21.02.1984
Sameinað þing: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3014 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

422. mál, geðræn vandamál barna og unglinga

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Það er afskaplega ánægjulegt að vera svona innilega sammála einhverjum og ég gleðst yfir því að geta verið innilega sammála hæstv. heilbrmrh. í síðustu orðum hans hér.

Ég held að okkur sé til sóma sú rækt sem við höfum lagt við heilbrigðisþjónustuna, enda höfum við líka notið góðs af. Við höfum lengsta meðalaldur í heimi, hvorki meira né minna. Ég held að það sé alveg hárrétt stefna, sem hæstv. heilbrmrh. bar fyrir brjósti og mælti með hér, að fyrirbyggjandi læknisaðgerðir eru þær sem duga til lengdar, og sannarlega mundu þær draga úr hinum gríðarlega kostnaði heilbrigðisþjónustunnar. ­En þá er annað mál. Það má segja að ef við hefðum varið fé til tóbaksvarna fyrr á árum hefðum við ekki þurft að byggja hjartaþræðingardeild eða skurðaðstöðu fyrir slíka sjúklinga, a.m.k. ekki í svo stórum stíl. Þess vegna verð ég að segja að við verðum að líta til dagsins í dag. Og það hryggði mig og hneykslaði við síðustu fjárlagagerð þegar landlæknir kom og bað um andvirði hálfs sjúkrarúms Borgarspítalans á ári til heilbrigðis­fræðslu. Hann fékk fjórðung af því fé. Slíkt er ekki nógu gott.