21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3031 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil geta þess strax í upphafi að ég fagna að sjálfsögðu þeirri till. sem hér liggur fyrir og legg á það mikla áherslu að hún verði samþykkt á þingi í dag. En það liggur jafnframt fyrir að það er heldur seint.

Mikil ótíðindi hafa nú gerst. Grænlendingar hafa leyft Efnahagsbandalaginu veiðar á 58 þús. tonnum af karfa, 23 þús. tonnum af þorski og 4300 tonnum af rækju skv. samningi til fimm ára. Hér er auðvitað um sameiginlegt hagsmunamál okkar allra að ræða og með ólíkindum að nágrannaþjóð skuli gera slíkan samning án þess svo mikið sem að ræða við Íslendinga. En menn skulu minnast þess að hér er ekki einungis við Grænlendinga að sakast heldur einnig Dani. Kemur þá aðild Dana að Efnahagsbandalagi Evrópu okkur enn þá í koll eins og áður hefur gerst gagnvart öðrum Norðurlandaþjóðum.

Ég get tekið undir hvert orð sem þeir hafa sagt sem hér hafa tekið til máls og tel ekki ástæðu til að eyða tíma hv. þm. með því að endurtaka það. En það er tvennt sem ég tel vert umhugsunar og hér hefur ekki verið nefnt. Hið fyrra er hvernig þetta gerðist. Hvernig gat þetta gerst? Og hið síðara er: Hver áhrif hefur þetta á norrænt samstarf?

Við skulum snúa okkur fyrst að því hvers vegna þessi samningur kemur okkur í opna skjöldu. Það er auðvelt að vera vitur eftir á. Hér tel ég að við höfum öll brugðist, þingið og ríkisstj. Hv. þm. Sighvatur Björg­vinsson minntist áðan á þáltill. sem hér var samþykkt á útmánuðum 1981. Í kjölfar þess var kjörin nefnd þar sem þm. frá öllum þingflokkum, Færeyja, Grænlands og Íslands tóku sæti. Frá þessari nefnd hefur ekki heyrst hósti eða stuna. Vissulega var okkur ljóst að það háði mjög starfi þessarar nefndar að Grænlendingar áttu í erfiðleikum með sjálfa sig og sína pólitík vegna fyrir­hugaðrar úrgöngu úr Efnahagsbandalaginu. En það breytir auðvitað ekki því, að vitaskuld hefðu þeir nefndarmenn átt að vera á verði og ræða þessi mál við Grænlendinga. En eins og ég sagði, það er auðvelt að vera vitur eftir á.

Ég vil geta þess líka að það var ekki einungis að þessi þingmannanefnd væri starfandi, heldur réði hún sér embættismannanefnd. Og maður hlýtur að spyrja: Hvað voru þessir embættismenn að gera? Hvað hafa þeir verið að gera allan þennan tíma? Ég vil benda hv. þm. á að hér á dagskrá Sþ. í dag er kosning nýrrar nefndar. Ég legg til að hún verði kjörin sem allra, allra fyrst og beðin um að sinna þessum málum öllu betur.

Það væri líka fróðlegt að vita um hvað þeir ræddu hæstv. utanrrh. og kollegi hans, Uffe Elleman Jensen, þegar hann heimsótti Ísland s.l. sumar. Menn tala hér um að þeir eigi viðræður við kollega sína frá öðrum þjóðum. Um hvað í ósköpunum ræða þeir ef þetta var ekki rætt? Þetta getur ekki hafa komið hæstv. utanrrh. á óvart. Ég trúi ekki að slíkir menn tali um daginn og veginn þegar þeir hittast við svo virðulegar samkomur.

