21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég held að þótt okkur þyki þau tíðindi sem okkur hafa borist í gærkvöldi og í dag ill megi þau ekki verða til þess að koma okkur úr jafnvægi eins og mér fannst þau hafa komið hv. síðasta ræðumanni úr jafnvægi.

Ég vil fyrst svara fsp. hv. þm. Ragnars Arnalds. Þeim fsp. var að hluta til svarað með ræðu hæstv. forsrh. en hann fór fram á það þegar fyrr í vetur að eiga viðræður við Motzfeldt, formann landsstjórnar Grænlendinga, og voru þær viðræður ákveðnar þá þegar í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Stokkhólmi, en þessi beiðni var ítrekuð snemma í síðustu viku og þá með það fyrir augum að geta komið þeim af stað fyrir Norðurlanda­ráðsþing. Í þessum beiðnum okkar fólst tjáning þeirra áhyggna sem við höfðum af samningaviðræðum Græn­lands og Efnahagsbandalagsins þar sem við hefðum hagsmuna að gæta hver niðurstaðan yrði, og þar sem við, eins og hér hefur verið bent á af hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni með tilvísun til Hafréttarsáttmálans, ættum rétt á að fjalla um fiskvernd og veiðar á þeim fiskstofnum sem ganga á milli efnahagslögsagna okkar landa.

Það er einnig svo að í ríkisstj. í vetur hafa farið fram umr. um að efla samvinnu bæði við Færeyinga og Grænlendinga og var raunar bent á að það ætti einnig að færa slíka samvinnu út gagnvart Norðmönnum, Dönum, Færeyingum og Kanadamönnum. Eins og ég skil þá till. sem hér er til umr. fjallar hún einmitt um það að efla samstarf við öll þessi lönd sem stunda veiðar eða eiga veiðiheimildir í norðanverðu Atlantshafi og þess vegna vil ég leggja áherslu á að þessi þáltill. verði samþykkt.

Ég hafði aðstöðu til þess á fundi utanrmn. að fjalla nokkuð um þetta mál. Þar vakti ég athygli á því að um leið og við vísum til 63. gr. Hafréttarsáttmálans, þar sem löndum sem eiga sameiginlega fiskstofna er skylt að ráðgast um nýtingu þeirra og vernd, væri um gagn­kvæmni að ræða. Ef við höldum því fram að við eigum íhlutunarrétt um hve mikið er veitt af karfa Á Græn­landsmiðum er ljóst að Grænlendingar hafa rétt til þess að fjalla um það hvernig við stundum karfaveiðar í okkar efnahagslögsögu. Þannig mætti nefna fleiri fisk­stofna eins og t.d. loðnu. Við getum einnig nefnt rækjuveiðar í þessu sambandi o.s.frv. Ef við tölum um að þorskurinn gangi á milli efnahagslögsagna landa okkar hljótum við um leið og við krefjumst þess að Grænlendingar hafi samráð við okkur að vera reiðu­búnir að hafa samráð við þá. Ég held e.t.v. að mesta yfirsjón okkar í þessu máli sé að hafa ekki haft samráð við Grænlendinga um nýtingu okkar eigin fiskstofna og hvernig við stundum fiskveiðar en vöknum fyrst upp þegar við teljum að hagsmunum okkar sé ekki fyllilega borgið.

Ég vil líka benda á að eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið hafa Grænlendingar ávallt verið reiðubúnir til þess að ræða við okkur. En þeir hafa hins vegar ekki treyst sér til að taka neinar ákvarðanir varðandi þau mát sem hér er um að ræða, e.t.v. fyrst og fremst vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa forræði þessara mála meðan þeir voru í Efnahagsbandalaginu eða réttara sagt meðan Efnahagsbandalagið fór með for­ræði fiskveiðimála þeirra vegna aðildar Danmerkur að Efnahagsbandalaginu. Þeir töldu sig þá fyrst vera þess umkomna að fjalla um þessi mál á eigin ábyrgð þegar þeir væru komnir úr Efnahagsbandalaginu. Við skulum gera okkur þess grein að þeir samningar sem nú hafa verið gerðir við Efnahagsbandalagið eru gerðir af hálfu Grænlendinga í því augnamiði að þeir geti losað sig úr Efnahagsbandalaginu. Ég held líka að hollt sé fyrir okkur að velta því fyrir okkur hver staða okkar væri gagnvart Grænlendingum ef þjóðaratkvæðagreiðslan um þátttöku Grænlendinga í Efnahagsbandalaginu hefði farið örlítið öðruvísi en raun bar vitni. Ég hygg að þessi þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram fyrir tveim árum og þá samþykktu 52% Grænlendinga að segja sig úr Efnahagsbandalaginu.

