21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2642)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Ég kem hér einungis upp til að staðfesta það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði, að það var hér á miðvikudaginn í síðustu viku, eftir að samstaða hafði náðst með öllum flokkum og fram hafði verið lögð þáltill. sem hér er nú til umr., að við ráðguðumst hvort nauðsynlegt væri að halda fund í utanrmn. þann dag eða á fimmtudagsmorg­un til að fá afgreiðslu á fimmtudaginn í síðustu viku. Ég lagði ekki á það áherslu og sagðist vera sáttur við að fundurinn yrði haldinn á mánudegi, þ.e. í gær. Það var m.a. vegna þess að mér var kunnugt um að fregnir um samstöðu íslensku stjórnmálaflokkanna höfðu þegar borist t.d. til Danmerkur. Það hringdu t.d. danskar fréttastofur í mig á miðvikudagsmorgni og vissu þá um að þessi samstaða hafði orðið. Fréttin var komin á framfæri: Alþingi Íslendinga var sammála í málinu. Þess vegna taldi ég ekki nauðsyn á því að hraða svo afgreiðslu að till. yrði samþ. s.l. fimmtudag.

En tilefni þess að hv. þm. Ragnar Arnalds hefur þarna eitthvað misskilið málið er sjálfsagt það, að þegar ég var að vinna að málinu á mánudaginn í fyrri viku hafði ég orð á því við forustumenn flokkanna að ég legði mikla áherslu á að till. yrði flutt strax á þriðjudeg­inum og tekin til fyrri umr. þá og síðan væri mér kappsmál að hún yrði strax tekin fyrir í utanrmn. og afgreidd á fimmtudeginum. Misskilningurinn er áreið­anlega þannig upp kominn. En ég er ábyrgur fyrir því alveg eins og formaður n.till. var ekki rædd fyrr en á mánudegi. Ég taldi þess ekki þörf því að mér var kunnugt um það, sem utanrrh. hér upplýsti, að búið var að hafa samband við grænlensku forráðamennina og þeir höfðu boðist til að ræða við okkur jafnvel í þessari viku. Þess vegna kom það eins og köld gusa framan í mig í gærkvöld að búið væri að semja. Ég held að það sé engan um að saka í þessu efni. Það gat enginn látið sér detta annað í hug en að það kæmi út á eitt hvort við afgreiddum till. nú eða s.l. fimmtudag.