22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3051 í B-deild Alþingistíðinda. (2657)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Neyslukönnun sú sem lögð er til grundvallar í þessu nýja frv. til l. um vísitölu framfærslukostnaðar er byggð á rannsóknum sem gerðar voru fyrir sex árum eða árið 1978. Vissulega kom til álita að taka í gildi þennan nýja neyslugrundvöll með setningu laga um það atriði og samkomulagi aðila vinnumarkaðarins, en af því hefur nú ekki orðið, og síðan eru liðin sex ár.

Meginröksemdin fyrir flutningi þessa frv. er sögð sú af hálfu hæstv. viðskrh. að gamli neyslugrundvöllurinn frá 1964 sé orðinn úreltur og þörf sé á vísitölugrundvelli sem endurspegli betur en sá gamli gerir neyslu í þjóðfélaginu og breytingar á verðlagi hennar. En gall­inn á þessu máli er augljóslega sá, að eftir þá gífurlegu kjaraskerðingu sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á undanförnum mánuðum er neysla almennings í þjóðfé­laginu orðin gerbreytt frá því sem var þegar neyslu­könnunin fór fram árið 1978. Í Hagtölum mánaðarins má lesa að kaupmáttur kauptaxta miðað við vísitölu framfærslukostnaðar var talinn vera 98, nánar tiltekið 97.9, á árinu 1978 að meðaltali. Þessi grunnur er miðaður við 100 árið 1974, en hann er kominn niður í rétt um 73 stig 1983 og þar sem kaupmáttarfallið er einkum á síðari hluta árs 1983 er ljóst að kaupmátturinn á eftir að verða enn lakari á árinu 1984 en á árinu 1983 að meðaltali. Sem sagt: kaupmátturinn hefur bersýni­lega fallið um fast að 30% frá því að neyslukönnunin var gerð á árinu 1978 og þar til nú um áramót og ég hygg að kaupmáttarbreytingin verði orðin verulega miklu meiri þegar þessi lög ættu að koma til fram­kvæmda. Mér virðist því að þessi gamla neyslukönnun sé alls ekki eðlilegur eða réttur grundvöllur undir nýrri vísitölu.

Það er vissulega rétt að þessi nýi neyslugrundvöllur endurspeglar neysluna í þjóðfélaginu með eðlilegri hætti frá ýmsum sjónarmiðum séð, t.d. að þarna er um að ræða allt höfuðborgarsvæðið og fimm staði utan þess, en ekki Reykjavík eina eins og áður var, og síðari könnun endurspeglar að sjálfsögðu betur skiptingu þjóðarinnar í starfsstéttir og þar með kaupgetu almenn­ings en sú fyrri gat gert. Hins vegar hygg ég að breytingin á kaupmætti launa, sem orðið hefur núna seinasta hálfa árið, geri miklu meira til að raska neyslumunstri í þjóðfélaginu en nokkurn tíma þau atriði sem voru þó til hins betra í þessum nýja neyslugrund­velli. Þess vegna er ákaflega hæpið að taka þennan grundvöll upp, ef ske kynni að hann gæfi rangari mynd af neyslu almennings en sá gamli. Sá gamli tekur mikið meira tillit til nauðþurftaneyslu almennings. Grjóna­grauturinn er miklu þyngri í gamla vísitölugrundvellin­um en þeim nýja. Ég er ekki frá því að eins og ástatt er í þjóðfélaginu í dag og verður á næstu mánuðum sé flest sem bendir til þess að gamli grundvöllurinn sé þrátt fyrir allt skárri mynd af neyslunni í þjóðfélaginu en sá nýi. Auðvitað þarf þetta nánari athugunar við. Í öllu falli er mjög hæpið að slá því föstu á þessu stigi, án þess að málið sé nánar rannsakað, að það sé mikil bót að setningu þessara laga. Málið þarf því vandlegrar athug­unar við.

Ég tel að heppilegast væri eins og á stendur að hraða sér í nýja neyslukönnun, láta hana fara fram á næstu mánuðum og taka þá upp nýjan vísitölugrundvöll á grundvelli þess. Úr því að þessi nýi vísitölugrundvöllur er búinn að bíða í sex ár skil ég ekki að það breyti neinu þó að það dragist í nokkra mánuði að hann verði tekinn upp eða nýr grundvöllur verði tekinn upp og það sé þá betra að styðjast við rétta mynd af neyslunni í þjóðfé­laginu en að vera þar með algerlega úreltar tölur.

