22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3098 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra for­seti. Fsp. sem hv. 3. þm. Reykv. hefur borið fram vil ég leitast við að svara. Fyrsta fsp. varðar d-lið 4. gr., þ.e. þá upphæð sem kemur inn í d-liðinn: „Útleiga manns á íbúðarhúsnæði telst ekki til atvinnurekstrar eða sjálf­stæðrar starfsemi í þessu sambandi nema því aðeins að heildarfyrningargrunnur slíks húsnæðis í eigu hans í árslok nemi 4 millj. eða meiru, ef um einstakling er að ræða, en 8 millj., ef hjón, sbr. 63. gr., eiga í hlut.“

Ég spurðist fyrir um það áður en ég mælti fyrir frv. hvernig þessar tölur væru til komnar og mér var sagt að þessar tölur hefðu verið settar fram sem hæfilegt mat í þessum tilgangi. Nú má varðandi þessar tölur sem allar aðrar, sem eru byggðar á mati þeirra manna sem sömdu þetta frv. og þeirri efnismeðferð sem frv. fékk í fjmrn., deila um hvort þessi tala sé réttari en önnur. En ég hef ekki annað svar við þessari fsp.

Þá spurði hv. þm. um fyrningar húsnæðis til atvinnu­rekstrar, hver ætlunin væri varðandi fyrningar þess. Það þarf að hafa í huga í sambandi við það húsnæði sem ég gerði ítarlega að umræðuefni og er notað til atvinnu­rekstrar, að yfirleitt er það byggt á allt öðrum lánum og með allt öðrum hætti en húsnæðislánum, t.d. verbúðir og fleira, og því hlýtur þar að vera tekið tillit til lána hverju sinni. Það hlýtur að verða að fá frekari umfjöll­un í nefnd. Ef um slíkt atvinnurekstrarhúsnæði er að ræða frá Húsnæðismálastofnun ríkisins þá hlýtur að mínu mati að verða tekið tillit til þess. Hitt er allt annað mál með það húsnæði sem ég gerði fyrst og fremst að umræðuefni í dag.

Um efni þriðju spurningarinnar: Hver er líklegur tekjumissir ríkissjóðs ef þetta frv. verður að lögum? fjallaði ég einnig ítarlega í framsöguræðu minni í dag, að því væri ekki hægt að svara að öðru leyti en því, að þegar til lengri tíma lætur væri hér ekki um tekjumissi að ræða, en hann væri fyrst í stað nokkur. Svar fékkst ekki við því og taldir á því margir tæknilegir annmarkar að reikna þann tekjumissi út frá ári til árs. En það sem á bak við þennan þátt frv. liggur er það að hér er verið að ýta undir, auka og styrkja undirstöðu atvinnulífs, undir­stöðu fyrirtækja. Og mér finnst það algerlega rangt að farið sé að tala um að með því sé verið að styrkja sterkustu fyrirtækin í landinu og renna stoðum undir þeirra rekstur. Það er fyrst og fremst verið að stefna að því að renna styrkari stoðum undir íslenskan atvinnurekstur, og þá ekki síður þann sem er í smærri mæli en í þeim stærri.

Þegar við lítum á stærsta og veigamesta atvinnurekst­urinn, sem þetta þjóðfélag byggir að verulegu leyti afkomu sína á, sjávarútveginn, þá er staða fyrirtækj­anna með þeim hætti, að þar eru bullandi vanskil upp á örugglega yfir 2000 millj. kr. í stofnfjársjóðum, í bönkum, í skuldum við olíufélögin. Þetta gerir það að verkum að þessi fyrirtæki eru veikari, þessi fyrirtæki eiga verra með að taka á sig áföll eins og þau sem núna dynja yfir, minnkandi veiði, minnkandi aflabrögð á hvert fyrirtæki, á hvert skip, þau hafa minna umhendis og eru veikari að axla þessar byrðar.

Ég tel að það hefði gjarnan mátt vera miklu fyrr búið að samþykkja frv. með líkum hætti og þetta til þess að gera atvinnureksturinn sterkari og undirstöður atvinn­unnar veigameiri fyrir þjóðfélagið. Því að það hlýtur að hafa það í för með sér að lífsafkoma þess fólks sem vinnur við þennan atvinnurekstur er um leið traustari. Eftir því sem atvinnureksturinn er veikari eru afkomu­skilyrði allra þeirra sem við slíkan atvinnurekstur vinna að sama skapi veikari. Þess vegna fer hér saman hagur atvinnufyrirtækja og hagur þeirra sem hjá atvinnufyrir­tækjunum vinna.

Mér er alveg sama um alla kreddur og kennisetning­ar. Ég hef alist upp við það að vinna fyrir mér frá blautu barnsbeini og ég hef líka alist upp við það að sjá veigalítil fyrirtæki sem ekki hafa mátt við neinu. Og þegar þau hafa kiknað undan ábyrgð og skuldabyrði, þá hefur það leitt af sér atvinnuleysi og versnandi efnahag alls þorra verkafólks, sjómanna og allra þeirra sem eiga líf sitt og afkomu undir slíkum fyrirtækjum. Þess vegna er það trú mín að réttara sé að fara út í þessar breytingar. En hvort þetta er nóg er önnur saga.

