22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það er sitthvað sagt hér um vísitölufalsanir og menn bera af sér eitt og annað í þeim efnum. Auðvitað voru það ekkert annað en vísitölufalsanir og spilaleikur með vísitöluna þegar var verið að hækka niðurgreiðslur rétt áður en útreikn­ingur framfærsluvísitölu fór fram og síðan komu verð­hækkanir rétt á eftir, eftir næstu mánaðamót. Auðvitað spilaði hæstv. fyrrv. ríkisstj. á vísitöluna með þessum hætti, eins og margar aðrar ríkisstjórnir gerðu á undan henni, hvort sem menn kalla það vísitölufalsanir eða eitthvað annað. Þarna var verið að möndla með vísitöl­una með afar óeðlilegum hætti, en nú sýnist mér að hæstv. núv. ríkisstj. ætli að fara aðrar brautir í sínu vísitölumöndli og kannske verða sýnu stórtækari en þeirri fyrri þó tókst.

Ég hef allan fyrirvara um stuðning við þetta frv. og get raunar haft uppi í mjög mörgum greinum hin sömu rök og hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Norðurl. v., hafði uppi áðan, vegna þess að þau eru gild.

Það eru gild rök gegn þessu frv. Í fyrsta lagi er auðvitað alrangt að tala hér um nýjan vísitölugrunn vegna þess að þessi „nýi“ vísitölugrunnur er síðan 1978–1979. Og það er alveg hárrétt að eftir lífskjara­skerðingu núv. ríkisstj. hefur neyslan breyst. Neyslu­munstrið, ef nota má það orð, er annað. Ég fullyrði að það er annað þessa mánuðina en var 1978–1979. Það er alveg ljóst. Þess vegna gefur sá vísitölugrunnur sem menn eru að tala um núna og kalla nýjan en er í rauninni 5–6 ára gamall alls ekki rétta mynd af því hvað kostar að framfleyta sér og sínum í íslensku þjóðfélagi eins og það er í dag. Þess vegna er hann rangur og á ekkert erindi í notkun. Það á að reikna út nýjan grunn. Þegar ég segi nýjan, þá á ég við að það á að gera neyslukönnun núna og byggja vísitöluna á henni. Það verk þarf ekki að taka mjög langan tíma, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni. Sömu­leiðis eru það ekki heiðarleg eða æskileg vinnubrögð að fara núna að lögleiða ákveðinn grunn, sem byggist á ákveðnu neyslumunstri eða neyslumagni og skiptingu, ef síðan á að gerbreyta niðurgreiðslunum frá því sem grunnurinn er miðaður við. Það eru í hæsta máta óeðlileg og ég vil segja óheiðarleg vinnubrögð vegna þess að þá er allt komið í rugling og útgjöldin og skipting þeirra í rauninni allt önnur en reiknað er með. Þess vegna held ég að það sé alveg óhjákvæmilegt, ef á nú að breyta niðurgreiðslunum, sem kannske er ekkert óeðlilegt að taka tillit til þess í neyslugrunninum. Út af fyrir sig er kannske ekki mikið við lækkun niður­greiðslna að segja. Ef þeir peningar, sem þar eru fluttir til, koma láglaunafólkinu til góða með öðrum hætti, skal ég ekki hafa á móti því. En þá verðum við að taka tillit til þess í þessum neyslugrunni. Það er tómt mál um að tala að nota grunn frá 1978–1979 á árinu 1984, miðað við allar þær breytingar sem átt hafa sér stað á þessum tíma. Þetta er kjarni málsins. Það er þess vegna sem ég og minn flokkur munum hafa allan fyrirvara um stuðning við þetta mál. Raunar held ég að við mundum beita okkur mjög gegn því að það væri afgreitt með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir ef það er sýnt að svona á að haga til.

Hæstv. ráðh. mæltist til þess að nefndir beggja deilda ynnu saman að athugun þessa máls og bendir það til að hann vilji flýta málinu mjög og koma því í gegn hér sem fyrst. Raunar bendir ýmislegt fleira til þess því að hæstv. ráðh. afhenti þingflokkum þetta mál sem trúnað­armál s.l. mánudag og er það auðvitað góðra gjalda vert, en daginn eftir var málið ítarlega rakið í Morgun­blaðsfrétt og síðdegis þann sama dag var það lagt fram hér á hinu háa Alþingi. Þannig rekur hvað annað og virðist mikið liggja á. En það er auðvitað ákvörðun formanna fjh.- og viðskiptanefnda hv. Ed. og Nd. hvort þessi hátturinn verður hafður á, þ.e. hvort sett verður samvinnunefnd í málið. Það eru formenn nefndanna, ef ég kann þingsköp rétt, sem taka þá ákvörðun. En auðvitað hljóta þeir að taka tillit til óska ráðh. í þessum efnum, geri ég ráð fyrir, þar sem báðir þessir hv. formenn eru nú úr stjórnarliðinu.

Svo vill til að ég á sæti í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, en ég verð vegna starfa í Norðurlandaráði fjarverandi næstu viku og vil þó gjarnan fá að hafa nokkuð um það að segja hvernig fjallað verður um þetta mál í fjh.- og viðskn. Ég hygg að venjan hafi verið sú, að meðan þing Norðurlandaráðs stendur yfir séu þingmál ekki keyrð af offorsi í gegnum þingið. Bæði eru margir ráðherrar fjarverandi svo og sjö þm. sem lögum samkv. eiga sæti í Norðurlandaráði og eru þar fulltrúar Íslands. Ég verð því að mælast til þess við hæstv. viðskrh. að hann hafi nokkra biðlund og þrýsti málinu ekki svo mjög fram sem mér heyrist að hann vilji, þannig að það geti fengið eðlilega umfjöllun í Ed. Að sjálfsögðu er ekkert við það að athuga að nefndin taki málið fyrir í næstu viku og sendi það til umsagnar, en ég held að þetta mál þurfi allítarlega athugun hér í þinginu og mælist eindregið til þess að hæstv. ráðh. sýni þá sanngirni að nefndir fái að fjalla um það og fái til þess eðlilegan tíma, þannig að hægt sé að athuga málið gaumgæfilega. Ég geri fastlega ráð fyrir að heildar­samtök launþega vilji hafa sitt að segja um þetta mál og það er nauðsynlegt að senda þetta mál til umsagnar nokkuð víða.

En ég ítreka að lokum, virðulegi forseti, að ég hef allan fyrirvara um stuðning við málið og ég geri það með þeim sömu rökum og hv. þm. Ragnar Arnalds rakti áðan, þ.e. að þessi neyslugrundvöllur er úreltur og enn þá verri verður hann ef nú á að fara að breyta niðurgreiðslunum. Þannig er tómt mál um að tala að hægt sé að samþykkja frv. með þeim hætti sem fyrir er lagt nú.