að skýrslur um umferðarslys séu vægast sagt ekki afskaplega áreiðanlegar, a.m.k. ekki fyrir okkur sem ekki höfum komið þar nálægt eða unnið að þeim. Skýrslur þær frá lögreglunni vegna slysa, sem hún hefur blandast í, eru afar ólíkar skýrslum sem læknar Slysavarðstofu hafa yfir að ráða. Ég held að mál sé til komið að við fáum úr því skorið hvernig umferðarslysum er háttað, hvor aðilinn hefur rétt fyrir sér. Læknir, sem rannsakað hefur umferðarslys og hæstv. ráðh. minntist á, heldur fram ærið miklu hærri tölu umferðarslysa en skýrslur Umferðarráðs, sem byggjast á lögregluskýrslum, gefa til kynna.

Af því að ég fór að tala um þreytulega afgreiðslu og þreytuleg svör þá vil ég minna á að hér hefur hvað eftir annað verið vikið að þessum málum. Fyrir örskömmu innti hv. þm. Eiður Guðnason enn eftir framkvæmdum á samþykktri till. um samræmingu á hjólbörðum sem fluttir eru til landsins. Hæstv. ráðh. minntist einnig á till. frá okkur hv. þm. Helga Seljan, sem hér var samþykkt í fyrra, um könnun á tíðni vélhjólaslysa. (Gripið fram í.) Jú, jú, þessar skýrslur liggja svo sem fyrir í skúffum rn. En það sem okkur þm. langar til að vita er: hvað ætlar ráðh. svo að gera? Það getur vissulega verið gaman að lesa skýrslur, en til þess eru þær gerðar að þær leiði menn að einhverjum aðgerðum.

Ég vil, af því að hæstv. heilbrrh. situr þarna einnig, leyfa mér að inna hann eftir hvers vegna ekki er hægt að afgreiða í hv. allshn. till. sem liggur hér fyrir um vistunarvanda öryrkja. Það hefur ekkert farið á milli mála að við stjórnarandstöðuþm. höfum átt afar erfitt með að fá nokkru máli fram komið í þinginu. Í tillögunni er um að ræða beiðni um að leysa vanda innan við 20 sjúklinga, sem hafa orðið sérstaklega illa úti í umferðarslysum, sjúklinga sem bókstaflega engin stofnun vill hafa. Við höfum fengið einhver óljós svör og orðsendingar úr rn. um að það standi nú til að kippa þessu í liðinn svo að óþarfi sé að vera að afgreiða hana. Og gengur nú hæstv. formaður n. í salinn, sem sjaldnast heldur fundi í þeirri góðu n., enda þarf ekki að afgreiða nein mál, því að þetta er allt saman á leiðinni frá rn.

En ég skal ekki taka meiri tíma, herra forseti. Ég vil bara minna á allar þessar tillögur, sem sífellt er verið að tala um hér og ýmist verið að samþykkja eða spyrja um þær ári seinna. Ég held að ég hljóti að hvetja hæstv. ráðh., sem hér sitja, til þess að fara að gera eitthvað í þessum málum, en vil að öðru leyti þakka hæstv. fyrirspyrjanda og jafnframt minna hæstv. ríkisstj. á að besta ráðið til að draga úr umferðarslysum og streitu í umferðinni er líklega að bæta hag landsmanna.