21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3036 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það hefur komið fram hér að sá samningur sem Grænlend­ingar hafa gert nú við Efnahagsbandalagið komi mönnum verulega á óvart. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ástæða sé til að láta sér þennan samning koma á óvart af þeirri einföldu ástæðu að Efnahagsbandalags­löndin, sérstaklega Þjóðverjar, hafa veitt verulegt magn við Grænland á undanförnum árum og hafa lagt á það áherslu á síðustu mánuðum, eftir að ljóst varð að Grænlendingar mundu segja sig úr Efnahagsbanda­laginu, að tryggja hagsmuni sína að því er varðar veiðar við Grænland. Það kemur skýrt fram í þeim upplýsing­um sem liggja fyrir að veiðar Þjóðverja hafa aukist verulega á undanförnum árum, sérstaklega eftir að þeir misstu fiskveiðiréttindi sín hér og úthafstogarar þeirra, sem voru útilokaðir á sínum tíma frá miðunum við Ísland, komust inn á miðin við Grænland í skjóli réttinda þeirra innan Efnahagsbandalags Evrópu. Það er ljóst að í þeim samningum sem nú hafa verið gerðir hafa Þjóðverjar fyrst og fremst lagt á það áherslu að tryggja þá hagsmuni sem þeir höfðu öðlast í skjóli samningsins sem Grænlendingar gerðu eða Danir fyrir þeirra hönd um fiskveiðilögsöguna þar á sínum tíma. Með þeim samningi afsöluðu Grænlendingar sér í reynd réttindum yfir fiskveiðilögsögunni. Höfum við Íslend­ingar t.d. þurft að ræða sameiginleg málefni okkar Grænlendinga höfum við ekki rætt við Grænlendinga heldur við embættismenn í Brüssel. Þetta hefur skapað mikla erfiðleika og þar hefur Íslendingum í reynd verið fremur illa tekið og verið slæm samskipti þar á milli. M.a. hefur það komið fram í því að aldrei hefur tekist að ná gagnkvæmum samningum um rækjuveiðar milli Grænlands og Íslands.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef síðastar, frá árinu 1982, er karfaveiði við Austur-Grænland 44 þús. tonn og voru það að mestu leyti eða nær eingöngu Þjóðverjar sem veiddu það magn. Samkv. uppkasti að samningi milli Grænlendinga og Efnahagsbandalagsins var gert ráð fyrir 57 þús. tonna karfaveiði, en virðist hafa endað með 57 800 tonnum. Upplýsingum ber ekki alveg saman því að fram kemur í síðustu upplýsingum að það muni allt koma í hlut Efnahagsbandalagsins eða 57 800 tonn, en í bráðabirgðatölum kom fram að hluta af því aflamagni rynni til Grænlendinga. Þessi afli fæst einnig við Vestur-Grænland. Hér er því ekki um veruleg frávik að ræða frá þeim afla sem áður hafði komið upp úr sjó. Hitt er svo annað mál að við höfum unnið með öðrum þjóðum og gerum enn, og það vil ég taka skýrt fram vegna þess sem hér hefur komið fram, að sameiginlegum rannsóknum á karfastofninum innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins og við höldum fundi á hverju ári um þessi mál. Einn slíkur fundur stendur einmitt yfir núna og sækir hann af Íslands hálfu dr. Jakob Magnússon. Það liggur fyrir að Alþjóðahafrann­sóknaráðið hefur mælt með því að veidd væru á ári 105 þús. tonn úr þessum karfastofni, en eins og menn vita hér veiddum við Íslendingar liðlega 120 þús. tonn á s.l. ári og höfum gert ráð fyrir að veiða 110 þús. tonn á þessu ári. Til viðbótar því magni er gert ráð fyrir að við Vestur- og Austur-Grænland séu veidd um 60 þús. tonn.

