21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3004 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

193. mál, rannsókn umferðarslysa

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég býst við að það verði að beina fsp. til einhvers annars en mín ef menn ætlast til þess að fá sérstaklega frumleg svör þegar lesa á upp skýrslu eða gera grein fyrir hlutum þar sem fyrst og fremst á að byggja á staðreyndum.

En það var varpað hér fram spurningunni um til hvers skýrslur væru. Ég vil þess vegna undirstrika atriði sem kom fram í svari mínu áðan, að bæði lögreglan í Reykjavík og Vegagerðin skrá og flokka umferðarslys og reyna síðan að haga ákvörðun um skipulagningu umferðarinnar með tilliti til þess, þannig að af þessari reynslu sé reynt að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Í máli hv. 4. þm. Suðurl. kom fram ein ábending um það sem hann taldi að ætti að gera. Það væri að bæta ökukennslu og herða kröfur. Ég hélt að hv. 4. þm. Suðurl. væri kunnugt um það að nú var verið að gefa út nýja reglugerð um ökukennslu þar sem reynt er að leggja áherslu á að bæta hana og á þann hátt að stuðla að bættum akstri í landinu. Ég átti viðræður við ökukennara í sambandi við þessa endurskoðun. Þeir voru vitanlega áhugasamir um að reynt yrði að hafa ákvæði þannig, að árangur af þeirra starfi yrði sem bestur. En þeir bentu á það, að nemendum þeirra fyndist dálítið erfitt að sætta sig við það, þegar kennararnir væru að leiðbeina nemendum um það hvernig ætti að aka, að sjá síðan ökumenn, sem búnir væru að taka próf áður, brjóta þær reglur sem væru taldar grundvallaratriði í akstri. Það virðist því þurfa að halda kennslunni og áminningum áfram þó að menn hafi einhvern tíma tekið próf.

En vegna þeirrar spurningar sem fram kemur í seinni lið fsp., um sérstaka nefnd, vil ég undirstrika það að ég tel ekki rétt að hafa það einhvern sjálfstæðan aðila. Það eigi að vera — eins og umferðarlögin gera ráð fyrir — Umferðarráð sem fjalli um slíkt mál. Þá var líka bent á það að nauðsynlegt gæti verið að leita til sérfróðra aðila þegar fram þyrfti að fara ítarleg athugun. Og það fer eftir vilja Alþingis hversu miklu fjármagni er varið í þessu skyni. En ég held að heppilegt sé að það sé sá aðili sem er kunnugastur þessum málum, sem hafi yfirumsjón með rannsókn þeirra.