22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3056 í B-deild Alþingistíðinda. (2659)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins fyrir hönd Kvennalistans leyfa mér að efast um réttmæti þess að fara í dag að taka upp nýja framfærsluvísitölu byggða á sex ára gamalli neyslu­könnun á meðan við vitum að geysilegar breytingar hafa orðið á kaupmætti launa á s.l. sex árum og þar með á neyslu landsmanna. Það væri að mínu viti betra ráð að fara af stað með nýja neyslukönnun nú, eins og kom fram áðan.

Mér sýnist einnig að það sé einkar óviturlegt að ætla nú að fara að taka upp nýjan vísitölugrunn þar sem vægi matvæla stórminnkar. Við vitum að vægi þeirra í neyslu hefur hækkað síðan síðasta neyslukönnun var gerð. Þessi sex ára gamli grunnur fær því ekki staðist að því leytinu til. Ég hef því allan fyrirvara á máli þessu fyrir hönd Kvennalistans.