22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (2674)

196. mál, lausaskuldir bænda

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vildi að­eins vekja athygli deildarmanna á að á dagskrá þessa fundar, 16. tölul., er annað frv., sem fjallar um breytingu á lausaskuldum launafólks í löng lán, sem samið er með það frv. sem hér á að vísa til nefndar sem fyrirmynd. Ég tel mjög óheppilegt að ef um tvö svo lík mál er að ræða verði um annað fjallað í landbn. og hitt e.t.v. í fjh.- og viðskn. þegar í eðli sínu er um eitt og sama mál að ræða.

Ég sé ekki hvernig hægt er að flytja till. um að 16. málinu á dagskránni verði vísað til landbn. (HBI: Það liggur nú beinast við.) Það verð ég að sjálfsögðu að gera ef þessu máli verður vísað þangað, nema menn fallist á að báðar nefndirnar, fjh.- og viðskn. og landbn., skoði þessi mál sameiginlega.

Ég ítreka þá ósk að formenn nefndanna lýsi því yfir að nefndir þeirra muni fjalla sameiginlega um málið því ég hef ekkert, herra forseti, við það að athuga að landbn. fjalli líka um málefni launafólks.