22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3092 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Þess var farið á leit, ef það mætti greiða fyrir þingstörfum að öðru leyti, að umr. þær um kjaramál sem hafnar voru hér í dag og ég hygg að hv. 1. þm. Suðurl. hafi hafið fari fram á morgun, en dagskrármálið sem hér var á dagskrá fyrir kvöldmatinn verði rætt áfram. Við Alþb.-menn, sem höfum tekið þátt í þessum umr., erum fyrir okkar leyti tilbúnir til að standa að slíku samkomulagi, enda fari fram umr. um kjaramálin utan dagskrár á morgun á fundi í Sþ.

Ég kvaddi mér núna hljóðs til að staðfesta það samkomulag um vinnubrögð sem við fyrir okkar leyti værum tilbúnir til að standa að. En í öðru lagi stóð ég hér upp til að minna á að í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins var enn þá einu sinni greint frá því að hæstv. forsrh. landsins hefði haft í hótunum við verkalýðshreyfinguna um það, að ef ekki hvert einasta verkalýðsfélag sam­þykkti svokallaðan kjarasamning, sem var undirritaður í gær af forseta Alþýðusambandsins og framkvæmda­stjóra Vinnuveitendasambandsins, þá féllu niður svo­kallaðar félagslegar ráðstafanir. Þessi hótun forsrh., endurtekin núna í kvöld, er algerlega einstæð og öll hin ósvífnasta. Maklegast væri auðvitað að kalla hæstv. ráðh. hingað þegar í stað til að standa fyrir máli sínu, eftir þetta blaður sem frá honum hefur komið, svo að ljóst verði hvað hann á við.

Nú stendur þannig á að eitt stærsta verkalýðsfélag landsins, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, hefur hafið félagsfund til að fjalla um þessa svokölluðu kjarasamn­inga. Það er auðvitað hrikalegt að ætla nokkru verka­lýðsfélagi að fjalla um kjarasamninga undir slíkum ummælum forsrh. landsins. Því verður hins vegar ekki breytt úr þessu og vonandi fæst úr því skorið á morgun hvað ríkisstj. ætlar að ganga langt í þessu efni og hvað hæstv. forsrh. á við með þeim hraklegu hótunum sem hann hefur haft í frammi utan þessara sala.

Ég vænti þess því að umr. á morgun verði til þess að greiða fyrir því að ljóst verði hvernig ríkisstj. hyggst standa að þessum málum, en síðustu hótanir hæstv. forsrh. komu fram í kvöldfréttum rétt áðan.