27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Þessi umr. er komin út á svolítið hálar brautir, þegar farið er að ræða um hugsanlega íhlutun Norðurlandanna í mátefni hér og farið að setja upp atts konar myndir af því sem hugsanlega kynni að geta gerst, ég held að þá sé umr. á röngum brautum. En það verður að segjast alveg eins og er að það ber að harma að hæstv. utanrrh. skyldi ekki treysta sér til þess að taka ákveðna afstöðu í þessu máli og fordæma það sem þarna hefur gerst. Telja þess í stað upp þær röksemdir sem við mörg hver höfum heyrt Bandaríkjaforseta fara með í sjónvarpinu, og voru nú sumar hverjar heldur léttvægar. T.d. hefur hvergi að ég hygg komið fram rökstutt að líf bandarískra borgara hafi verið í hættu í Grenada. Ég hygg að það hafi hvergi komið fram.

En það er ýmislegt annað sem er líka lærdómsríkt og eftirtektarvert við þessa umr. hér fram að þessu. Ég heyrði nú ekki að hv. þm. Steingrímur Sigfússon talaði mikið um Afganistan hér úr þessum ræðustóli, en það er athyglisvert og kannske líka lærdómsríkt að sjá menn með mynd af Marx í barmi koma í þennan ræðustól og halda ræður eins og þessi hv. þm. gerði. Það fannst mér eftirtektarvert og hin heilaga vandlæting sem var að finna í orðum hans. Og það er auðvitað líka í ljósi sögunnar eftirtektarvert að hlýða á þá Alþb.-menn, sem nú síðustu árin hafa leyft sér að gagnrýna Sovétríkin. Það þekktist ekki hér á árum áður. Það er líka lærdómsríkt.

Við erum í bandalagi með Bandaríkjamönnum. En það þýðir ekki að við eigum að segja já og amen við öllu sem þeir gera í utanríkismálum. Við eigum að gagnrýna það sem er gagnrýni vert, við eigum að hafa þar sjálfstæðar skoðanir. Og það sem þeir hafa gert á Grenada er gagnrýni vert og það ber að fordæma. Það ber að fordæma hörðustu orðum. Þetta er brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna, um það er enginn ágreiningur og þess vegna eigum við að fordæma það. Við eigum að hafa sjálfstæðar skoðanir í utanríkismálum. Það er satt að segja sorglegt til þess að hugsa, hvernig stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar, Sjálfstfl., hefur staðnað í þessum efnum og treystir sér ekki til að gagnrýna bandaríska utanríkisstefnu. Sömuleiðis málgagn hans, Morgunblaðið. Ég efast um að það finnist í Bandaríkjunum blað, sem styður stefnu Bandaríkjastjórnar í öllum utanríkismálum jafn hart, jafn ákveðið, jafn óhikað og Morgunblaðið gerir. Þar hefur þessi flokkur staðnað og þar hefur þetta blað staðnað og ég held að svona málflutningur finnist hvergi t.d. í Vestur-Evrópu. Það er líka umhugsunarefni fyrir þá sjálfstæðismenn, sem nú eru að sumu leyti varðandi sína stefnu í utanríkismálum, ég undirstrika að sumu leyti, eins og nátttröll sem hefur dagað uppi á heiði.

Við eigum að hafa sjálfstæða skoðun. Við eigum að gagnrýna það sem er gagnrýni vert enda þótt um bandalagsþjóð okkar sé að ræða. Vinur er sá er til vams segir, stendur einhvers staðar. Við eigum ekki að segja já og amen við öllu sem gert er. Við eigum að hafa sjálfstæðar skoðanir og þarna í þessu tilviki á ríkisstjórn Íslands hiklaust, hæstv. forsrh. hefur lýst persónulegri skoðun sinni á því máli, — ríkisstj. á hiklaust að fordæma það sem þarna hefur gerst.