Auðvitað máttum við öll vita að Efnahagsbandalag Evrópu mundi fara fram á þessar veiðar, ekki síst eftir að tekin var ákvörðun um að Grænlendingar færu úr bandalaginu. En ég held að grundvallarástæðan fyrir þessum skelfilegu mistökum sé kannske sú, að öll samskipti Íslendinga við Grænland hafa verið með endemum og fálmið eitt. Það er ekki rétt sem hér kom fram áðan í ræðu einhvers hv. ræðumanns að við hefðum gert vel við Grænlendinga. Það höfum við ekki gert. Ég hef áður rakið hvernig framkvæmd umræddrar þál. frá 19. maí 1981 hefði verið, og ekki er ómyndar­skapurinn minni í sambandi við svokallaðan Græn­landssjóð, sem hér var samþykktur með öllum upp­réttum höndum, og átti nú heldur betur að taka til við að styrkja samband Íslendinga og Grænlendinga. Og hvernig hefur það farið fram?

Ekki veit ég hvort sjóðsstjórnin sem kjörin var hefur komið saman. A.m.k. hefur þeirri hungurlús sem veitt var í sjóðinn ekki einu sinni verið komið út. Síðan eru a.m.k. tvö ár. Ég held nefnilega að þarna liggi hundurinn grafinn. Okkur hefði verið nær að sinna þessum málum. Það er rétt sem séra Bjarni sagði forðum: Það borgar sig að biðja. Við eigum þarna sameiginlegra hagsmuna að gæta og okkur hefði verið nær að bjóða Grænlendingum aðstoð, bjóða þeim jafnvel aðstöðu til veiða, bjóða þeim t.d. eitthvað af þeim togurum sem við hefðum ekki átt að nýta sjálfir. Það er nefnilega alveg óþolandi að um þessi fiskimið sé ekki samráð. Og það hefðum við auðvitað, eins og ég segi, öll átt að vita. Það er kannske við engan að sakast. É,g held að allir hafi þarna sofið á verðinum. Og það eigum við að viðurkenna.

Svo að vikið sé að norrænu samstarfi þá erum við að leggja af stað á laugardaginn kemur, kjörnir fulltrúar í Norðurlandaráð. Ég kvíði núna svolítið fyrir því. Ég tel að þetta þyngi verulega spor okkar þangað. Hvað er norræn samvinna og hvers virði er hún er við stöndum nú frammi fyrir því að vinaþjóðir okkar eru kannske að eyðileggja — ja ég vil segja fjöregg þjóðarinnar, svo maður gerist nú hátíðlegur, ef fiskimið okkar eru í hættu á næstu árum vegna þessa ófarnaðar. Ég veit ekki almennilega um hvað við eigum að tala í því góða ráði ef ekki þetta.

Það er kannske ofur eðlilegt að Grænlendinga skorti hreinlega reynslu til að taka á þessum málum. En ég held að bæði Danir og Íslendingar hefðu átt að vera fullfærir um að sjá hvaða afleiðingar þetta getur haft. Auðvitað er það hárrétt sem hv. þm. Sighvatur Björg­vinsson sagði. Grænlendingar hafa ekki nokkra einustu möguleika til að hafa nokkra stjórn á þessum veiðum. Það gefur auga leið. Þeir eiga heldur ekki vísindamenn sem geta á nokkurn hátt annast þarna rannsóknir. Og ég tek undir það sem hann sagði: Ég er hræddur um að Íslendingar megi lesa upp og læra betur um alla umferð þarna fyrir norðan okkur.

Ég held þess vegna, hv. þm., að við verðum að bíta í það súra epli að viðurkenna að við höfum öll verið að gera eitthvað annað en við áttum að gera. Maður hlýtur einnig að spyrja: Hvað hefur utanrmn. verið að gera­- og þar með sjálf ég sem sat þar tvo eða þrjá fundi í sumar og skal á engan hátt bera sökina af mér. Erum við hér ekki stundum að fárast yfir einhverjum dóma­dags smáatriðum í stað þess að sjá um að þau undir­stöðuatriði sem líf okkar byggist á séu nokkurn veginn í lagi?