22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3094 í B-deild Alþingistíðinda. (2692)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér kemur satt að segja nokkuð á óvart sá háttur sem er á hafður af hæstv. ráðh. í núv. ríkisstj. í sambandi við stjfrv. sem tekin eru hér fyrir og rædd, að það skuli aftur og aftur gerast að stjórnarandstaðan ber fram fsp. við 1. umr. málsins um ýmis tæknileg útfærsluatriði viðkomandi frv., en hæstv. ráðh. sjá ekki ástæðu til að standa upp og sýna stjórnarandstöðunni þann sóma að gera tilraun til að svara fsp. eða þá a.m.k. að gera stjórnarandstöðunni grein fyrir því og þingheimi að þeir viti ekki svarið og þeir muni reyna að afla þess svo að n. sú sem fjallar um málið geti fengið upplýsingar um það. Ég hafði lagt þrjár fsp. fyrir hæstv, forfallafjmrh. sem verður til miðnættis, að mér er tjáð, í því starfi fyrir atbeina stjórnarandstöðunnar m.a., og þær fsp. ætla ég að endurtaka.

Ég spurði í fyrsta lagi að því, hvernig stæði á þeim tölum sem fram koma í d-lið 4. gr. frv. í sambandi við útleigu og fyrningargrunn íbúðarhúsnæðis sem telst ekki hluti af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Í þessari grein eru valdar tölurnar annars vegar 4 millj. og hins vegar 8 millj., ef um hjón er að ræða. Ég spurði hæstv. ráðh.: Hvað veldur því að þessar tölur voru valdar en ekki einhverjar aðrar? Það eru engar skýring­ar á því í frv. og engar skýringar á því hafa komið fram heldur í grg. frv.

Í öðru lagi spurði ég: Hvernig á að fara með húsnæðislán varðandi það húsnæði sem fyrnanlegt verð­ur eftir frv. þessu, ef að lögum verður? Verður hugsan­legt að lána t.d. húsnæðissamvinnufélagi 80% úr Byggingarsjóði verkamanna og gefa sama húsnæðis­samvinnufélagi, sem skrifað verður fyrir viðkomandi húsnæði, kost á að fyrna íbúðarhúsið eins og hver önnur atvinnutæki í samræmi við önnur ákvæði þessara laga og skattalaganna? Það væru býsna mikil tíðindi fyrir t.d. húsnæðissamvinnufélagið Búseta, sem var verið að segja frá í fréttum áðan að hefði safnað til sín 14–1500 manns, ef svo væri að fyrirtækinu sem slíku yrði gefinn kostur á að fyrna húsnæði með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir að gildi um almennar fyrningar atvinnu­rekstrar.

Þessar spurningar lagði ég fyrir hæstv. ráðh. og ég óska eftir að hann svari þeim eða geri grein fyrir því, ef hann ekki ræður við það, að hann muni útvega upplýs­ingar um málið í þeirri þingnefnd sem um það mun fjalla.

Ég fór fram á það við hæstv. ráðh. í þriðja lagi, og ég endurtek þá spurningu, að hann upplýsi þingheim um hver hann telur að sé líklegur tekjumissir ríkissjóðs á fyrsta ári ef frv. þetta verður að lögum. Eru það 10 millj., eru það 20, 30 eða 50? Hvaða tölur eru menn að tala um? Það kemur fram í grg. frv. og í framsöguræðu hæstv. ráðh., sem var skilmerkileg í alla staði, að vafalaust verði nokkur tekjumissir fyrir ríkissjóð í fyrstu, en það sé ekki á vísan að róa með hver sú upphæð verði. Nú hlýtur ríkisstj. hins vegar að hafa gert sér grein fyrir því nokkurn veginn hve há sú upphæð gæti verið sem hér er um að ræða og á að fara að gefa ákveðnum tegundum fyrirtækja í landinu. Þess vegna endurtek ég þessa spurningu mína til hæstv. heilbrmrh.

Herra forseti. Hér hafa fari fram allfróðlegar umr. að öðru leyti um frv. þetta, sem væri full ástæða til að fara rækilega út í og tíunda nokkuð vandlega og halda áfram nokkuð fram eftir kvöldi. Ég ætla ekki að tefja umr., en það er ýmislegt sem fram hefur komið, sem gefur samt tilefni til umr. og skoðanaskipta.

