22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. tók þannig til orða um leið og hann... (Forseti: Hann gerir stutta athugasemd.) Gerir stutta athugasemd? Já, hef ég talað tvisvar. (Forseti: Já.) Já, þá geri ég smáathuga­semd. (Forseti: Eins og hv. þm. veit hefur hann talað tvisvar, en hann hefur rétt til að gera stutta athugasemd.) Já, já, ég skal verða stuttorður, hæstv. forseti.

Hæstv. ráðh. tók þannig til orða þegar hann gekk úr ræðustólnum áðan að sumir menn hefðu stungið hausnum í steininn — í steininn sagði hæstv. ráðh. og mismælti sig þannig. Mér fannst að ráðh. væri nákvæm­lega á sig kominn eins og hann hefði stungið hausnum í stein, barið höfðinu við stein því að hann fæst aldrei til að horfa á veruleikann og ræða um hlutina eins og þeir liggja fyrir í núverandi hæstv. ríkisstj. sem hann kom til valda undir forustu Framsfl. Þegar hæstv. ráðh, kemst í kastþröng og tryllist af bræði hér í ræðustólnum aftur og aftur, þá öskrar hann: Sviðin jörð, sviðin jörð sem þið skilduð við. Þessi hæstv. ráðh. gerir sér víst ekki grein fyrir því hvernig hann er búinn að leika kaupmátt launa, að hann er búinn að flytja milljarða til í þjóðfélaginu frá launafólki og almenningi.

Þegar hæstv. ráðh. er spurður um lífskjörin í landinu, hvað segir hann þá? Þá segir hann: Fólkið veltir sér um á veitingahúsum um helgar, laugardögum og kannske sunnudögum líka. Þetta er sami ráðh. og ber ábyrgð á lífskjörum aldraðra og öryrkja í þessu landi. Það fólk veltist ekki um á veitingastöðum um þessar mundir. Og ekki heldur það fólk sem þessi hæstv. ráðh. ætlar að fara að leggja á sjúklingaskatta. Það er ekki á veitinga­stöðum. Það er á sjúkrahúsum. Og ég segi við hæstv. ráðh.: Ef það er svo að menn eigi að skammast sín fyrir eitthvað, þá er það málflutningur af því tagi sem hann iðkar hér aftur og aftur, einkum og sér í lagi þegar hann hagar sér með þeim hætti sem hann gerði hér áðan þegar honum var bent á hvernig núv. ríkisstj. hefur leikið lífskjör hins almenna launamanns. Hann á að hugsa til þessa fólks áður en hann veður að fulltrúum annarra stjórnmálaflokka hér í þinginu með þeim ummælum og með þeim hætti sem hann gerði hér fyrr í kvöld. Og það skal ég fullvissa hæstv. ráðh. um, þannig að það sé alveg á hreinu, að honum verður svarað svo lengi sem nauðsyn krefur úr þessum ræðustóli.