22.02.1984
Efri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3062 í B-deild Alþingistíðinda. (2666)

204. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mig langar til að gera athugasemdir við þetta frv., einkum við 4. gr. þess. Þar stendur, með leyfi forseta: „Ráðherra skipar skólastjóra og skal hann vera fæðing­arlæknir eða ljósmóðir, sem einnig hefur lokið BS-prófi í hjúkrunarfræði.“

Ég kysi að þessi grein ætti ótvírætt aðeins við ljósmóður. Mér finnst það mjög eðlilegt að ljósmóðir sé skólastjóri Ljósmæðraskóla Íslands en ekki fæðingar­læknir. Nú veit ég að vísu að ekki munu vera margar ljósmæður hér á landi í dag sem hafa jafnframt lokið BS-prófi í hjúkrunarfræðum. En það er von á þó nokkrum bráðlega og í ljósi þess held ég að æskilegt væri að viðhalda þeirri skipan á skólastjórninni sem nú er enn um sinn, þangað til grundvöllur er fyrir því að ljósmæður með slíka menntun geti sótt í einhverjum mæli um þá stöðu sem hér um ræðir.

Einnig langar mig til að lýsa áhyggjum mínum yfir því hvernig sífellt þrengir að hefðbundnum kvennamennta­stéttum. Þetta varðar bæði ljósmæður og hjúkrunar­fræðinga. Það eru sífellt gerðar hærri prófkröfur og kröfur um lengra nám í stéttum sem konur hafa mikið sótt í, og eins og ég segi hef ég svolitlar áhyggjur af því. Hins vegar veit ég ekki, en það kemur væntanlega í ljós í nefnd, hversu nauðsynlegt það er að æskja þeirra skilyrða sem gert er ráð fyrir í þessu frv.

Ég ætla ekki að segja meira um þetta mál að sinni, en vildi aðeins að þessi atriði kæmu fram hér við 1. umr.