Að því er þorskinn varðar er stofninn við Austur-­Grænland í sérstaklega slæmu ásigkomulagi. Fundur var haldinn nú alveg nýlega innan Alþjóðahafrann­sóknaráðsins, eða dagana 18. til 24. janúar, þar sem þar kemur fram að heildarstofninn sé ekki nema um 30 þús. tonn og hrygningarstofninn um 26 þús. tonn. Á árinu 1982 er áætlað að hafi verið veidd úr þessum stofni 27 þús. tonn, sem varð til þess að nokkurt hrun varð í honum svo ekki sé meira sagt. Á árinu 1983 eru hins vegar veidd úr þessum stofni 13 þús. tonn og till. var um það eftir þennan fund að ekki yrði veitt meira en 6 þús. tonn úr stofninum, en það hefur verið mikið vandamát að aðeins hluti af veiðinni hefur verið skrásett. Sam­kvæmt þeim till. sem núna liggja fyrir af hálfu Efna­hagsbandalagsins og Grænlands er talað um 13 750 tonna veiði, sem er ekki í neinu samræmi við ábending­ar vísindamanna.

Að því er varðar stofninn við Vestur-Grænland er í þessum till. gert ráð fyrir því að veiða 62 þús. tonn, sem er sambærileg veiði og hefur átt sér stað alveg upp á síðkastið. Það hefur verið nokkuð breytilegt hve mikið hefur verið veitt úr þeim stofni, en það var mest 1971 121 þús. tonn og síðan 1972 110 þús. tonn, en veiði úr stofninum við Vestur-Grænland er fyrst og fremst af hálfu Grænlendinga sjálfra.

Það hefur komið hér fram að það mundi hafa breytt verulega ef till., sem hér er til umr. og er út af fyrir sig góðra gjalda verð og er nauðsynlegt að ræða þessi mál hér, hefði komið til umr. hér fyrr. Er látið að því liggja að ekki hafi verið fylgst með þessum málum. Það hefur komið hér fram að margoft hefur verið rætt við Grænlendinga um þessi mál. Það hefur verið oft rætt um þau undanfarið milli utanrrn. og sjútvrn. og þau hafa verið rædd í ríkisstj. Ég leyfi mér að fullyrða að Grænlendingar hafa ekki, því miður, viljað ræða þessi mál fyrr en þeir hefðu gengið frá sínum málum gagnvart Efnahagsbandalaginu og í reynd ekki talið sig hafa formlega heimild til að fjalla um þau við aðrar þjóðir fyrr en þeir hefðu náð forræði yfir fiskimiðunum, sem þeir hafa ekki haft. Ég tel því vera algerlega rangt að það hefði breytt einhverju þótt þessi mál hefðu komið til umr. fyrr. Það hefur allan tíman legið fyrir að Efnahagsbandalagið mundi ekki vera tilbúið til að veita Grænlendingum tollfrelsi og fjárhagsaðstoð nema veiði­heimildir þeirra, sem væru sambærilegar við þær sem þeir hafa haft að undanförnu, væru tryggðar. Og það þarf ekki að koma neinum á óvart að þeir hafi gengið mjög hart eftir því við Grænlendinga að gera slíkan samning. Sá samningur er nú orðinn að veruleika og við því er ekki mikið að gera. Það er þó eitt ánægjulegt við þann samning, að Grænlendingar ná forræði í þessum málum sjálfir og þeir munu væntanlega losna við erlendar veiðiþjóðir úr sinni landhelgi — og að því stefna þeir því þeir þurfa á því að halda í framtíðinni að nýta sína fiskistofna sjálfir.

Ég vildi, herra forseti, láta þetta koma fram, en er ekki með því að draga á neinn hátt úr þeim áhyggjum sem ástæða er til að hafa af ofveiði stofnanna. En ég leyfi mér að fullyrða að það er alger misskilningur að það þurfi að koma mönnum á óvart að einhver slík niðurstaða hefur nú orðið, hvort sem menn bjuggust nú við því að um eins mikla veiði yrði að ræða og hér hefur komið fram eða ekki.