Ég tel að með breytingum á fyrningum, með breyt­ingum á varasjóði fyrirtækja eigum við að stefna að því að fyrirtækin í landinu, atvinnureksturinn í landinu hafi traustari stoðir að byggja tilveru sína á. Hann geti tekið að sér að fjármagna sig meira sjálfur en þurfi ekki alltaf að sækja allt í opinbera sjóði. Það dregur úr þeirri samkeppni sem hv. síðasti ræðumaður lýsti hér í dag, samkeppninni eftir fjármagninu, ef fyrirtækin verða sterkari og geta lagt meira af mörkum. Það gerir líka það að verkum, að fyrirtækin verða alvörufyrirtæki en byggja ekki á því að samfélagið eigi úr sjóðum sínum að lána atvinnurekstrinum að fullu og öllu eða því sem næst. Þess vegna tel ég að hér sé um spor að ræða í rétta átt. Menn mega engan veginn hlaupa yfir það hver er viðleitnin á bak við þetta. En það er heldur ekki minnst á það sem snýr að einstaklingnum í þessu frv. Það hafa menn hlaupið alveg yfir að nefna. Ég tel það þó ekki síður mikilvægt fyrir heilbrigða atvinnustarfsemi og efnahagsstarfsemi.

Ég vil ekki taka undir það að hér jaðri við að fólk sé farið að svelta, eins og ræðumaður eins nýja flokksins sagði hér í kvöld, að fólk hafi ekki til hnífs eða skeiðar. Sem betur fer búum við í það góðu þjóðfélagi að allir hafa til hnífs og skeiðar en það eru ýmsir sem geta ekki veitt sér allt. (Gripið fram í: Veit ráðh. hvað margir hafa 8 þús. kr. á mánuði?) Veist þú nokkuð um það hvað margir hafa 8 þús. kr. á mánuði? Þú hefur ekki hugmynd um það. Þú veltir þér í peningunum sjálfur. (ÓRG: Það eru 5 þús. manns.) Vertu ekki með svona dellu og vitleysu. Hvaðan kemur það fólk sem fyllir veitingahúsin á hverju föstudags- og laugardagskvöldi? Er það vitnisburður um þjóðfélag sem er að fara á höfuðið? Og hverjir skildu svona við atvinnureksturinn, hverjir skildu svona við þetta þjóðfélag? Það voru þessir piltar hérna sem hlupu frá og þorðu ekki í ríkisstj. (Gripið fram í.) Þetta vita allir. Vertu ekki svona hræddur, Ólafur Ragnar Grímsson. Þú ert logandi hræddur. Þú skildir eftir sviðna jörð þegar þú fórst. Þið tókuð ekki þátt í stjórnarmyndun. Af hverju ekki? Þið þorðuð ekki. Af hverju talaði Svavar Gestsson um neyðaráætlun þegar hann var að skilja við? Af hverju þorði hann ekki í stjórn? (SvG: Ég hef ekki skilið við.) Hann lagði á flótta. Jú, þú skildir við stjórn landsins, þú hljópst frá, þú þorðir ekki að vera lengur. (Gripið fram í.) Þú varst búinn að haga þér með þeim hætti að þú þorðir ekki að vera lengur og þá hugsaðirðu: Ja, nú er best að fela sig um hríð. Ég hljóp á mig þegar ég talaði um neyðaráætlun fyrir þessa þjóð.

Eftir að hv. þm. var búinn að koma þjóðinni í þessa úlfakreppu og þegar búið er að rétta við, þegar búið er að sigrast á verðbólgunni, koma henni niður, þá muna þessir menn ekkert eftir þessu. Þeir bara setja fyrir augun alveg eins og hesturinn, þeir horfa bara beint fram, beint af augum, horfa ekki til hliðar af því að þeir þorðu ekki að standa frammi fyrir því að berjast, fyrir því að bæta það sem miður hafði farið. Flest af því sem miður hefur farið er af mannavöldum. Hins vegar er líka nokkuð sem er óviðráðanlegt og hvorki þessum mönnum eða öðrum verður kennt um. (Gripið fram í.) Nei, staða ríkissjóðs er af manna völdum. Hún er eitt af því sem tekið var við í rúst eftir menn sem ekkert vissu hvað þeir voru að gera og hlupu frá og þorðu svo ekki að standa við sitt. Það er alveg merkilegt að þó að þjóðin vilji ekki suma menn inn á þing og felli þá, þá ganga þessir draugar aftur: (Gripið fram í.) Er nú ekki hægt að halda eitthvað aftur af þessum hv. þm.? Ósköp er maðurinn eitthvað taugatrekktur og aumur og villtur og trylltur. Eitthvað hlýtur hann að skammast sín eftir allt saman. Þessi maður kemur hér og sperrir sig eins og montinn hani í ræðustólnum daginn út og daginn inn, hefur ekkert til málanna að leggja nema tæta allt niður í þessu þjóðfélagi og reyna að gera allt ómögulegt. Hverjir bera ábyrgðina á hvernig allt var komið? Það eru mennirnir sem þorðu ekki að taka þátt í ríkisstj., mennirnir sem stungu hausnum í steininn eins og strúturinn stingur hausnum í sandinn þegar hann verður hræddur.