21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3011 í B-deild Alþingistíðinda. (2605)

422. mál, geðræn vandamál barna og unglinga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Síðari fsp. mín er nátengd þeirri fyrri. Rannsóknaniðurstöður síðustu ára hafa sýnt fram á að geðræn vandamál fullorðinsára eiga langoftast rætur að rekja til bernskuára og óleystra tilfinningalegra vandamála uppeldisáranna. Jafnframt hafa rannsóknir innan barnageðlæknisfræði á síðustu árum sýnt fram á að séu geðræn vandamál barna og unglinga greind og meðhöndluð snemma eru meiri líkur á að hægt sé að hindra geðræn vandamál fullorðinsára.

Nýlega voru birtar niðurstöður könnunar sem gerð var á þroska og hag um það bil 200 fjögurra ára barna. Þessi könnun var reyndar gerð í samræmi við aðrar svipaðar kannanir sem hafa verið í gangi á Norðurlöndunum. Hún var framkvæmd á vegum barnadeildar Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur. Samkv. mati á geðheilsu þeirra barna sem í úrtakinu lentu kom í ljós að um 20% barnanna eiga við vanda að etja og um það bil 12% verða að teljast við verulega slæma geðheilsu svo að þau þarfnast sérfræðilegrar aðstoðar. Það er ótvíræð þróun í heilsugæslu bæði barna og fullorðinna að beita fyrirbyggjandi aðgerðum og er jafnan þeim mun betri árangur ef snemma er gripið í taumana og á stemmd að ósi. Slík skoðun fjögurra ára barna þyrfti að skipa ákveðinn sess í fyrirbyggjandi starfi, sbr. reglulegar líkamlegar skoðanir til að meta heilsu barna.

Í niðurlagi könnunarinnar segir, með leyfi forseta, og mig langar að höfða enn fremur til þess sem ég sagði áðan um félagslegar orsakir vímuefnaneyslu:

„Tíðir samskiptaerfiðleikar í fjölskyldum margra barna í könnuninni leiða hugann að því hvort samskiptamynstur í fjölskyldum hefur breyst á undanförnum árum og hvort einhverjir sérstakir þættir valdi því að árekstrar eru tíðir. Það væri áhugavert ef framtíðarrannsóknir gætu varpað einhverju ljósi á í hverju þessir hlutir felast.“

Enn fremur segir:

„Áhugavert væri ef einhver könnun færi fram á högum þessara barna eftir nokkur ár. Slíkar kannanir hljóta að vera mikilvægar, ekki síst ef einhvern tíma á að vinna markvisst starf að fyrirbyggjandi geðvernd hér á landi.“

Reyndar ber niðurstöðum þessarar könnunar saman við aðra könnun sem gerð var af Sigurjóni Björnssyni fyrir um það bil 20 árum á 5–15 ára börnum þó að þær séu ekki beinlínis sambærilegar. Þar var líka um að ræða sama hlutfall, 20%. Það er enn fremur ljóst að þessi börn þurfa meðferðar við.

Geðræn vandamál unglinga mótast oft af sérstöðu þeirra. Þeir tilheyra hvorki hópi barna né fullorðinna í þeirri menningarlegu flokkun sem ríkir í þjóðfélaginu. Að því er ég best veit hefur enn ekki verið afmörkuð nein aðstaða til greiningar eða meðferðar á geðrænum vandamálum unglinga né heldur hefur fjármagni verið varið sérstaklega til að tryggja þeim hópi slíka umönnun. Hún er þó brýn og nægir að vísa til fyrri fsp. minnar um sérstök vandamál unglinga vegna vímuefnaneyslu.

Okkur er öllum ljóst að framtíð þessa lands býr í börnum okkar. Þess vegna er okkur nauðsynlegt að búa þau öll sem best undir lífið. Það er líka löngu ljóst að ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Auk þess að spara þjáningar, vandræði og tíma spara slíkar aðgerðir líka mikið fé þegar til lengdar lætur. Því vil ég spyrja hæstv. heilbrrh.: „Hverjar eru aðstæður í heilbrigðiskerfinu til að sinna geðrænum vandamálum barna og unglinga?“