22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3089 í B-deild Alþingistíðinda. (2685)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í grg. með þessu frv. stendur m.a. með leyfi forseta:

„Ljóst er að einhver lækkun mun verða á tekjum ríkissjóðs við gildistöku frv. þótt sú lækkun verði ekki nákvæmlega mæld á þessu stigi.“

Það er nú ekki að sjá og heyra að þessi væntanlegi tekjumissir valdi ráðamönnum eða þm. stjórnarflokk­anna miklum áhyggjum, enda er hér um að ræða tekjutilfærslu til eftirlætisskjólstæðinga þeirra. Öðruvísi mér áður brá. Í hvert sinn sem hafa komið fram tillögur sem óhjákvæmilega leiða til fjárútláta eða tekjumissis ríkissjóðs, þ.e. tillögur sem fjmrh. eða ríkisstj. eru ekki þóknanlegar, svo sem eins og tillögur um framlög til fæðingarorlofsmála, dagvistunarmála, skólamála og þess háttar, þá er kallað eftir tillögum um sparnað á móti.

Fjmrh. lagði a.m.k. í upphafi ferils síns þunga áherslu á þá stefnu sína að fella ekki niður tekjur nema bent væri á aðrar leiðir í staðinn til tekjuöflunar. Ég benti t.d. á ummæli ráðh. í nóv. s.l. þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að verða við óskum bókaút­gefenda um að fella niður söluskatt af bókum. Ég vitna orðrétt með leyfi forseta í Morgunblaðið 12. nóv. s.l.:

„„Svar mitt er nei. Þetta er stór tekjuliður í fjárlögum og ég hef ekki fundið neina leið til sparnaðar á móti. Þá þykir mér ekki líklegt að það finnist leið til þess að fella þetta niður á næsta ári,“ sagði Albert Guðmundsson fjmrh., er hann var spurður í gær, hvort hann ætlaði að verða við óskum bókaútgefenda um að fella niður söluskatt á bókum.

Albert sagðist hafa kannað málið til hlítar og niður­staðan væri, að engin smuga væri til að fella niður söluskattinn. „Þetta er stór tekjuliður í núverandi fjárlögum, eitthvað um 56 millj. kr. Ef fella á þetta niður verður að finna leið til sparnaðar upp á sömu upphæð, en hún hefur ekki fundist, og ég gef engar vonir um að hún finnist á næsta ári,“ sagði fjmrh.“

Þetta sagði hann þá. Nú er ekki kallað á neinar tillögur til sparnaðar á móti þeim tekjumissi sem augljóslega fylgir þessu frv. ef það verður að lögum, þótt ekki sé hægt að segja fyrir um hvað það verði há upphæð. Engar áhyggjur þegar um er að ræða tekju­missi ríkissjóðs yfir til fyrirtækja sem þegar hafa fengið ómælda aðstoð hjá ríkisstj. við að halda niðri launum fólks svo að neyðarástand er orðið eða blasir við á mörgum heimilum.

Einn ræðumanna, ég held að það hafi verið 1. þm. Vestf., sagði hér áðan að það vekti athygli útlendinga hve eiginfjármunastaða fyrirtækja væri lök. Það vekur áreiðanlega ekki minni athygli útlendinga að Ísland skuli vera láglaunasvæði.

Ég þarf annars ekki að lýsa í löngu máli afstöðu Kvennalistans til þessa frv. Sú afstaða kemur fram í nál. minni hluta fjh.- og viðskn. Ed. Ég vil aðeins spyrja fjmrh. hvernig ríkisstj. hyggist bæta ríkissjóði þann tekjumissi sem boðaður er með þessu frv.