22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2687)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Í aths. við þetta lagafrv. segir svo, með leyfi forseta:

„Í stefnuyfirlýsingu ríkisstj. er gefið fyrirheit um að gerðar verði breytingar á skattalögum í því skyni að örva fjárfestingu og eigin fjármyndun í atvinnulífinu, en öflugt atvinnulíf er forsenda bættra lífskjara í landinu.“

Ég býst við að menn hafi kannske ekki í annan tíma horft eins mikið til leiða til að bæta lífskjör í landinu eftir það sem hefur verið að gerast hér síðasta sólar­hringinn, þegar verkalýðshreyfingin og atvinnurekend­ur hafa tekið höndum saman um að staðfesta fátæktar­stigið í landinu. Það hefur verið skrifað undir það opinberlega að laun í landinu hafi verið allt of há þangað til í maí s.l. og að nú sé búið að gera leiðréttingu. Og menn telja sig ekkert þurfa að sækja aftur fyrir sig í þeim efnum.

Hvað er þá til ráða og hvað ætla menn að gera til þess að bæta lífskjör í landinu á næstu mánuðum, næstu misserum, til þess að reyna að lyfta okkur upp af þeirri eymd sem ég tel að við séum komin í þegar við þurfum að beita þeim aðferðum að þeir sem lítið hafa neyðist til að láta af hendi kannske 300 millj. til þeirra sem alveg við hungurmörkin eru og að það eru taldar úrlausnir í efnahagsmálum?

Menn spyrja sig: Er þetta frv. dæmi um þær aðgerðir sem koma skulu í því skyni að bæta lífskjör í landinu? Kannske er þetta það eina sem ríkisstj. hefur lagt fram í þessum efnum á Alþingi. Ég man ekki eftir öðrum plöggum. Þá hlýtur maður að segja við sjálfan sig að ef ekkert er á prjónunum sem er fljótvirkara til að bæta lífskjör í landinu þá er sannarlega ástæða til ótta, vegna þess að eina ferðina enn á að beita á innlendan fjármunamarkað, en það hefur mjög verið í tísku undanfarna daga.

Í hv. fjh.- og viðskn. höfum við haft lánsfjármál ríkisstj. til athugunar. Þar er talað um að útvega u.þ.b. 1 000 millj. í sjávarútveg, það þarf að útvega 150–200 millj. í landbúnað, það vantar 200 millj. í gat sem varð eftir sjúklingaskattinn, það vantar líklega 500–600 millj. í húsnæðismálin. Og þessu á að bjarga, að því er manni skilst, á innlendum fjármunamarkaði með gylli­boðum um víxla og verðbréf og annað sem áður hefur ekki sést. Ég held að það sé komin ofbeit á innlendan fjármunamarkað og ég trúi því ekki að í gegnum þessar fyrirhuguðu skattalagabreytingar skili sér þær aðgerðir sem muni leiða til þeirra bóta á lífskjörum íslenskra launþega sem eru óumflýjanlegar og hljóta að þurfa að verða með skjótum hætti eftir það sem menn hafa séð hér síðustu dagana.

Mig langar til að spyrja, af því að komist er að orði í aths. við þetta lagafrv. eins og ég lýsti í upphafi, hvort þetta sé ein af þeim aðferðum sem ríkisstj. í raun og veru reikni með að muni bæta lífskjör í landinu á næstu misserum.