22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3092 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Það undrar mig að ekki séu fleiri á mælendaskrá. Ég trúi því ekki að hv. þm. Þorsteinn Pálsson svari ekki þeim spurningum sem til hans var beint hér. Það væri satt að segja ærið sérkennilegur atburður í þingsögunni ef formaður stærsta stjórnarflokksins, sem hefði gert daginn áður samninga við aðila vinnumarkaðarins, neitaði að svara hér á þingi nema með þögn sinni spurningum um það efni. Því held ég herra forseti, að þessi umr. hljóti að halda áfram. Ég á a.m.k. eftir að nota rétt minn til að tala lengur. Þess vegna reikna ég með því að á kvöldfundi, sem hefst kl 9, muni þessi umr. halda áfram.

En ég vil vekja athygli á því, að þar eð ég vænti þess að vél Flugleiða frá London sé komin til landsins er hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason, jafnelskulegur, virðu­legur og skemmtilegur og hann er nú, ekki lengur fjmrh., heldur er hinn raunverulegi fjmrh mættur í landinu og hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason, sem hér hefur talað fyrir málinu í embætti fjmrh., hefur ekki lengur umboð til að fara með málið. Ég tel þess vegna einsýnt í samræmi við almenna þingvenju að þegar þingfundur hefst hér kl. 9 til að ræða áfram um þetta mál, þá sé flm. frv., hæstv. fjmrh. Albert Guðmunds­son, mættur á staðinn. Það getur enginn annar ráðh. talað fyrir hans hönd í þessum umr. (Gripið fram í: Það er betra að hafa Matthías líka.) Ég leggst ekkert gegn því að hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason sé hér líka, bæði sem ráðh. og jafnvel í gegnum annan mann sem þm. En ég vil beina þeim tilmælum til hæstv. forseta að hann hlutist til um það í matarhléi að hinn raunverulegi fjmrh. landsins hafi hann þá ekki sagt af sér, verði kominn hér í umr. kl 9 skv. eðlilegum þingvenjum, þar eð hann er væntanlega kominn til landsins. - [Fund­arhlé.]