27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Hér hefur umr. verið með ýmsum blæbrigðum og margir ósammála en þó virðast flestir sammála um það með nokkrum formerkjum þó að það sé óæskilegt að stórþjóð hlutist til um mál smáþjóðar. Og nú langar mig til að spyrja hvort e.t.v. sé hér um að ræða orðalag, það sé um að ræða að velja rétta orðið til að túlka þessa sameiginlegu skoðun eða tilfinningu. Og þá langar mig að spyrja: Gæti íslenska ríkisstj. harmað, e.t.v. ekki fordæmt eða mótmælt, en treystir hún sér til að harma að þarna hafi verið hlutast til um mál smáþjóðar? Mig langar til að spyrja utanrrh. að þessu.