Ég hygg að segja megi að sú forusta sem nú er í Sjálfstfl. sé fyrsta forustutegundin sem kalla má „hug­sjónaíhald“ í þessu landi. Það eru menn sem á stutt­buxnaárum sínum í Heimdalli hafa tekið ofstækisfulla trú á ákveðnar kennisetningar frjálshyggjunnar. Þessir menn eru t.d. býsna ólíkir núv. hæstv. heilbr.- og trmrh., sem er vaxinn upp úr vestfirsku andrúmslofti og atvinnulífi (Gripið fram í: Og vel vaxinn.) Hér er um að ræða skólabókarlærða menn sem hafa tekið trú á hina miklu ritningu frjálshyggjunnar, og þegar sá tónn er sleginn hér í umr. sem snertir einhver ákveðin atriði þessara trúarsetninga færist yfir ásjónu þessara manna ámóta svipur og menn þekkja af kvikmyndum er trúboðar hefja augu sín til himins og segja: Sjá, ég boða þér mikinn fögnuð. Hér hef ég lausn á öllum veraldar­innar vandamálum.

Ég get ekki neitað því að mér fannst hv. 1. þm. Vestf., ungur maður og mætur, sem hér talaði fyrr, vera haldinn þessari trú með býsna afgerandi hætti og hið sama á við, því miður, um núverandi formann Sjálfstfl. Núverandi formaður Sjálfstfl. hefur tekið þessa trú og hann tekur trú í þessum efnum fram yfir reynsluna, fram yfir staðreyndir umhverfisins. Fyrrverandi for­menn Sjálfstfl., eins og t.d. Ólafur Thors, voru ekki mikið að láta kreddurnar þvælast fyrir sér. Þeir létu staðreyndir umhverfisins ráða úrslitum um sínar póli­tísku ákvarðanir. En þessir trúboðar nýju forustunnar í Sjálfstfl. taka trúna og kredduna alltaf fram yfir niður­stöður umhverfisins ef þetta tvennt stangast á.

Þannig er það t.d. með þessa hv. þm., 1. þm. Suðurl. og 1. þm. Vestf. Þegar þeir eru að tala um þetta óskabarn sitt, frv. sem hér liggur fyrir, er þeirra kenning sú, að þetta frv. hljóti í verki að hafa í för með sér stórkostlegan sparnað, sterkari eiginfjárstöðu fyrir­tækjanna og þar með sterkara atvinnulíf. Þá vil ég spyrja þessa trúboða þeirrar spurningar sem kann að koma við grundvöllinn í þeirra kennisetningum: Telja þeir að þetta frv., ef að lögum verður, hafi eitt út af fyrir sig, í för með sér fjármunasköpun, verðmæta­sköpun í þjóðfélaginu? Hefur þetta frv. í raun í för með sér að fyrirtækin hafi betra svigrúm að öllu leyti, einungis af þessari ástæðu hér, eða er það af einhverri annarri ástæðu?

Ætli það sé ekki af þeirri ástæðu að menn bindi vonir við að staða fyrirtækjanna verði þeim mun sterkari til að halda hinum ýmsu kostnaðarþáttum sínum niðri, þ. á m. kaupinu? Samþykkt svona frv. ein út af fyrir sig mundi ekki sjálfkrafa draga úr launakostnaði fyrir­tækja, ekki sjálfkrafa draga úr hráefniskostnaði fyrir­tækja, ekki sjálfkrafa draga úr vaxtakostnaði fyrir­tækja. Þannig er auðvitað með öllu fráleitt að í þessu sem slíku felist nokkur lausn á neinum vandamálum. Það er þess vegna rétt, sem hv. 4. landsk. þm. sagði hér fyrr í umr. í dag, að ef þarna eru einu lausnir núv. ríkisstj. á atvinnumálum eða ef þarna er eina nýsköpun­arátak núv. ríkisstj. í atvinnumálum, þá er ekki mikils þaðan að vænta. Ég er algerlega sannfærður um að jafnvel þó að björtustu vonir þessara kreddutrúar­manna yrðu að veruleika mundi það ekki skipta sköpum í atvinnulífinu hér á næstunni. Það er þannig hjá þessari ríkisstj., þó hún sé búin að keyra kaupið niður um 30%, að það er kyrkingur í atvinnulífinu, eins og hér var lýst af talsmönnum Sjálfstfl. fyrr í dag. Þetta frv. eins og það lítur hér út mun ekki leysa úr þeim vanda.

Partur af þessari kennisetningu hv. þm. er sú, að eiginfjárstaða fyrirtækja á Íslandi sé sérstaklega slæm og þeir segja að það veki mikla athygli útlendinga að hún sé mjög slæm. Það væri fróðlegt að vita hverjir það eru, hvort að það væri Hannes Hólmsteinn, sem hefur fyrr borið á góma manna í dag, sem hefur kynnt þessi mál fyrir útlendingum um leið og hann sagði þeim frá ömmu sinni og hvernig honum gengi að selja hana. (Gripið fram í.) Vandi hans hafði falist í því að hann hafði ekki þinglýst eignarhald á kerlingunni, svo ég noti orð hæstv. ráðh.

