22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2654)

180. mál, framboð og kjör forseta Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í frv. þessu má segja að sé um tvær leiðréttingar að ræða og breytingar til samræmis við gildandi kosningalög. Lögum til Alþingis hefur verið breytt þannig að kosn­ingar fara fram á laugardögum og er í 1. gr. frv. gert ráð fyrir að breyta lögum um kjör forseta Íslands til samræmis þannig að í stað sunnudags komi laugardagur og fari kjör forseta því fram eins og til Alþingis á laugardegi.

Með kosningalagabreytingu þeirri sem gerð var 1959 eru felldar niður einstaklingsbundnar kosningar en hlutfallskosningar teknar upp. Ekki er um hlutfalls­kosningar að ræða við kjör forseta Íslands en segja má að láðst hafi að geta þess í kosningalögum eða breyta kjöri forseta Íslands þannig að þær yrðu áfram einstakl­ingsbundnar. 2. gr. er því leiðrétting. Þetta er að sjálfsögðu orðin hefð og hefur verið framkvæmt svo þrátt fyrir breytingu á kosningalögum 1959, en rétt þykir og er vitanlega sjálfsagt að leiðrétta þó að seint sé.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa lengri framsögu um þetta mál en legg til að að lokinni umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.