Annað kemur inn í þetta mál sem við verðum að gæta afar vel að og það er það sem gerðist í gær, að ríkisstj. fellst á það að bæta hag hinna lægst launuðu með ýmsum hætti, þótt ekki hafi það verið ákveðið enn í smáatriðum og ekki endanlega, en upplýsir að til standi að taka upp tekjutengdan barnabótaauka, hækka feðra- ­og mæðralaun og auka tekjutryggingu almannatrygg­inga og að þessi útgjöld, sem sannarlega eru af hinu góða, verði greidd með tilfærslu innan fjárlagadæmis­ins. Og þegar það bætist svo við að talsmenn vinnu­veitenda og Alþýðusambands Íslands hafa upplýst að í þessu sambandi komi niðurgreiðslur alveg sérstaklega til álita, það komi sem sagt til álita að lækka niður­greiðslur um 1/3 til að mæta þessum útgjaldaauka, sem er um 306–330 millj. kr. eftir því sem mér skilst, tekur þetta mál allt á sig gerbreytta mynd. 330 millj. kr. eru sem sé rétt um þriðjungur af niðurgreiðslum á árinu 1984 og þar sem þegar er nú liðinn rúmur einn og hálfur mánuður af árinu og verða örugglega liðnir tveir mánuðir af árinu áður en þessi niðurgreiðslubreyting gæti komið til framkvæmda mundi vafalaust verða um að ræða enn meiri niðurskurð á niðurgreiðslum það sem eftir væri ársins, sennilega allt að helmingi, en auðvitað hafa breytingar á niðurgreiðslum afar stórtæk áhrif á framfærsluvísitölu eins og kunnugt er.

Ég ætla ekki að fara að gera kjarasamningana, sem undirritaðir voru í gær, að sérstöku umtalsefni. Ég hefði svo sannarlega óskað launþegum hagstæðari kjara á árinu 1984 en horfur eru á að þeir fái skv. nýgerðum kjarasamningum. Það er ekki útlit fyrir að launþegar geri miklu meira en að halda í horfinu með því að fá í sinn hlut það sem felst í þessum nýgerðu kjarasamning­um. En hitt er mjög mikilsvert, að þeir lægst launuðu fái nokkra úrbót með hækkuðum barnabótum, feðra­- og mæðralaunum og hækkaðri tekjutryggingu þótt auðvitað hefðu þessar hækkanir mátt vera meiri og þótt auðvitað verði þær að engu gerðar. Ef þær verða allar teknar til baka með hækkun brýnustu lífsnauðsynja, þar sem matvörurnar eru, á þann hátt að niðurgreiðslur verði lækkaðar um kannske allt að helmingi og brýn­ustu lífsnauðsynjar eins og mjólkurvörur og kjötvörur og kartöflur hækki af þeim sökum mjög verulega í verði, þá óttast ég að þessi fyrirhugaða greiðsla úr ríkissjóði í þágu hinna lægst launuðu yrði nær öll ef ekki öll tekin til baka á fjölmörgum heimilum. Neytendur yrðu einfaldlega látnir borga þessa búbót sjálfir og þeir mest sem flesta hafa munnana að metta á hverju heimili.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta stóra mál, gerða kjarasamninga, þó að þeir snerti vissulega það mál sem við erum að ræða hér með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Hitt er ekki síður varhugavert, ef það er svo gert samtímis að lækka niðurgreiðslur á vöruverði, hækka þar með allar matvörur í verði, en skipta um vísitölugrundvöll á sama tíma, þar sem matvörur vega miklu minna en þær gerðu í gamla vísitölugrundvellin­um og en þær gera kannske í þjóðfélagi okkar í dag eftir þá kjaraskerðingu sem orðið hefur. Þá er verið að falsa vísitöluna, þá er verið að gefa ranga mynd af þeim breytingum á framfærslukostnaði sem verða á því tímabili þegar breytingin er að ganga yfir. (TÁ: Vorum það ekki við sem beittum okkur fyrir henni?) Við, hv. þm. Tómas Árnason, vorum líklega aðallega við þegar við vorum saman í ríkisstj. Þá beittum við okkur fyrir verulegri niðurgreiðsluaukningu og ræddum það marg­sinnis að taka upp nýjan vísitölugrundvöll. Hins vegar var ég ávallt þeirrar skoðunar að það kæmi ekki til greina að taka upp nýjan vísitölugrundvöll strax eftir að búið væri að hækka niðurgreiðslur. Þess vegna var ég andvígur því vorið 1982 að við tækjum þá upp nýjan vísitölugrundvöll. Ég taldi ekki að það gæti komið til greina eftir að við höfðum aukið niðurgreiðslur svo verulega sem við gerðum veturinn 1982 og taldi að við yrðum að bíða nokkuð, þar til niðurgreiðslur hjöðnuðu verulega. Ég tel að það sé jafnrangt að taka upp nýjan vísitölugrundvöll og gefi jafnvillandi mynd ef verið er að lækka niðurgreiðslur á sama tíma.

