22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir um Ljósmæðra­skóla Íslands er samið af stjórnskipaðri nefnd sem í áttu sæti auk annarra fulltrúi frá skólanum og Ljósmæðrafé­lagi Íslands. Nefndin skilaði tillögum til ráðh. í jan­úarmánuði 1981 og hafa tillögurnar síðan verið til meðferðar í heilbr.- og trmrn. og menntmrn., en fram komu tillögur um að síðarnefnda rn. tæki að sér yfirstjórn skólans. Menntmrn. sýndi málinu ekki áhuga fyrr en eftir ríkisstjórnarskipti á síðastliðnu vori og var þá ákveðið að skólinn yrði áfram á vegum heilbr.- og trn.

Helstu breytingar sem lagðar eru til frá gildandi lögum eru þær, að gert er ráð fyrir því að skólinn hafi sérstaka skólanefnd í stað þess að lúta stjórnarnefnd ríkisspítalanna. Gert er ráð fyrir sérstökum skólastjóra í stað þess að yfirlæknir fæðingardeildar Landspítalans sinni þeim störfum og kveðið er á um inntökuskilyrði sem eru próf í hjúkrunarfræðum og starfsréttindi sem hjúkrunarfræðingur.

Um ofangreindar breytingar þarf ekki að fjölyrða að öðru leyti en hvað snertir inntökuskilyrði, en með þeim er lögð til grundvallarbreyting á gildandi kerfi. Um þessa breytingu er þetta helst að segja:

Á undanförnum árum hefur orðið sú þróun á sviði heilbrigðismála hér á landi að til undantekninga telst ef fæðingar eiga sér stað utan sjúkrahúsa. Störf ljósmæðra í læknishéruðum landsins hafa því í ríkara mæli færst yfir á svið heilsugæslu, þ.e. eftirlit með verðandi mæðrum, mæðravernd, og eftirlit með móður og barni, ungbarna­- og smábarnavernd, sbr. lög nr. 59/1983, um heilbrigðis­þjónustu, og reglugerð um heilsugæslustöðvar. Því hlýtur að þurfa að miða menntun ljósmæðra við breytta hætti. Til frekari skýringar vil ég benda á hina auknu aðsókn ljósmæðra í hjúkrunarnám, en hún gefur ótví­rætt til kynna að þeim er ljós þörfin fyrir menntun í hjúkrunarfræðum. Með þessu er lögð til sú skipan að ljósmæðranám verði framhaldsnám hjúkrunarfræðinga. Má benda á að ljósmóðurfræði, eins og þau fræði eru nefnd á síðari tímum, eru sérgrein innan hjúkrunarfræð­innar, sbr. gildandi reglur hér á landi. Þessi þróun hefur einnig orðið í þeim nágrannalöndum sem búa við svipað heilsugæslukerfi og við, t.d. í Bretlandi, Noregi, Sví­þjóð og Finnlandi.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara frekari orðum um frv. þetta en legg áherslu á að það atriði sem mestu máli skiptir, þ.e. inntökuskilyrðin í skólann, hafa fengið gaumgæfilega umfjöllun í fullu samráði við fulltrúa skólans og Ljósmæðrafélag Íslands í þeirri nefnd sem kom hér við sögu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.