21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3042 í B-deild Alþingistíðinda. (2641)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. þm. Ragnar Arnalds hefur talað um að það muni hafa verið fastmælum bundið þegar till. þessi var flutt að hún yrði tekin til afgreiðslu á fimmtudag. Ég kannast ekki við þetta. Hins vegar vil.ég segja að það var sammæli milli mín, 1. flm. og utanrrh. að fundur yrði haldinn á mánudag um þetta. Þess vegna ber ekki neinn einn öðrum fremur ábyrgð á því að fundur var ekki haldinn fyrr í utanrmn. en á mánudag. Það er þá samábyrgð sem þeir aðilar bera. — En ég bendi á að hv. þm. Ragnar Arnalds er einn af flm. þessarar till. Ef honum hefði verið umhugað um að málið væri afgreitt með þeim hætti sem hann hefur verið að gefa í skyn að samið hafi verið um, þá var hægur vandi hjá honum að hafa samband við mig eða 1. flm. till. Það gerði hann ekki og á fundi utanrmn. kom engin aths. fram um að fundur hefði ekki verið haldinn fyrr og ekki fremur frá fulltrúa Alþb. en öðrum. Að halda því fram að það mundi hafa komið í veg fyrir samkomulag það sem gert hefur verið við Efnahagsbandalagið af hálfu Grænlendinga ef Al­þingi Íslendinga hefði samþykkt þessa till. á fimmtudag er meiri barnaskapur en svo að það sé hægt að ætla nokkrum þm.

Ég hafði satt að segja haldið að skoðanir þm. á þessu máli væru mjög samhljóða og þeir mundu með öllum hætti greiða fyrir því að þáltill. næði samþykki. Ég byggði þá skoðun mína á því að þetta var þáltill. sem var flutt af fulltrúum frá öllum flokkum, tveimur frá hverjum flokki. Þess vegna verð ég að segja að ég hef orðið svolítið undrandi á þeim umr. sem hér hafa farið fram og ekki hafa verið með því marki brenndar að þær hafi borið því vitni að menn hefðu sérstakan áhuga fyrir því að koma þessari þáltill. frá sér. Satt að segja finnst mér sumt af því hafa verið svolítið með því marki brennt að við vildum telja okkur stóra bróður í samskiptum við Grænlendinga. Ef nokkuð ber að varast, ef það á að ná samningum við Grænlendinga, þá er það einmitt að láta skína í slíkt. Við eigum að vinna á jafnréttisgrundvelli að þessum málum, og kannske mjúku tökin dugi best ef því er að skipta.

Ég ætla ekki að ræða um fortíðina í þessu, af því það yrði of langt mál og það hefur líka verið vikið að henni, en það er auðvitað alveg fráleitt að þeir sem fylgst hafa með málum sem þessum geti sagt að sér komi eitthvað á óvart að svona samkomulag hafi verið gert. Það hefur einmitt verið unnið að því að ná svona samkomulagi. Og ég held að við ættum að fara varlega í það að svo stöddu að lá Grænlendingum í þessu sambandi. Ég held að eftir að það liggur nú alveg fyrir að þetta samkomu­lag hefur verið gert, eins og það áður lá í loftinu að það yrði gert, sé enn meiri ástæða til þess fyrir Alþingi Íslendinga að samþykkja þessa ályktun og enn meiri ástæða til þess fyrir íslensk stjórnvöld að halda fast á málinu og vinna að því. Það vona ég að verði gert með samstöðu alþm. en ekki pexi um aukaatriði.