Niðurgreiðslur vega núna 4.28% í framfærsluvísitölu og ef það t.d. gerðist að nýr vísitölugrundvöllur væri tekinn nú upp og jafnframt væru niðurgreiðslur lækkað­ar um 1/3 mundi það þýða að það væri verið að taka út úr framfærsluvísitölunni ákveðna breytingu sem ætti sér stað í verðlagi hér innanlands. Lækkun niðurgreiðslna upp á 1/3 mundi nema um 1.42%, þ.e. þriðja hluta af því sem niðurgreiðslurnar vigta í vísitölunni, sem eru 4.28%. Og þó að þær séu vissulega áframhaldandi í nýju vísitölunni vigta þar miklu minna bæði matvörurn­ar og niðurgreiðslurnar. Þar af leiðandi væri með þessu verið að falsa vísitöluna, eins og ég nefndi áðan. Ég tel að ekki komi til greina að breyta vísitölugrundvellinum í tengslum við lækkun niðurgreiðslna, heldur beri ósköp einfaldlega að lækka niðurgreiðslurnar ef menn ætla að gera það og mæla síðan að nýju og tengja saman gamlan og nýjan vísitölugrundvöll. Það eru einu vinnubrögðin sem eru heiðarleg. Ég mun verða andvígur því að standa að þessum málum á annan hátt.

Hæstv. viðskrh. talaði um það í viðtali við fréttastofu útvarpsins núna í hádeginu að hann vænti þess að frv. þetta ætti greiðan gang gegnum Alþingi. Ég vil engu lofa um það af minni hálfu eða minna flokksmanna. Mér sýnist að þetta frv. sé á ferðinni á röngum tíma og er sérstaklega tortrygginn gagnvart því að það skuli vera mælt fyrir frv. hér daginn eftir að upplýst er að til greina komi að lækka niðurgreiðslur um 1/3. Það finnst mér óneitanlega vera nokkuð tortryggilegt. Auk þess sýnist mér að það sé ekki jafnsjálfsagt að taka upp þennan nýja vísitölugrundvöll nú og það var fyrir einu ári vegna þess að neyslan í þjóðfélaginu hefur breyst svo veru­lega.

Það var stundum kallað vísitölufölsun í tíð fyrri stjórnar og reyndar í tíð margra annarra stjórna þegar verið var að auka eða minnka niðurgreiðslurnar. Þessu var ég aldrei sammála. Ég tel ekki að það sé nein vísitölufölsun að lágtekjufólk fái þau hlunnindi sem fólgin eru í lágu búvöruverði. Ég tel það satt að segja nauðsynlegt að ríkisstjórnir almennt beiti sér fyrir lágu búvöruverði, hef alltaf verið hlynntur því að búvörur væru niðurgreiddar, bæði með hliðsjón af hagsmunum neytenda og raunar einnig með hliðsjón af þeirri þjóðhagslegu nauðsyn sem á því er að íslenskar búvörur séu á sem lægstu verði þannig að þær gangi út og seljist og vandi landbúnaðarins sé að sama skapi minni. Þess vegna hef ég aldrei tekið þátt í þeim fullyrðingakór, sem oft hefur verið uppi, að verið væri að falsa vísitöluna þegar niðurgreiðslur hafa verið auknar. En hitt tel ég vera ótvíræða fölsun á framfærsluvísitölu, ef breyting er gerð á vísitölugrundvellinum samfara því að gerð er breyting á niðurgreiðslum. Það má ekki eiga sér stað.