22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3058 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

210. mál, vísitala framfærslukostnaðar

Tómas Árnason:

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í umr. er þetta mál alls ekki nýtt af nálinni. Það má rekja meðferð þess allar götur til ársins 1978. Þá var sett á fót, eins og kemur raunar fram í grg., sérstök vísitölunefnd, sem var skipuð fulltrúum launþega, atvinnurekenda og ríkisvalds, til þess að endurskoða viðmiðun launa við vísitölu. Það er einmitt að frumkvæði þeirrar nefndar sem þessi neyslukönnun fór af stað og var gerð með tilliti til þess að gera breytingar á mjög gömlu fyrirkomulagi sem gilti í þessum efnum og gildir enn.

Ég átti þátt í því sem ráðh. í ríkisstj. að setja þetta mál af stað og forsrh. hafði um það frumkvæði. Og ég held að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi gert það einnig. Ég man ekki eftir að hann hafi gert neinar aths., heldur hafi það verið samþykkt shlj. í ríkisstj. þá að gera þetta (RA: Aðstæður eru breyttar.) Já, aðstæður eru breyttar. Hv. þm. Ragnar Arnalds er kominn í stjórnar­andstöðu. En málið hefur ekki breyst. Málið er alveg það sama og það var. Þörfin á því að aðlaga neyslu­grunninn raunveruleikanum er nákvæmlega jafnmikil og var 1978 nema sýnu meiri vegna þess að vitanlega breytast neysluvenjur þjóðarinnar með tímanum. Ég fylgi þessu máli enn þó að hv. þm. Ragnar Arnalds geri það ekki nú, án þess að ég álíti að hann hafi í raun og veru gert nokkra tilraun, vildi ég segja, til að rökstyðja hvers vegna hann gerði það ekki.

Sannleikurinn er sá að samanburður á kjörum skiptir ekki máli vegna þess að það er reikningsdæmi sem alltaf er hægt að reikna út. Það er hægt að gera samanburð á kjörum eins og þau voru í fyrra og eins og þau eru nú alveg án tillits til þess hvernig þessari vinnu vindur fram. Það er reikningsdæmi. Ég held að það hljóti að vera heilbrigð skynsemi sem segir mönnum að vitanlega verðum við að fylgja þessum mælingum á framfærslu­kostnaði í samræmi við þær neysluvenjur sem eru með þjóðinni á hverjum tíma. Þess vegna vil ég aðeins láta það koma fram að ég fylgi þessu máli.

Ef athuguð er skýrsla sem lögð er fram með frv. um neysluvenjurnar, þá kemur í ljós að það hefur orðið umtalsverð breyting á neysluvenjum þjóðarinnar á 15 árum. Hún kemur m.a. fram í því að matvörur vigtuðu 1978–1979 aðeins 21.4%, en 32.4% í neyslugrundvell­inum 15 árum áður. Svo mætti auðvitað rekja um fleiri liði. Það hefur orðið veruleg breyting á og sjálfsagt að reyna að gera mælingu á framfærslukostnaði þannig úr garði að hún sé sem næst raunveruleikanum hverju sinni. Þegar af þeirri ástæðu tel ég sjálfsagt að þetta mál nái fram að ganga.