27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (270)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér hefur því verið haldið fram að um ógnarstjórn hafi verið að ræða í þessu landi, e.t.v. frá 1979. Engu að síður eru um 100 Bandaríkjamenn við nám í landinu, í læknaskóla að því er upplýst er. Undarlegt má það vera hafi þeim verið haldið þar í haldi allan þennan tíma án þess að fjölmiðlar hefðu ekki fengið eitthvað um það að segja og því sýnist mér að það sé ansi fast að orði kveðið að þar hafi verið um ógnarstjórn að ræða þetta tímabil. Vissulega eru það hörmulegir atburðir þegar forseti landsins er drepinn ásamt sínum ráðherrum. Það eru hörmulegir atburðir. Það var einnig hörmulegur atburður þegar Kennedy heitinn forseti var myrtur. Engu að síður hefðu menn varla látið sér detta í hug að þá væri réttlætanlegt að hefja innrás í Bandaríkin til að koma þar á lögum og rétti.

Afleiðingin af morðinu á Kennedy varð engu að síður sú að keppinautur hans, sem hafði falið fyrir honum í kosningum, Nixon, átti eftir að verða forseti Bandaríkjanna. Ég hygg að ef þjóð ætlar að taka að sér það hlutverk að hlutast til um innanríkismál annars ríkis í hvert skipti sem þar eiga sér stað ömurlegir atburðir og menn eru vegnir þá hljótum við að spyrja okkur þeirrar spurningar: Hvar eru landamerkin? Hvar eru stærðarmörkin? Hvenær eiga menn að hefja innrás? Er það þegar ríki er af stærð Grenada? Er það þegar land er á stærð við Íran? Er það þegar land er á stærð við Afganistan? Og spurningin hlýtur alltaf að leiða til sömu niðurstöðu: Það eykur á stríðshættu í heiminum meir en nokkuð annað ef þetta sjónarmið er ofan á. Þess vegna tel ég að þegar lög Sameinuðu þjóðanna eru brotin jafn skýlaust og hér er gert þá hljóti það að vera eðlileg viðbrögð hverrar þjóðar sem er aðili að samtökum Sameinuðu þjóðanna að gera það upp við sig hvort hún vill fordæma verknaðinn eða hvort hún vill beita sér fyrir lagabreytingum á lögum Sameinuðu þjóðanna. Það er ekkert val þarna á milli. Þess vegna tek ég undir með forsrh. á þann veg að persónulega fordæmi ég þessa innrás og tel að utanrrh. verði að gera það upp við sig hvort hann er hlynntur því að beita sér fyrir lagabreytingu á lögum Sameinuðu þjóðanna eða hvort hann vill að þau lög séu virt.