En hvað hefði skeð hefðu 52% Grænlendinga sam­þykkt að vera áfram í Efnahagsbandalaginu? Þá hefði Efnahagsbandalagið áfram haft forræði þessara mála. Ég geri ráð fyrir að við Íslendingar hefðum búist við því að aðstaða okkar til samninga við Grænlendinga væri betri þegar Grænlendingar væru komnir úr Efnahags­bandalaginu. En til þess að svo mætti verða hafa Grænlendingar talið sér nauðsyn að semja við Efna­hagsbandalagið. Þeir samningar sem nú hafa verið gerðir hafa af hálfu Grænlendinga miðast við það að tryggja þeim annars vegar áfram sömu eða jafnvel hærri fjárframlög úr sjóðum Efnahagsbandalagsins en þeir hafa haft undanfarin ár og hins vegar hafa þessir samningar gengið út á það að tryggja Grænlendingum tollfrjálsan aðgang útflutningsvara þeirra á markaði Efnahagsbandalagsins. Ég býst við því að Grænlending­ar hafi talið sig ná þessum markmiðum sem ég hér hef getið um.

Við skulum heldur ekki loka augunum fyrir því að þau árin sem Efnahagsbandalagið hefur haft forræði á fiskveiðisamningum Grænlendinga hafa ríki Efnahags­bandalagsins stundað veiðar í grænlenskri efnahagslög­sögu. Það er því að þessu leyti áfram sama ástandið eftir gerð þessa samnings og áður. Eftir þeim upplýsingum sem við höfum núna er því miður útlit fyrir að samið hafi verið við Efnahagsbandalagið um fremur auknar veiðar en óbreyttar veiðar Efnahagsbandalagsríkjanna í efnahagslögsögu Grænlands. Að því leyti til tek ég undir þau orð sem lýsa áhyggjum okkar Íslendinga yfir því hve mikið annars vegar ætlunin er að veiða í heild og hins vegar hve stóran hlut Efnahagsbandalagsríkin ætla sér í veiðunum. En við verðum að átta okkur á því að þessar veiðar hafa farið fram undanfarin ár og við hefðum þess vegna getað lýst áhyggjum okkar fyrr en í dag að gerðum þessum samningi.

Að sjálfsögðu er ekki minni nauðsyn að samþykkja þessa till. eftir gerð samningsins milli Grænlendinga og Efnahagsbandalagsins sem gerir þeim fært að losa sig úr Efnahagsbandalaginu. Við hljótum einmitt að nota tækifærið til þess að auka samskipti okkar og Græn­lendinga. Það hefur verið gert með ýmsum hætti á undanförnum árum. Um það var Pétur Thorsteinsson sendiherra beðinn að semja skýrslu sem hann hefur gert nú í byrjun febrúarmánaðar. Þessi skýrsla mun verða send utanrmn.-mönnum, en frá henni var greint í höfuðatriðum á fundi utanrmn. í s.l. viku. Þar kemur fram að samskipti okkar hafa sem betur fer farið vaxandi. Á grundvelli slíkra samskipta ættu að skapast betri skilyrði fyrir því að fjalla um sameiginleg hagsmunamál þjóðanna.

Ég skal ekki orðlengja þessi mál öllu meira en ég þegar hef gert en vil aðeins leggja áherslu á það að lokum að við Íslendingar hljótum að gera okkur grein fyrir því að um leið og við vitnum til 63. gr. Hafréttar­sáttmálans, um samráð þeirra þjóða sem sækja í sömu fiskistofna, er um hagkvæmni að ræða. Það sem við ætlumst til af Grænlendingum skapar um teið skyldu af okkar hálfu að koma fram gagnvart Grænlendingum eins og við ætlumst til að þeir komi fram gagnvart okkur. Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að Grænlendingar geta bersýnilega ekki látið í té fisk­veiðiréttindi án þess að fá greiðslu fyrir og eins og nú er ástatt um íslenskan sjávarútveg efast ég um að við getum boðið Grænlendingum samsvarandi greiðslu miðað við kíló af sjávarafla og þeir fá með þessum samningi við Efnahagsbandalagið, að ég tali ekki um þann tollfrjálsa aðgang að mörkuðum Efnahagsbanda­lagsins sem fylgir með í kaupunum.

