22.02.1984
Sameinað þing: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3045 í B-deild Alþingistíðinda. (2648)

Um þingsköp

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég skal fara eftir tilmælum forseta og ræða um grg. hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar sem brot á þingsköpum. Honum gafst í umr. í gær tækifæri til að taka efnisatriði málsins til meðferðar. En þá svaf þessi hv. þm. og sá ekki ástæðu til að taka þátt í umr. um málið. Kemur síðan og krefst nafnakalls um till., sem einhugur er um á Alþingi, í því skyni að rjúfa þá samstöðu sem er á meðal þm. í þessu mikilvæga máli. Þess vegna eru ásakanir hans út í hött og til þess fallnar að spilla fyrir málstað okkar Íslendinga.

Að lokum hlýt ég að vekja athygli á því, að ásökun hv. þm. í garð okkar forsrh. felst í því, að við höfum ekki hafist handa eftir að þessi þáltill. kom fram á þingi. Það er algjörlega ósatt vegna þess að á þeim tíma og raunar fyrr reyndum við að stofna til viðræðna við Grænlendinga, en efnislega voru þeir ekki reiðubúnir til þeirra fyrr en málið væri útkljáð af þeirra hálfu gagnvart Efnahagsbandalaginu. Þetta eru staðreyndir málsins.