21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3007 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

421. mál, athvarf fyrir börn og unglinga sem neyta fíkniefna

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Mjög verulegt átak hefur verið gert í geðheilbrigðismálum almennt síðasta hálfan annan áratug. Ný geðdeild hefur verið byggð á Landspítalalóð og 1970 var sett á stofn geðdeild barnaspítala Hringsins við Dalbraut í Reykjavík. 1 hinni nýju geðdeild Landspítala var í byrjun gert ráð fyrir að yrði sérstök deild fyrir unglinga til að sinna geðrænum vandamálum þeirra en horfið var frá því ráði og það húsnæði sem ætlað var til þeirra nota fellt út af fyrstu byggingaráætlun, aðallega vegna afstöðu læknaráðs Landspítalans sem ekki taldi að verkefni af því tagi ætti að hafa forgang þá. Fíkniefnamál er tiltölulega nýtt vandamál hjá unglingum hér á landi og er því tæpast að vænta þess að sérstök fíkniefnadeild fyrir þennan aldurshóp hafi verið sett á stofn þar sem unglingadeild var ekki talin nauðsynleg á Landspítala fyrir almenna geðsjúkdóma.

Í þessu sambandi verður að minna á að áfengi er enn sem komið er algengasta fíkniefnið. Jafnframt verður að minna á þá skoðun geðtækna að fíkniefnaofneysla barna og unglinga er annaðhvort alvarlegt einkenni um geðræna kvilla eða geðsjúkdómur í sjálfu sér. Barnageðdeildin við Dalbraut hefur sinnt börnum og unglingum á göngudeild til 16 ára aldurs en aðallega sinnt þeim sem eru á aldursskeiðinu til 12 ára aldurs. Einkum á þetta við um þá sem hafa fengið þjónustu inni á sjúkradeildum.

Þegar um er að ræða alvarlega geðsjúkdóma hjá unglingum hafa geðdeildir fyrir fullorðna tekið við sjúklingum eftir því sem aðstæður hafa leyft. Jafnframt hafa afeitrunardeildir geðdeildanna tekið við unglingum sem hafa verið illa haldnir vegna fíkniefnaneyslu og fráhvarfseinkenna, hvort sem um hefur verið að ræða áfengi eða aðra vímugjafa. Jafnframt hafa barnadeildir og almennar lyflæknadeildir tekið við börnum og unglingum sem hafa haft líkamleg sjúkdómseinkenni, hvort sem þau hafa verið rakin til fíkniefnaneyslu eða annars.

Stjórnarnefnd ríkisspítalanna hefur um nokkur undanfarin ár haft á forgangslista sínum um aukna starfsemi beiðnir um starfsmannaheimildir til að reka alhliða unglingageðdeild þar sem m.a. yrði rekin aukin heilbrigðisþjónusta fyrir unglinga sem neyta fíkniefna. Önnur starfsemi hefur þótt brýnni á ríkisspítölum þegar til kasta hefur komið að velja forgangsverkefni þannig að uppbygging þessarar deildar hefur beðið.

Í þessu sambandi verður að minna á að á síðustu árum hafa komið upp hér og verið kostaðar af opinberu fé fleiri stofnanir fyrir áfengissjúklinga en tíðkast í nokkru öðru landi. Taka verður til alvarlegrar íhugunar hvort ekki verður að endurskoða starfsemi þessara stofnana í heild svo að hægt sé að fá aldursflokkaskiptingu á stofnunum þeim sem þegar eru í notkun þannig að aldursflokki unglinga verði sinnt í auknum mæli í framtíðinni.

Heilbr.- og trmrn. hefur nú þegar óskað eftir umsögn landlæknis um það hvernig þær deildir, er að þessum málum vinna, geti tekið upp verkaskiptingu sín á milli. Um geðdeild barna á Dalbraut sérstaklega mun ég fjalla í svarinu við síðari spurningu hv. fyrirspyrjanda.