Eiginfjárstaða fyrirtækja hér í þessu landi er talin mjög léleg og þeir segja, íhaldsmenn, kredduleiðtogar íhaldsins, í kvöld og dag að þetta hafi vakið mikla athygli útlendinga. Væri fróðlegt að fá upplýst hvaða útlendingar Það eru sem eru sérstaklega að taka eftir þessu máli. Útlendingar hafa hins vegar verið látnir vita að því núna að undanförnu að vinnuafl sé mjög ódýrt á Íslandi. Það var sendur út auglýsingabæklingur frá Sverri Hermannssyni um það út um heiminn að vinnu­laun væru svo sem ekki neitt neitt á Íslandi og væri allt í lagi fyrir fyrirtæki að koma hingað þess vegna. Hins vegar er þetta með eiginfjárstöðuna mál sem ég kannast ekki við að hafi verið kynnt sérstaklega fyrir útlending­um. — En hvað þýðir það þegar talsmenn kreddu­íhaldsins eru að biðja um betri eiginfjárstöðu? Þeir eru auðvitað að biðja um sterkari völd fjármagnsins í landinu. Auðvitað hafa einkafyrirtæki í landinu verið óttarlegar druslur. Það verður að segja það alveg eins og er að það er leitun á sæmilegu einkafyrirtæki í landinu sem stendur þokkalega í lappirnar, er nokkuð vel rekið og ber snyrtilega ábyrgð á sínum rekstri. Yfirleitt hefur þetta verið meira og minna hangandi í pilsinu á ríkinu. Þetta hefur verið kallaður pilsfaldakapítalismi. Auðvitað eru þeir ungu sjálfstæðis­menn sem eru núna að beita sér fyrir þessu frv. að reyna að breyta þessu og styrkja kapítalismann hér í landinu þannig að hann þurfti ekki alltaf að hanga í pilsinu á stóru mömmu, þ.e. ríkinu. En auðvitað eru þessir menn, þessir talsmenn Sjálfstfl., þessir kreddumenn, ekki að heimta neitt annað en að fjármagnið verði sterkara í viðureigninni við fólkið en verið hefur. Það er sú grundvallarkrafa sem þessir ungu menn eru að setja fram. Og ég er sannfærður um að í íslenska þjóðfélaginu er slík ofuráhersla á eiginfjárstöðu fyrirtækjanna og sterkara fjármagn og samkeppnisstöðu fyrirtækjanna hættuleg og sérstaklega dýr einmitt á Íslandi. Ísland er fámennt land og við þurfum á því að halda að menn standi saman og fari vel með það sem hér er skapað, þau verðmæti sem hér verða til. Í vinnubrögðum kapítalismans, gróðaþjóðfélagsins, sem þessir piltar eru að reyna að innleiða hér felst sóun, í því þjóðfélagi felst sóun vegna þess að það er sundurvirkt og það eyðir og brennir verðmæti. Peningar hafa aldrei skapað verð­mæti. Það er fólk sem skapar verðmæti.

Partur af þessum trúarbrögðum hv. þm. Sjálfstfl. er sá, að Alþb. hafi alveg sérstakan áhuga á að þjóðnýta öll fyrirtæki, gera öll fyrirtæki að ríkisfyrirtækjum, og það er alltaf sagt í leiðinni, svona eins og til að sannfæra sjálfan sig, um leið og lögð er á það áhersla að þeir sjálfir vilji frelsið, að hinir, andstæðingarnir, andskot­arnir, vilji að ríkið reki allt draslið eins og það leggur sig, yfirtaki allt atvinnulíf hér í landinu, taki sjoppurnar, helst með valdaráni. Þetta gera þeir að sumu leyti til að hvítþvo sjálfa sig, gera óvininn sem svakalegastan til að gera sjálfa sig sem dýrlegasta. Auðvitað er það ekki þannig að Alþb. sé með einhverjar kröfur um að allsherjar ríkisrekstur sé lausn á öllum vandamálum í þjóðfélaginu. Alþb. er ekki ríkisrekstrarflokkur númer eitt. (FrS: Þú segir ekki.) Hv. 2. þm. Reykv. er núna risinn og kemur í salinn í fyrsta sinn í dag og er boðinn velkominn. Það er rétt að ég varpi á hann nokkrum orðum. (FrS: Ég er búinn að vera hérna.) Nei, þú hefur nú ekki sést fyrr. (FrS: Þá sér hv. þm. illa.) Ábyggilega betur en sá sem mælir við mig þessa stundina, sýnist mér. — Ég held að það sé rétt að ég ræði aðeins við hv.

