22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3056 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr.

Sagt er að þessi neyslukönnun sem grunnur að nýrri vísitölu sé seint á ferðinni. Ég vil nú ekki taka á mig í þeim efnum nema örfáa mánuði. Það er þá einhverra annarra að taka það til sín. En ég tel að það hljóti nú að vera skynsamlegra að styðjast við neyslukönnun sem byggð er á árunum 1978–1979 en 1964–1965.

Efast er um að þessi könnun, sem gerð er 1978– 1979, sé rétt miðað við daginn í dag. Það má vel vera. En ég held að við hljótum að vera sammála um að það hlýtur að vera nær raunveruleikanum sem skoðað er 1978–1979 í þessum efnum en 1964–65. Það eitt hlýtur að mæla með því að við leggjum til að þessi neyslukönnun, sem gerð er, verði lögð til grundvallar.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að eins fljótt og mögulegt er eigi að hefja nýja könnun. Í 3. gr. frv. er kauplagsnefnd einmitt gert skylt að gera slíka könnun á fimm ára fresti. Leiði slík könnun til þess að nefndin telji ástæðu til endurskoðunar og að það sé gerð ný neyslukönnun, þá skal hún fara fram. Ég held að það sé ekki hægt að gera þetta hraðar en svo að á árinu 1985, þ.e. á næsta ári, verði um að ræða í upphafi árs könnun á því hvort ástæða sé til þess að athugun sé gerð á þessum hlutum. Samfara því að við erum að færa okkur nær í tímanum með því að leggja til grundvallar þessa neyslukönnun, 1978–1979, er því verið að gera ráðstaf­anir til þess að gerð verði neyslukönnun innan eins árs, þ.e. í upphafi ársins 1985, og síðan á fimm ára fresti.

Ég gat þess hins vegar í ræðu minni áðan og það kemur fram í grg. hver þróunin hefur verið frá 1981, reiknað út bæði samkv. grunninum frá 1964–1965 og 1978–1979. Það er vissulega rétt, sem hér hefur verið bent á, að matvörur vega minna í þessari könnun sem gerð er 1978–1979 en 1964–1965. En ég vík þá að öðru sem kemur þar á móti. Það er húsnæðisliðurinn, heimilisbúnaður og annað eftir því, það sem snýr að heimilinu sem slíku. Það vegur töluvert þyngra í nýja grunninum en þeim gamla. Þannig vegur hvað annað upp í þessum efnum. Ég held að þegar á allt er litið hljóti menn að vera sammála um að skynsamlegra sé að hafa nýrri neyslukönnun til viðmiðunar framfærsluvísi­tölu en eldri.

Þegar talað er um fölsun á vísitölu held ég að ég vilji ekki taka á mig neitt slíkt og kannast ekki við að hafa staðið að því. Ég þekki hins vegar dæmi um að vísitala var greidd niður í örskamman tíma til að hafa áhrif í vissum tilvikum. En ég held að þá rugli menn saman framfærsluvísitölu og áhrifum hennar til kaupgjaldsvísi­tölu þegar þær tvær vísitölur voru nokkuð nátengdar. En að hér sé um að ræða vísitölufölsun, því vil ég vísa á bug.

Hér komu fram aths. varðandi hugmyndir um til­færslu innan fjárlagaársins 1984 til að mæta tillögum um sérstakar bætur til handa þeim sem lægri launin hafa. Mér finnst sjálfsagt að skoða alla möguleika. Ef þriðjungurinn af niðurgreiðslunum t.d. kemur sér betur fyrir þá lægst launuðu í mynd beinna bóta er auðvitað sjálfsagt að fara þannig að. Það hefur hins vegar engu verið slegið föstu um þau efni, en þeim hugmyndum, sem lagðar voru fyrir ríkisstj. af hálfu þeirra sem við ríkisstj. ræddu, að sjálfsögðu tekið jákvætt og einnig því að menn settust niður til að gera sér grein fyrir hvernig væri best að hagnýta það fjármagn og hvernig það kæmist best til skila til þeirra sem þurfa mest á því að halda.

Ég bendi á að þegar talað er um að neyslukönnun þurfi ekki að taka langan tíma held ég að menn geri sér ekki nægjanlega vel grein fyrir staðreyndum. Ég held að slík könnun taki töluvert lengri tíma en við kannske í fljótu bragði hvert og eitt okkar látum okkur detta í hug. Sú vinnsla fer fram með þeim hætti. Um leið og þetta frv. var samið beitti ég mér einmitt fyrir því að 3. gr. segði til um að neyslukönnun færi af stað eins fljótt og mögulegt væri.

Talað var um afgreiðslu málsins á þingi. Ég held að ég hafi tekið afar skýrt fram að ég óskaði eftir því að þetta mál yrði skoðað mjög vel í þeirri nefnd sem um það ætti að fjalla. Ég þykist nú þekkja þingsköpin nokkuð vel líka. Ég efast ekki um að hv. 5. landsk. þm. kann þau, en bæði sem fyrrv. forseti í þingdeild og fyrrv. formaður í fjh.- og viðskn. Nd. þykist ég minnast þess að ekki kæmi ósjaldan fyrir að ráðh. mæltist til þess að þannig vinnubrögðum yrði viðkomið. Þetta mál er þess eðlis. Hvað varðar viðræður og upplýsingar, sem aðilar koma með, mundi það hraða málinu hér í þingi að halda sameiginlega fundi. Það yrði töf af því að kalla sömu menn á fund til aftur að endurtaka það sama fyrir sjö þm. í Nd. og fyrir sjö þm. í Ed. (EKJ: Það verður athugað.) Ég átti alltaf von á því að hv. þm., formaður fjh.- og viðskn., mundi gera það. — Ég ætlast ekki til þess að um þetta fari hér fram umr. þegar þm. eru að sinna öðrum störfum á Norðurlandaráði. Ég sit þar sjálfur sem samstarfsráðh. og óska ekki eftir því að umr. fari fram um málið í Alþingi að mér fjarstöddum. Ég tel það vera í ráðherrastarfinu fólgið að fylgja málum eftir, sem ráðherrar leggja hér fyrir, og þm. eigi kröfu á því að þeir séu þar viðstaddir til að svara og veita fyrirgreiðslu eftir því sem þeir geta.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég vonast til þess að málið fái þá skoðun sem það þarf og þegar upp verður staðið geri menn sér grein fyrir því að við erum að reyna að færa okkur nær raunveruleikanum í þessu máli. Það sem hér er sagt í 3. gr. er einmitt til þess að svo verði í framtíðinni um vísitölu framfærslukostnaðar.