Það er rétt þegar menn ætla að stofna til samninga­viðræðna að gera sér raunsæja grein fyrir samnings­stöðu. Þetta eru staðreyndir sem við verðum að horfast í augu við. Við skulum þess vegna ekki umfram allt áfellast Grænlendinga fyrir að gera þennan samning. Það væri síst af öllu til þess fallið að undirbúa jarðveg­inn fyrir samskipti þjóðanna í framtíðinni.

Ég sagði áðan að ég teldi að eftir gerð þessa samnings sé ekki síður nauðsyn á að samþykkja þessa þáltill. en áður og ég vil ítreka þá skoðun mína. Við hljótum að ræða við Grænlendinga um fiskvernd. Við hljótum að ræða við Grænlendinga, þótt við getum ekki greitt fyrir fiskveiðiréttindi í efnahagslögsögu þeirra, um hve mikil veiðin skuli vera af hinum mismunandi fiskistofnum. Við hljótum að ræða við Grænlendinga um gagnkvæm fiskveiðiréttindi t.d. hvað snertir loðnu og rækju þannig að fiskiskip hvorrar þjóðar um sig þurfi ekki að binda sig alltaf við miðlínuna milli Grænlands og Íslands. Við hljótum einnig að gera okkur grein fyrir því að enn þá er það delluefni hvar efnahagslögsagan skuli skiptast á, milli Jan-Mayen og Grænlands. Það mát er óuppgert í samskiptum okkar og Danmerkur fyrir hönd Grænlands. Við skulum einnig hafa í huga að það geti verið sameiginlegir hagsmunir okkar og Grænlendinga að hafa samstarf um landhelgisgæslu. Það er hverju orði sannara, sem hér hefur komið fram í umr., að við þyrftum gjarnan að styrkja okkar landhelgisgæslu. En það kostar auknar fjárveitingar til hennar og það skulum við muna næst þegar við göngum frá fjárlögum.

Við getum einnig haft í huga, t.d. varðandi landbún­aðarmál, að Grænlendingum gæti verið hagur í því að Grænlendingar kæmu hingað til þess að stunda sjóinn af íslenskum skipum, til að þjálfast og læra þau fræði sem bundin eru fiskveiðum.

Í þessu sambandi minnist ég þess að við höfum upplýsingar um að Norðmenn og Grænlendingar hafa rætt sín á milli. En eftir þeim upplýsingum sem ég veit bestar hafa ekki verið gerðir neinir fiskveiðisamningar milli þessara þjóða. Skýringin er væntanlega sú sama og varðandi samskipti okkar og Grænlendinga að Græn­lendingar hafa hingað til ekki talið sig hafa forsjá þessara mála í eigin höndum og hins vegar að þeir hafa viljað ganga frá skilum sínum við Efnahagsbandalagið áður en þeir hæfu viðræður um þau efni við aðrar þjóðir. En Norðmenn hafa boðið fram samvinnu varðandi rannsóknir, varðandi nám og annað því um líkt sem við getum ekki síður gert.

Herra forseti. Ég vil aðeins að lokum taka undir þau orð ræðumanna er lýsa áhyggjum okkar Íslendinga yfir því að með samningi þessum séu festar veiðiheimildir Efnahagsbandalagsríkja næstu fimm árin og beina því til þm. að afgreiða þessa þáltill. Á grundvelli hennar hljótum við að gera okkur far um að efla samskipti við þessa nágrannaþjóð okkar og komast að samkomulagi við hana um fiskvernd, fisknýtingu og sameiginleg hagsmunamál á sviði sjávarútvegs en ekki síður á ýmsum og sem flestum öðrum sviðum um leið og við hljótum að leggja áherslu á að þær þjóðir sem hagsmuna hafa að gæta af fiskveiðum í Norður-Atlants­hafi efli samvinnu sín á milli svo að við getum verndað fiskstofnana á þessum slóðum, ræktað þá upp og nýtt þá með þeim hætti að þeir verða lífsbjörg þjóðanna sem hlut eiga að máli.