2. þm. Reykv. af því að þetta kemur honum svo mjög á óvart með afstöðu Alþb.

Alþb. er flokkur sem leggur fyrst og fremst áherslu á lýðræðislega eignaraðild og lýðræðislegt eignarhald fólksins sjálfs og hafnar þannig eignarhaldi fjármagns­ins. Alþb. er þess vegna ekki ríkisrekstrarflokkur, þó að þeir talsmenn íhaldsins kjósi að hafa hlutina þannig, það er mikill misskilningur. Og það er í rauninni mjög hættulegt fyrir forustumenn Sjálfstfl., eins og hv. 2. þm. Reykv., að gera tilraun til þess svona oft að ljúga því að sjálfum sér að Alþb., sá flokkur sem það er, hafi þessi sjónarmið. Það gæti endað með því, ef þeir segja þetta nógu oft, að þeir fari að trúa því sjálfir. Ég held nefnilega að í raun sé þetta ómerkilegur áróðursfrasi sem þeir nota fyrst og fremst til að bjarga sjálfum sér á hundasundi frá sínu eigin rökþrotabúi. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að á Íslandi er ágreiningurinn ekki annars vegar um hagnað og hins vegar um ríkisrekstur. Ágreiningurinn er annars vegar um vald fjármagnsins og hins vegar um lýðræðislegt vald fólksins. Það er grundvallarágreiningurinn í landinu og hann er á milli Sjálfstfl. og Alþb. Framsfl. sem ku vera í ríkisstjórn um þessar mundir, og þaðan er nú yfirleitt aldrei neinn maður í þessum sal nema þá hæstv. forseti, er þarna einhver staðar á milli að þvælast í einskismannslandi og það veit yfirleitt aldrei neinn hvar honum skýtur upp. Það getur verið hvar sem er því hann hefur engar grundvallarviðmiðanir. Hann kemur upp þar sem honum sýnist það heppilegast á hverjum tíma, er þannig rakinn hentistefnuflokkur og ræður engum úrslitum í þessum málum frekar en öðrum. Hann er meðaltal af umhverfi sínu, eins og ég hef áður sagt, og ekkert annað.

Hv. 1. þm. Suðurl. fór að ræða um það hér fyrr í dag, enn þá einu sinni, að ríkisstj. hefði gripið til stórkost­legra félagslegra ráðstafana. Þetta sagði hann í tilefni af ummælum mínum um að þetta frv. hefði í för með sér skattalækkun á fyrirtækjum á sama tíma og hæstv. heilbr.- og trmrh. er að leggja skatta á sjúklingana. Það var verið að tíunda hér stórkostlega þau afrek í félags­legum umbótum sem núv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Þetta er eitt af þeim málum, herra forseti, sem verður að ræða hér mjög rækilega á morgun, þessar svokölluðu félagslegu úrbætur núv. ríkisstj. Hér er í rauninni um að ræða hundsbætur fyrir þá hrikalegu kjaraskerðingu sem hefur átt sér stað. Það er hins vegar mál sem við munum ræða nánar á morgun. Hv. 1. þm. Suðurl. lauk máli með því hér í kvöld að segja sem svo: Ég trúi og treysti því að þetta frv., ef að lögum verður, muni blása nýju lífi í atvinnureksturinn á Íslandi. Þar með var komið að því grundvallaratriði sem ég vakti athygli á í upphafi máls míns. Hér er komið að trúnaðartrausti, hér er komið að trú, hér er komið að kreddu, ofstækisfullum viðhorfum sem eru í rauninni látin hafa allan forgang og staðreyndir umhverfisins látnar víkja. Þannig er nýja hugsjónaíhaldið farið að búa til frv. um frjálshyggjuna sem birtast þessa dagana og það fyrsta er hér á dagskrá í Nd. í dag. Þetta frv. markar vatnaskil, að mínu mati, í sögu Sjálfstfl. vegna þess að þetta mun ekki laga neitt fyrir atvinnurekstrinum þegar fram í sækir, mun í rauninni ekki breyta neinu um fjölgun starfa eða atvinnutækifæra í landinu. Hér er aðeins verið að uppfylla tilteknar kröfur ákveðinna trúarbragða, ákveðinnar kreddu, ákveðins ofstækis í innsta armi Sjálfstfl., sem fyrst nú hefur fengið fram vilja sinn innan Sjálfstfl., sem áður var litið á sem þröngan sérvitringa­hóp, en núna er kominn til valda meðan talsmönnum staðreyndanna og hinnar raunverulegu þróunar íslensks atvinnulífs hefur verið vikið til hliðar.